02.05.1977
Neðri deild: 84. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4086 í B-deild Alþingistíðinda. (3133)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð af minni hálfu nú. Ég ætla ekki að ræða sérstaklega efnisatriði eða afstöðu mína til þessa máls. Ég gerði grein fyrir því fyrr við umr. En mig langar til þess að víkja aðeins örfáum orðum að nokkrum þeim atriðum sem fram komu í umr. fyrr hér í deildinni.

Það voru nokkur atriði í sambandi við það, sem fram kom hjá hæstv. sjútvrh., sem mig langaði til að víkja að. Ég sagði eitthvað á þá leið, að þessi brbl.-setning hefði verkað á þann hátt, a. m. k. sums staðar á landinu, að þar sem áður en lögin voru sett voru róðrar í fullum gangi, þar hefðu þeir stöðvast eftir að brbl. voru sett. Þetta vefengdi hæstv. sjútvrh. og sagði vera rangt að lögin hefðu skapað verkfallsástand. Það er eigi að síður staðreynd, og ég hygg að hæstv. sjútvrh. viti ósköp vel, að það er staðreynd að á Ísafirði, í Bolungarvík og ég held örugglega — man ekki betur — Súgandafirði og Patreksfirði stöðvuðust róðrar vegna lagasetningarinnar. Ég held því að það sé ljóst, að þessi lagasening varð til þess, a. m. k. á Vestfjörðum, að stöðva á stöðum sem þessum róðra á bátaflotanum sem voru í fullum gangi áður en til lagasetningarinnar kom.

Hæstv. sjútvrh. sagði líka að bátar á þessum stöðum hefðu ekki verið tilbúnir til veiða, bátar á þessum stöðum hefðu hafið róðra fyrir þó nokkru. Sumir höfðu róið lengi þegar þessi brbl. voru gefin út, þannig að því er ekki til að dreifa að sú stöðvun, sem þarna var, hafi verið vegna þess að bátar voru ekki tilbúnir til veiða. Orsökin var sú, að setning brbl. varð til þess að stöðva veiðarnar.

Þá spurði hæstv. sjútvrh. eitthvað á þá leið, hvort með þessari lagasetningu væri verið að ráðast á samningsréttinn. Ég hygg að það þurfi ekki að varpa fram slíkri spurningu eða menn almennt þurfi að vera í vafa um að hér er vegið að samningsréttinum, hinum frjálsa samnings­rétti. Hæstv. sjútvrh. sagði þá og hefur sagt áður, að sjómenn mættu allt nema fara í verkfall. En a. m. k. þeim, sem kunnugir eru samningamálum og baráttu innan verkalýðshreyfingarinnar, er ljóst að það er tiltölulega lítil von til þess að ná fram árangri í samningum þegar fyrir fram er búið að kippa undan — í þessu tilfelli sjómannasamtökunum — þeim helga rétti sem verka­lýðshreyfingin telur verkfallsréttinn vera. Með ákvörðun af því tagi sem brbl. gerðu ráð fyrir, að banna verkföll og verkbönn, var búið að kippa í raun og veru grundvellinum undan því að von væri til þess að sjómenn gætu rétt hlut sinn almennt talað.

Ég sagði það hér fyrr, að á einstökum stöðum tóku sjómenn sjálfir sér það fyrir hendur sem einstaklingar, ekki í nafni sjómannafélaga eða verkalýðshreyfingarinnar, að stöðva róðra sem einstaklingar og neituðu að róa, og með því fengu þeir á sumum stöðum nokkra lagfæringu umfram það sem brbl. gerðu ráð fyrir. Ég gat þess einnig fyrr við umr., að mér fyndist á skorta hjá hæstv. sjútvrh. þegar hann væri að ásaka þann einstakling sem undirritaði margnefnt samkomulag fyrir hönd Alþýðusambands Vestfjarða með fyrirvara, — mér fyndist á skorta, að ef hann teldi sök vera hjá þessum tiltekna einstaklingi, þá spurði ég ráðh. í áframhaldi af því, hvað honum fyndist um það með hvaða hætti hinn aðilinn, þ. e. a. s. fulltrúar útvegsmanna, hefði haldið á málum. En í fyrrnefndu samkomulagi segir orðrétt í 2. lið:

„Aðilar lýsa því enn fremur yfir, að þeir munu beita sér fyrir því að heimildir verði veittar til þess að taka þegar upp samninga.“

Þetta á við um Vestfirði, vegna þess að samningar voru þar í fullu gildi, og þarna hlýtur þessi skylda að hafa hvílt á báðum aðilum, ekki aðeins á forsvarsmanni Alþýðusambands Vestfjarða, heldur og á forsvarsmanni hins aðilans, sem eru útvegsmenn, að beita sér fyrir slíku. Ég lýsti því hér fyrr í umr., að ég teldi að Alþýðusamband Vestfjarða hefði gert tilraun til þessa, en hún hefði ekki borið árangur, og ég spurði hæstv. ráðh. hvort hann liti ekki svo á, ef hann teldi sök hjá forsvarsmanni Alþýðusambandsins, að um sams konar sök væri að ræða hjá for­svarsmönnum útvegsmanna. Þessu var ekki svarað af hæstv. ráðh. En ég held að ef menn líta á annað borð þannig á, að hér sé um sök eða brigðmæli á loforðum eða undirskriftum að ræða, þá hljóti það að vera hjá báðum aðilum.

Hæstv. ráðh. sló á glens og sagði að það væru hér aðilar sem héldu áfram að berja höfðinu við steininn svo að glymdi í eins og í tómri tunnu. Það má rétt vera. En sumir aðilar þurfa ekki einu sinni að lemja höfðinu við steininn til þess að í glymji eins og í tómri tunnu. Og það á kannske við um suma hverja hv. þm., allt upp í hæstv. ráðh.

Ég skal svo ekki hafa öllu fleiri orð um þetta, herra forseti, en ég vil aðeins víkja að einu atriði sem kom fram í ræðu hv. 8. landsk. þm., Sighvats Björgvinssonar, þar sem ég tók svo eftir, — vera má að ég hafi misskilið, — en mér skildist að hann teldi að efni eða innihald laganna væri ekki aðalatriðið í sínum huga, heldur formlega hliðin, formsatriðin, hvernig að máli hefði verið staðið í sambandi við formlegu hliðina. Sé þetta rétt skilið hjá mér, þá þykir mér það miður, því að ég tel að ekki síst sé hér aðalatriði innihald þess boðskapar sem brbl. hafa að geyma. Mér þykir því miður ef það er álit fulltrúa Alþfl., að hann telji ekkert aðalatriði hvert innihald brbl. sé, heldur leggi hann miklu meira upp úr hinni form­legu hlið, þó að ég að sjálfsögðu taki undir það með honum, að margt er við formlega hlið málsins að athuga. En í mínum huga er ekkert síður athugavert við það innihald sem lögin hafa að geyma. En ég vona að hér hafi verið um mis­skilning að ræða, en ekki að hv. þm. hafi meint þetta.

Ég vil svo að lokum lýsa því yfir, að ég er samþykkur því nál., sem minni hl. sjútvn. stendur að, og mun greiða atkv. gegn þessum brbl.