02.05.1977
Neðri deild: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4153 í B-deild Alþingistíðinda. (3199)

21. mál, leiklistarlög

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Nú er illa farið — hæstv. ráðh. nýbúinn að þakka fyrir að brtt. skuli dregin til baka, og þá verður hann að fara að afneita þökk sinni í næstu ræðu. En ég get ekki varist því að spyrja, þegar farið er að ræða þetta mál og við höfum heyrt það með orðum hv. 5. þm. Vesturl., Jónasar Árnasonar, sem ég tek mikið undir og tel að allt sem hann sagði sé bæði rétt og satt og spaklega, eins og búast má við af þeim félögum, að við höfum leiklistarstarfsemi í þessu landi sem er meiri en í nokkru öðru landi, og þetta er satt og rétt: Þurfum við þá nokkuð á þessu leiklistarráði að halda? Við höfum þá staðreynd fyrir framan okkur, sem þeir félagar hafa líka komið auga á, að hver baðstofa sé leikhús eða hafi verið meðan baðstofur voru hér, og það kom fram hjá okkar ágæta forseta d. að hvert heimili væri það og hv. Alþ væri það einnig, og þetta skeður jafnvel þó að ekkert leiklistarráð sé. Ég legg til að síðasti tillöguflm. geri nú bragarbót á till. sinni og leggi til að 4., 5. og 6. gr. verði felldar út úr frv. Ég sé ekki annað en það taki miklum bótum með því. Ég fæ ekki séð annað en með 4. gr. t. d. sé verið að gefa þessu ólaunaða ráði all­mikið vald til þess að stofna til kostnaðar eða a. m. k. á það að geta stuðlað að því. Þetta getur orðið margra tuga manna ráð með tímanum og jafnvel strax á fyrsta ári ef að líkum lætur. En samkv. 6. gr., þótt þetta ráð sé ólaunað, á að greiða því þóknun fyrir stjórnarstörf og ferða- og dvalarkostnað utanbæjarmanna vegna fundasetu. Ef að líkum lætur og þetta ráð verð­ur jafnáhugasamt og þjóðin öll að sitja og rabba um leiklist og taka þátt í leiklist árið út og árið inn, þá kannske situr hér í Reykja­vík eða einhvers staðar annars staðar 20–30 manna hópur og borðar og drekkur út á Matthías Á. Mathiesen og okkur hina hjá þessari þjóð. Og þetta er verið að leggja til þegar talið er að ekki sé hægt að hækka laun við þá lægst launuðu í þjóðfélaginu. Mér finnst svo hjákátlegt og okkur til háborinnar skammar og van­virðu að vera að troða þessu áfram á síðustu dögum þingsins, að ég vil mjög mælast til þess að einhverjir þm. taki þá brtt. upp með mér að þessar gr., 4., 5. og 6. gr., verði felldar burt úr frv. Þá skal ég láta þetta vera lausn minna mála, ef ég má orða það þannig, og lofa því að fara áfram sem eftir er af þessu frv.

Ég endurtek það, að það besta væri að lofa frv. að liggja alveg. En ég fæ ekki séð annað en aðrar gr. frv. séu frekar til staðfestingar á því, sem þegar er fyrir hendi, og þó með nokkrum breytingum, en ástæðulaust að taka upp þessar þrjár greinar.