02.05.1977
Neðri deild: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4145 í B-deild Alþingistíðinda. (3176)

234. mál, Iðnlánasjóður

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Þetta frv., sem lagt var fyrir Ed. og hefur verið afgreitt þaðan, felur í sér þrjú meginatriði.

1. gr. fjallar um að veita Iðnlánasjóði aukna lántökuheimild, en í núgildandi lögum er svo ákveðið, að hann megi taka allt að 300 millj. kr. lán. Þessu marki er þegar náð og nauð­synlegt að breyta núgildandi ákvæði, og er hér farið fram á eftir ósk stjórnar sjóðsins að fella þetta hámark niður.

Í sambandi við þessa breytingu er kannske rétt að taka það fram, að meðal þess starfsfjár, sem Iðnlánasjóður fær, eru lán frá Fram­kvæmdasjóði og hafa þau hækkað mjög nú að undanförnu, úr um 100 millj. upp í 250 millj. á s. l. ári, en í lánsfjáráætlun þessa árs er gert ráð fyrir 450 millj. úr Framkvæmdasjóði til Iðn­lánasjóðs. Þessi breyting ásamt því, að hækkað var í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár framlag ríkissjóðs til Iðnlánasjóðs úr 50 millj. í 150 millj., gerir það að verkum að ráðstöfunarfé Iðnlánasjóðs verður á þessu ári til útlána rúmar 1200 millj. kr., en var árið 1974 um 300 millj. röskar.

Önnur breytingin er varðandi lánadeild veiðarfæraiðnaðar, en fyrir um það bil 10 árum var ákveðið að stofna sérstaka lánadeild veiðarfæraiðnaðar og um leið var ákveðið að sérstakt að­flutningsgjald eða tollur skyldi lagður á sumar greinar innfluttra veiðarfæra. Nú hefur Lands­samband ísl., útvegsmanna farið eindregið fram á að þessi tollur verði niður felldur, og þeir aðilar, sem hafa með höndum framleiðslu veiðarfæra hér á landi, hafa tjáð sig samþykka því. Með þessari gr. er því gert ráð fyrir að fella niður þetta gjald, hins vegar starfi lánadeild veiðarfæraiðnaðar áfram.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að bæta inn í lögin nýjum tölulið á þá lund, að Iðnlánasjóði sé heimilt að lána einnig til framkvæmda er auka hollustu og öryggi og bæta starfsumhverfi á vinnustöðum. Við 2. umr. málsins í hv. Ed. fluttu tveir alþm., þeir Eggert G. Þorsteinsson og Jón Árm. Héðinsson till. um að bæta inn í lögin ákvæði um að sérstök deild skyldi fjalla um þessi mál. Að beiðni minni var sú till. tekin aftur til 3. umr. til að kostur gæfist á að ræða hana í iðnn. Ed. milli 2. og 3. umr. og einnig við forráðamenn Iðnlánasjóðs. Náðist samkomu­lag um það við 3. umr. að bæta við því ákvæði sem greinir í 3. gr. frv.

Ég legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og iðnn., og vænti þess, að málið geti fengið afgreiðslu á þessu þingi.