02.05.1977
Neðri deild: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4151 í B-deild Alþingistíðinda. (3196)

21. mál, leiklistarlög

Jónas Árnason:

Herra forseti. Það getur verið að alþm. hafi ekki tekið eftir því vegna annríkis á öðrum vettvangi, að þetta þjóðfélag er orðið næstum að segja allt saman vettvangur umr. um leiklistarmál. Leiklistarstarfsemi í þessu landi er meiri en í nokkru öðru landi. Árleg aðsókn að atvinnuleikhúsunum er næstum því íbúatala þessarar þjóðar. Og svo eru öll áhugaleikhúsin. Áhugastarfsemi úti um allt land og áhugi fólksins bæði að taka þátt í þessu og koma í leikhúsin er með eindæmum. Hvergi í heiminum er annar eins leiklistaráhugi, önnur eins leiklistarstarfsemi og hér á Íslandi.

Fróðlegt er að velta fyrir sér orsökum þessa. Mér koma í hug vissar skýringar. Sá gamli menningaráhugi, sem bundinn var við okkar fornu sögur öldum saman, beinist nú að leikhúsunum. Við byggjum hér sem sé á gömlum merg. Hinar fornu sögur okkar eru leikrænar bókmenntir. Hvar sem við lítum í fornsögurnar blasa við okkur leiksvið, leikræn atriði, leikræn tilsvör. Hver baðstofa var að vissu leyti leikhús. Sögurnar voru lesnar upp, og það orsakaði enn meiri leikræn áhrif.

Hæfileikinn til að skrifa leikrit og leikrænn áhugi þjóðarinnar þroskaðist í gegnum aldirnar, þrátt fyrir það að þjóðin eignaðist aldrei leik­hús. Þetta eins og flest annað gott í menningu okkar eigum við þannig fornsögunum að þakka. Það má nefna ótal staði í fornbókmenntunum sem eru næstum að segja eins og skrifaðir fyrir leiksvið, og ekki bara fyrir leiksvið, heldur líka kvikmyndir. Sögurnar eru næstum að segja eins og kvikmyndahandrit sums staðar.

Upp úr þessum akri sprettur leiklistarstarf­semi nútímans. Og sú kemur tíð, að upp úr þessu sprettur eitthvað stórt í menningu þessarar þjóðar. Þó að við, sem hér stöndum núna verðum þá e. t. v. komnir undir græna torfu, þá kemur sú tíð, að þessi þjóð eignast heimsmeistara í leikritagerð.

Já, þjóðfélag okkar er allt saman að verða vettvangur umr. um leiklistarmál. Og þá er náttúrlega ekki seinna vænna að setja það í lög, að tiltekið ráð, sem heitir leiklistarráð, skuli líka vera vettvangur umr. um leiklistarmál!