02.05.1977
Efri deild: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4117 í B-deild Alþingistíðinda. (3159)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Vestf. hafði nú mörg orð um lítið efni, held ég. Hann talaði allmikið um hræðslu og tortryggni, og kom nú í ljós hugur hans í þessu efni. Hv. þm. er vísindalegur, eins og við vitum, og maður skilur vel að hann vilji láta rannsaka mál. En mér skildist að hann væri ekkert hræddur um út­rýmingu hrygningarstofnsins, sem orðið hræðsla var nefnt í sambandi við. Hann vill bara athuga það vísindalega og bíða eftir því að stofninn hrynji, þá er kominn grundvöllur til að athuga hvers vegna hann hefur hrunið. Í raun og veru er þetta grundvöllurinn. (Gripið fram í.) Það kom fram síðar að hann nefndi haustið. En hvers vegna er þá flotvarpan bönnuð við meira en helming landsins? Hvers vegna er hún þá bönnuð? Ef þetta er ekki leið til að hamla gegn of­veiði, ef þetta er ekki leið til friðunar stofnsins, hvers vegna er þá í alllangan tíma búið að banna þetta veiðarfæri á miklum fiskislóðum? Ég held að þetta sé bara vandræðalegur málflutningur hjá honum. Ég sé ekki annað. Auðvitað er aug­ljóst, og það hafa skipstjórar sagt mér, að mjög sterkt afl í þessari viðleitni okkar er að banna flotvörpuna umhverfis landið.