02.05.1977
Neðri deild: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4153 í B-deild Alþingistíðinda. (3200)

21. mál, leiklistarlög

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. var að finna að því, að við skyldum vera að eyða síðustu klukku­stundum þinghaldsins til þess að ræða um svona ómerkileg mál. Ég vil láta það koma fram hér, að það er ekki sök þess sem flytur þetta mál.

Þetta mál var lagt fram til kynningar hér á síðasta þingi, og það var flutt á fyrsta degi þings­ins s. l. haust. Ég vil að það komi fram, að það er ekki hans sök að það er til umr. einmitt þessa daga, en hefur ekki hlotið meðferð fyrr á þessu þingi.

Ég vil segja það annars út af þessum brtt., sem nú eru orðnar tvær, að í fyrsta lagi eru ekki einasta skýringarnar svo knappar heldur frv. sjálft svo stutt og fáort, að ég held, hvort sem menn nú draga það út úr frv., að ráðið skuli vera vettvangur umræðna um leiklistarmál ellegar það skuli stuðlað að stefnumótun, að það megi varla við því að kippa út þessum ákvæðum. Ég var búinn að lýsa því, að ég væri andvígur þeirri till. sem kom hér fram fyrst og var síðan dregin til baka og nú tekin upp aftur. Og ég er einnig andvígur till. hv. 5. þm. Reykv.

Ég held að ég verði að skýra örlítið nánar en ég gerði áðan hvað vakir fyrir mér sem flm. þessa frv. fyrir hönd ríkisstj. með þessu ákvæði þarna í 4. gr.: að stuðla að stefnumótun, sem að mínum dómi gæti alveg eins verið að stuðla að skipulagningu eða bættri skipan leiklistarmálanna. Og ég held að ég skýri best, hvað fyrir mér vakir, með því að vitna í aths. mþn. orðréttar, þau atriði sem eiga við frv. eins og það er núna, sem eiga við þau ákvæði sem eru í frv. um verksvið leiklistarráðs, og gera þær um leið að mínum:

„Í gr. eru talin upp og flokkuð nokkur helstu viðfangsefni sem leiklistarráði er ætlað að sinna og munu þau varla þarfnast langra skýringa.

Leiklistarráð á í fyrsta lagi að vera samvinnunefnd og ráð sem opinberir aðilar gætu snúið sér til og leitað álits og ráða hjá um allt það sem varðar þessi mál á innlendum vettvangi.“

Nú hleyp ég yfir þann þátt sem ekki á lengur við, vegna þess að ekki eru öll þau ákvæði um verksvið leiklistarráðs í frv. því, sem hér liggur fyrir, ekki öll þau sömu og voru í frv. mþn. Svo segir:

„Leiklistarráði og framkvæmdastjórn þess er ætlað að fylgjast almennt með menntun leiklistarfólks og þá sérstaklega með framhaldsmenntun og endurhæfingu eða símenntun þess. Þegar talað er um að styðja rannsóknir og nýjungar í leiklistarmálum er einkum átt við tilraunaleik­hús, svo og ýmsar aðferðir við rekstur leikhúsa, og leikflokka er gefin hafa verið ólík nöfn, en allar stefna að því að forða leikhúsinu frá stöðnun eða afturför, en koma því í nánari snertingu við mannlíf líðandi stundar. Þessu skyld eru rannsóknarstörf í leiklistarmálum, bæði sögulegar rannsóknir og félagsfræðilegar, en hinar síðar­nefndu ryðja sér nú mjög til rúms í listum og öðrum menningarmálum. Kynning á leiklist í skólum getur verið með ýmsum hætti. Beinni fræðslu í þessum efnum verður vart komið við skyldunámsskólum eða framhaldsskólum, nema í formi valgreina, en áherslu verður væntanlega að leggja á heimsóknir leikfélaga í skólum og eigin leiklistarstarfsemi nemenda. Kynning á leiklist fyrir almenning hlýtur einkum að fara fram í fjölmiðlum og sér í lagi sjónvarpi og hljóðvarpi. Möguleikar sjónvarps í þessum efnum eru nær ótæmandi. Námskeið fyrir áhuga­ fólk mundu teljast til þessara verkefna, svo og uppeldisleg leiktjáning sem rutt hefur sér mjög til rúms í öðrum löndum og dæmi eru til um að sé kennd sem námsgrein í kennaraskólum.“

Þá segir hér enn, að hlutverkið sé „að stuðla að eflingu leikritunar og útgáfu leikbókmennta, hvort heldur er í prentuðu eða fjölrituðu máli. Þetta er verkefni sem ekki verður litið fram hjá þegar fjallað er um vanda leikhúss og leiklistar á Íslandi. Leikfélag Akureyrar hefur riðið á vaðið með raunhæfri samvinnu við leikritahöfunda. Væntanlega má finna ýmis úrræði til eflingar leikritunar, bæði með hefðbundnum og öðrum hætti. Það þyrfti að veita leikritahöfundum aukin tækifæri til að afla sér frekari þekkingar á sínu sviði með kynnisferðum og námsvist er­lendis og nánari samvinnu og samskiptum við lifandi leikhús og við leikara. Leikritun fyrir sjónvarp er kapítuli út af fyrir sig sem lýtur allt annarri tækni en leikritun fyrir venjuleg leik­hús.“

Loks segir hér: Leiklistarráði er ætlað „að stuðla að samvinnu leikhúsa og leikflokka. Mörg mikilvæg verkefni bíða úrlausnar í leiklistarmálum, sem vonir standa til að auðvelda megi lausn á með skipulegri samvinnu þeirra stofnana, félaga og einstaklinga, sem að þessum málum vinna, og samræmingu á störfum þeirra. Er hér einkum átt við skipulagningu leikferða um landið, svo og hin miklu vandkvæði sem eru að verða á að fá leiðbeinendur og leikstjóra til starfa í byggðum landsins. Enn fremur má nefna skipti á leikurum milli hinna ýmsu leikhúsa og leikfélaga.“

Þetta er nefnt hér sem dæmi um hlutverk leiklistarráðs, og það er þetta eða eitthvað þessu líkt sem fyrir mér vakir þegar ég legg til að nefna þarna að stuðla að stefnumótun í leik­listarmálum. (Gripið fram í) Jú, 4. liðurinn tekur yfir allt milli himins og jarðar. En þegar verið er að setja svona vinnureglur, þá er venjan að telja upp aðalatriðin og hafa svo safnlið í lokin. Það er alveg rétt hjá hv. 5. landsk., að 4. liðurinn er þannig. En þetta rifjaði ég upp nú enn þá betur en ég gerði áðan, til þess að það liggi eins ljóst fyrir og ég a. m. k. treysti mér til að gera grein fyrir því, hvað fyrir mér vakir með þessu ákvæði. Og ég tek skýrt fram, að ég er andvígur báðum þessum brtt. og vænti þess nú satt að segja, að hv. d. skerði ekki þetta orðknappa frv. með því að samþykkja þær aðra hvora og því síður kannske báðar.