02.05.1977
Efri deild: 84. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4143 í B-deild Alþingistíðinda. (3168)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal vera ákaflega stuttorður nú við þessa umr., nema frekara tilefni gefist til, eins og ég var við 1. umr. málsins. Við höfum átt þess kost, eins og þegar hefur komið fram af framsöguræðum beggja nefndarhluta, að yfirheyra þá sem eftir var óskað, alla sem til náðist, um mála­tilbúnað þann sem að baki þessu frv., sem hér liggur fyrir, var viðhafður.

Heilbrrh. hefur gefið, eins og á hefur verið minnst, út starfsleyfi til handa járnblendiverksmiðjunni sem að formi til og efnislega er í höfuðdráttum byggt á till. Heilbrigðiseftirlits ríkisins, en þó með nokkrum frávikum, eins og þegar hefur verið rækilega fram tekið.

Iðnn. Ed. hefur, að ég hygg svo tugum klukkustunda skiptir í s. l. viku, setið á fundum til þess að fá þar fram skýringar á nauðsynlegum atriðum í hinu veitta starfsleyfi.

Ég leyfi mér að fullyrða hér, að aldrei fyrr hafi íslensk stjórnvöld gefið út starfsleyfi til handa iðnaði hér á landi sem svo mikil vinna hefur verið lögð í eins og við útgáfu þessa starfsleyfis. Ég hafði hálfpartinn búist við því af frsm. minni hl. hv. iðnn. deildarinnar, að þeir alþb.-menn eignuðu sér þennan vandlega undirbúning að starfsleyfinu og legðu mest upp úr þeim sigrum sem þeir hefðu unnið með hinu öfluga atfylgi sínu að undirbúningi starfsleyfisins. En svo er ekki. Þeir leggja heldur höfuð­áhersluna á það sem talin eru frávik og minni háttar atriði af þeim sem gerst til þekkja. Ég hygg enn fremur að yrðu slík starfsleyfi sett öllum þeim verksmiðjum sem í dag eru reknar hér á landi, og eru þá ekki undanskilin þau iðnfyrir­tæki sem nú eru rekin í nánum tengslum við höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar, fiskveiðar og landbúnað, þyldu þær ekki kröfur sem farið er fram á við uppsetningu þessarar verksmiðju. Ég hef ekki heldur, þrátt fyrir alllanga samveru við hv. 5. þm. Norðurl. e. í iðnn. og alllanga ræðu hér í kvöld, heyrt hann enn þá tala um nauðsyn þess að endurskoða starfsleyfi, ef þær hafa þá nokkurt, hjá þeim verksmiðjum sem nú þegar eru í gangi eða að farið yrði ofan í kjölinn hjá öllum matvælaiðnaði íslenskum og settar svipaðar og hliðstæðar reglur og það sem farið er fram á við þessa verksmiðju nú. Mér kemur ekki til hugar varðandi þessa verksmiðju, fremur en neinar aðrar sem engum kemur til hugar í dag að stöðva rekstur á, að engin mengun verði frá þessari verksmiðju, og hefur enginn á þeim maraþonfundum, sem við höfum setið í hv. iðnn., sagt eitt einasta orð í þá átt og engum komið það til hugar. Hvaða verksmiðja er það hér á landi í dag sem framleiðir ekki einhverja mengun? Deilan stendur um hitt, hve mikil eða lítil hún er. Og það fullyrti hv. ræðumaður hér áðan, að heyrst hefði að engin mengun ætti að stafa frá þessari verksmiðju. Ég hef engan mann heyrt taka þessi orð sér í munn nema hv. 5. þm. Norðurl. e.

Við þær athuganir, sem fram hafa farið í n., og þær upplýsingar, sem ýmist hefur verið beðið um eða lagðar fram við undirbúning málsins og flutning þess nú, hefur ekkert það nýtt komið í ljós sem breytir þeirri afstöðu er ég ræddi um af hálfu okkar alþfl.-manna við fyrri umr. málsins. Þess vegna munum við fylgja frv. áfram, í fullu trausti þess að Heilbrigðiseftirlitið hafi strangar gætur á því, að því starfsleyfi, sem út hefur verið gefið, verði í einu og öllu framfylgt. Með því teldi ég stóran sigur hafa verið unninn almennt varðandi hollustuhætti á vinnustöðum, mengun og óþrifnað og hvers konar annars konar óhollustu sem fylgir slíkum og hliðstæðum iðnaði í landinu almennt, ekki einungis þessari verksmiðju, heldur yrði þá farið ofan í kjölinn almennt á hliðstæðum rekstri hér á landi. Eða er það einhvers virði fyrir Alþ. út af fyrir sig að setja þær reglur hér sem vonlaust er að verði farið eftir, — reglur sem verða pappírsplagg eitt og ekkert verður með gert? Ég tel hitt vera langtum stærra og veigameira atriði fyrir það fólk sem á að búa í návist þessarar verksmiðju og vinna í henni, að þær reglur einar verði settar sem mögulegt er að framkvæma samkv. þekkjanlegum takmörkunum þar um í dag. Í því efni treysti ég Heilbrigðiseftirlitinu fullkomlega til að fylgjast með framvindu mála.

Ég ítreka sem sagt það sem ég sagði í upp­hafi, að við alþfl.-menn munum fylgja frv.