02.05.1977
Neðri deild: 84. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4091 í B-deild Alþingistíðinda. (3136)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Pétur Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta frv. efnislega hér. Ég held að það séu allir búnir að fá nóg af þeim umr., bæði utan þings og innan, og öllum sé efnislega kunnugt um hvað það hefur að flytja og hver er afstaða þeirra aðila sem hagsmuna eiga að gæta í sambandi við þessi brbl. sem við erum nú að ræða um.

Ég vil samt sem áður segja nokkur orð vegna ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar áðan. Hann dró m. a. í efa að þau orð ráðh. gætu staðist, að upplausn og ringulreið væri fram undan. Ég held að þetta sé samt sem áður hárrétt, þegar haft er í huga að það lá fyrir mikill vafi meðal sjómanna, einstaklinga úr röðum sjómanna, um það, hvernig bæri að snúa sér gagnvart því ástandi sem hafði skapast, og það lá fyrir að málsókn yrði viðhöfð frá einstökum félögum og einstaklingum úr félögunum þegar til uppgjörs kæmi, þannig að það var auðvitað stórkostlegt vanda­mál fram undan.

Það er rétt sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að það var allt of lítil þátttaka meðal sjómanna þegar þeir tóku afstöðu til þessa máls, þótt hins vegar hafi hv. þm. ekki farið með réttar tölur, vegna þess að þegar hann talar um 1% úr Sjómannafélagi Reykjavíkur, þá er það af heildarfélagsmannatölunni, en fiskimenn eru miklu færri en þeirri tölu nemur. En samt sem áður get ég staðfest það, að það var allt of lítil þátttaka þarna.

Ég læt þessi orð mín nægja um frv. sjálft, því ég hef gefið það út í nál. n. að ég muni styðja það, m. a. til þess að staðfesta þá skoðun mína að ráðh. hafi haft fulla heimild og ríkisstj. hafi talið skyldu sína og nauðsyn að gefa þessi brbl. út. M. a. vegna þess að ég tel þá hafa haft laga­legan rétt til þess mun ég greiða atkv. með þessu frv., en hefði gert það án þess að sú gagnrýni hefði komið upp.

En það voru nokkur orð sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson viðhafði vegna starfa í n. Nú hélt ég satt að segja að svona stóra stráka og stæði­lega eins og hv. þm. er þyrfti ekki að boða dag­lega til fundar. Hann var á fundi í vikulok, fyrir örfáum dögum, þar sem við sátum nm. allir utan einn og þar sem ákveðið var að boða á fund okkar, ef þeir óskuðu eftir, en alla vega að ég ræddi við forustumenn viðkomandi hagsmuna­samtaka sem við sögu hafa komið og hann vissi vel um þennan fund. Hitt er rétt hjá honum, að það var ekki boðað sérstaklega til hans, ég skal taka undir það með honum. En hvort það sé brýn nauðsyn eða hvort það þurfi að verða hinn rauði þráður í umr. á síðustu dögum þingsins, hvort maður hafi verið boðaður daglega frá síðasta fundi n. og til þess sem úrslitum virðist ráða, eins og fundurinn í morgun mun hafa gert, þegar hv. þm. sagðist hafa verið fyrir innan næstu dyr, — hvernig svo sem ég átti að vita það, en reyndar mun hann hafa verið í öðru húsi, þannig að enn síður vissi ég það, — þetta fær auðvitað ekki staðist og á ekki heima í umr. um þetta mál. Ef hv. þm. móðgast yfir því að ég hafi ekki látið boða hann, þá bið ég hann hér með afsökunar á því og ég skal gæta þess að þetta komi ekki fyrir aftur á meðan ég gegni þessari stöðu. En vegna þess að hann lét orð að því falla að ég hefði ekki haft samband við þessa menn, þá vil ég aðeins undirstrika það enn einu sinni, — sem ég skýrði frá á fundi n. í morgun, en hann að þegar skýrðu máli gat ekki hlustað á og reyndar ekki heldur frsm. minni hl., vegna þess að hann var ekki mættur í tíma, en fékk þó að vita um þetta mál, þó að hann hafi látið öðruvísi þegar hann kom hér upp í ræðustól, — að ég hafði samband við formann Sjómannasambandsins. Ég spurði hann að því, hvort hann óskaði eftir að koma á fund sjútvn. Nd. og tjá sig um málið og hvort þeir hefðu breytt nokkuð um skoðun frá því að þeir komu á fund sjútvn. Ed. Hann kvað nei við, það væri sama skoðun enn hjá sér og hann sæi ekki ástæðu til þess að koma á fund n. Þeir hefðu átt mjög gagnlegar viðræður við n. Ed. og þar hefði þeirra mál komið fram. Sama sagði formaður Landssambands ísl. útvegsmanna. Í formann Farmanna- og fiskimannasambandsins náði ég ekki, en talaði hins vegar við fram­kvæmdastjóra þess sem hafði nánast sömu orð. Það að menn geti ekki kynnt sér hvað hafi verið sagt fyrir mörgum dögum í annarri d. en þeir eiga sæti í er auðvitað út í hött. Það er auðvitað hægt að fylgjast með því, hvað þar hafi verið sagt, ef menn hafa einhvern áhuga á því.

Það kom fram á fyrri nefndarfundinum um þetta mál, að öllum mönnum var boðið þar að tjá sig um málið. Þeir voru spurðir af formanni n., hvort þeir vildu að málið yrði sent til umsagnar, og þá voru allir sammála um að við hefðum þann hátt á sem við höfðum, að leita til samtakanna eða forustumanna þeirra og fá álit þeirra á málinu. En ég tel ekki rétt að þetta ráði afstöðu manna til málsins sjálfs. Hins vegar er ég sammála þeim sumum hv. þm. sem hafa rætt um þetta mál við mig, þótt þeir séu á önd­verðum meiði við mig, að það sé ekki ástæða til að hefja miklar efnislegar umr. um málið sjálft. En ef hv. minnihlutamenn í sjútvn. hv. d. telja sig geta haft nokkra skemmtun af því að skamma formann n., þá er þeim það velkomið mín vegna.