08.11.1976
Efri deild: 9. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

56. mál, launaskattur

Bragi Sigurjónason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 1. landsk. þm., Jóni Árm. Héðinssyni, að bera fram brtt. við frv. það til 1. um breyt. á lögum um launaskatt sem hér er til umr. Breytingin er við 2. gr. frv., eins og hím er nú, og ég ætla að leyfa mér að lesa hana deildinni til glöggvunar og svo brtt. sem við flytjum við greinina. En 2. gr. hljóðar svo lögunum eins og þau nú eru:

„Skattskyldir samkv. lögum þessum eru allir launagreiðendur, svo sem einstaklingar. félög, sjóðir og stofnanir, sveitarfélög og stofnanir þeirra, ríkissjóður, ríkisstofnanir, erlendir verktakar og aðrir þeir aðilar, sem greiða laun eða hvers konar þóknanir fyrir störf. Enn fremur hver sá sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða stundar sjálfstæða starfsemi. Skattskyldan nær til allra tegunda launa eða þóknana fyrir störf, hverju nafni sem nefnast, hvort sem greitt er í peningum eða á annan hátt. Sé greitt í hlunnindum skal meta þau til peninga.

Nú vinnur maður við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og skal þá áætla skattstofn hans vegna þess starfs eftir því sem ætla má að laun hans hefðu orðið ef hann hefði unnið starfið í þágu annarra aðila. Ekki skiptir máli í þessu sambandi, hver er rekstrarafkoma gjaldanda af hlutaðeigandi starfsemi.

Undanþegin skattskyldu eru laun eða þóknanir fyrir störf við landbúnað, jafnt vinna bóndans sjálfs og þeirra, sem hann greiðir laun. Enn fremur vinnulaun vegna jarðræktarframkvæmda og byggingarframkvæmda á bújörðum.“

Það er við þennan málslið 2. gr. sem við flm. gerum brtt., að hún orðist nú svo:

„Undanþegin skattskyldu eru laun eða þóknanir fyrir störf fólks, sem er 67 ára og eldra, og líkamlega fatlaðra, vangefinna og þroskaheftra, svo að metíð sé til 60% örorku eða meira af Tryggingastofnun ríkisins. Og svo kemur óbreytt: „Enn fremur laun eða þóknanir fyrir störf við landbúnað, jafnt vinnu bóndans sjálfs og þeirra, sem hann greiðir laun. Sama gildir um vinnulaun vegna jarðræktar- og byggingarframkvæmda á bújörðum.“

M.ö.o.: Við gerum þá brtt., að auk starfa bóndans og þeirra, sem að landbúnaði vinna, séu undanþegin laun sem greidd eru 67 ára gömlu fólki og eldra svo og öryrkjum sem metnir eru 60% öryrkjar samkv. áliti eða mati tryggingayfirlæknis Tryggingastofnunar ríkisins. Það þarf ekki að skýra það, að með hækkandi aldri þrengjast vinnumöguleikar fólks og þegar á ellilífeyrisaldurinn kemur er í óðaönn farið að loka á það dyrum vinnumarkaðarins, þótt margt af því sé ágætlega starfhæft og vinnuútilokunin orki á það margt hvert sem líkamlegt og sálarlegt áfall. Í enn ríkari mæli gildir það um líkamlega eða andlega fatlað fólk, að því verður erfitt að komast í atvinnu, svo sár nauðsyn sem því er það bæði líðanar sinnar vegna og vegna efnahags.

Hér á ekki að þurfa að benda á að alþjóð hefur skyldum að gegna við þessa þegna þjóðfélagsins eigi síður en aðra, nema frekar sé, jafnframt því sem þjóðarnauðsyn er að öll starfsorka nýtist sem best og helst til fulls. Með því að leggja ekki launaskatt á laun til 67 ára fólks og eldra og 60% öryrkja á einn eða annan hátt má ætla, að það orki sem nokkur örvun á vinnuveitendur að taka og hafa þessa aðila í vinnu og vær í það strax bót.

Einhver kann að hafa þau mótrök gegn þessari undanþágu launaskatts, að hér sé um tekjurýrnun fyrir ríkissjóð og Byggingasjóð ríkisins að ræða, og að sjálfsögðu er það rétt að svo verður í einhverjum mæli. Fyrst í stað verður þetta þó varla í stórum mæli. En beri till. þessi þann árangur sem hér er stefnt að: verulega aukningu á nýtingu vinnuafls öryrkja og aldraðra sem geta og vilja vinna, gefur anga leið að þjóðinni bætist óbeint margfalt upp nokkur rýrnun ríkistekna af launaskatti og má þá leita nýrra teknaleiða fyrir ríkiskassann. Umdeilanlegt kann að vera hvar setja skuli aldursmörk og örorkumörk varðandi undanþágu viðvíkjandi launaskatti. Áhugamenn um þessi málefni hafa nefnt 65 ára eða 67 eða 70 ára aldur og 50–60 eða 75% sem örorkumörk. Hér er farinn meðalvegur, lítandi á það, að úr má bæta ef reynsla sýnir önnur mörk hæfa betur.

Ég vænti þess svo að þessi brtt. okkar fái að fylgja frv. til n. og þar til álita nm. hvernig með skuli fara.