02.05.1977
Neðri deild: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4156 í B-deild Alþingistíðinda. (3202)

21. mál, leiklistarlög

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Mér fannst ég alls ekki geta látið þetta frv. fram hjá mér fara nema að segja nokkur orð, þó ekki væri nema aðeins vegna þess að ég er mikill áhugamaður um leiklistarmál, þó að ég hafi aldrei samið leikrit eins og þeir félagar Shakespeare og Jónas. Hins vegar fer ég reglulega í leikhúsið, hef að vísu misgaman af, en það er á fimm ára fresti. Annars lærði ég að lesa löngu áður en ég fór fyrst í leikhús, og ég gerði mér það ómak að renna augunum yfir þetta skjal, og ég er ekki viss um að ég hafi orðið mikils vísari, því að ég spurði sjálfan mig: Hvað er það sem okkur vantar helst í þessu landi? Af þessu plaggi væri helst að ráða að okkur vantaði eitthvert nýtt ráð, nógu stórt ráð. Til þess að þetta ráð hefði eitt­hvað að gera yrðum við að reyna að grufla eitthvað upp hvað við gætum falið því sem verkefni.

Þegar þetta frv. er lesið yfir kemur í ljós að það er ekkert nýtt í 1. gr. og ekki heldur í 2. gr. sem máli skiptir. Ríkið rekur og kostar þjóðleik­hús og leiklistarskóla, og svo kemur fjármagn til hinna ýmsu leikfélaga sem þarna eru upp talin. Í 3. gr. er það sem við vitum, að pening­ar koma til hinna ýmsu leikfélaga. En svo kemur 4. gr., og þá kemur fyrst eitthvað nýtt og það er tilbúningur ráðsins, u. þ. h. 25 manna ráðs. (Gripið fram í: Nei.) Ne-ei, sagði einn hv. þm. Ég er nú ekki viss um að við færum mjög langt frá þess­ari tölu ef við bara byrjuðum að telja, og ég ætla ekki núna að fara að kenna hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur að telja fyrst mér hefur ekki tekist það fram að þessu. En vil benda henni á að byrja bara aftan frá, eins og ég gerði, og mér fannst það mjög leikræn aðferð að fara aftan að hlutunum að þessu sinni. Og ég komst að því að þarna mundi koma eitthvað um kvarthundrað út úr þessu. Ég kem kannske aðeins að því síðar, hvað í 4. gr. stendur, sem mest hefur verið rifist út af, og meira að segja frægir leikritahöf­undar, sem eiga sæti hér á hv. Alþ., hafa haft mjög leikræna tilburði með því að koma inn á sviðið og út af því aftur með bravör, ýmist til þess að flytja brtt. eða draga þær til baka. Þetta hefur verið dæmalaust skemmtileg sviðssetning, og ég er sannarlega farinn að hlakka til að fara á næstu leiksýningu, sem mun hljóta að verða í haust, því að þá eru komin 5 ár hjá mér. Auð­vitað þurfti þetta ráð að hafa eitthvað að gera.

Svo er í 5. gr. fjallað um hverjir eiga að vera í ráðinu. Það er auðvitað ósköp eðlilegt að taka eitthvað af því fólki sem er í þessu hvort sem er og vinnur allt að leiklistarmálum hvort sem er. Það eru t. d. þrír frá Félagi ísl. leikara og tveir frá Ríkisútvarpinu. Og ef maður lítur svo strax á næstu grein, sést að það þarf ekki nema þessa aðila, bara fulltrúa frá leikurum og Ríkis­útvarpinu, til þess að kalla ráðið saman viku­lega af öllu landinu ef þeim sýndist svo. Ég er ekki að segja að það verði gert. Og þá er ég hræddur um að fari að hækka svolítið kostnaðurinn sem hv. þm. Pétur Sigurðsson benti rétti­lega á. Enda vil ég taka undir það, ég væri til­búinn til þess að flytja með honum till. um að leggja niður þessar þrjár gr. sem hann nefndi. Þá kemur að því, að þær fyrstu þrjár eru auðvit­að í lögum fyrir og eru þá sjálffallnar og þar með frv. allt, því að það er hégómi, allt er hégómi í þessu frv. og eftirsókn eftir vindi, gott ef það er ekki prédikarinn.

Brtt., sem hér var frá hv. þm. Svövu Jakobsdóttur leikritahöfundi, hv. þm. Eyjólfi K. Jóns­syni hrútabana og Magnúsi T. Ólafssyni, hv. þm., fyrrv. ráðh., var það, að liður I félli niður úr 4. gr. Sá liður er um það, að ráðið verði vett­vangur skoðanaskipta og umræðna um leiklist­armál og stuðli að stefnumótun á hví sviði á hverjum tíma. Hér í vetur las ég einu sinni þriggja blaðsíðna viðtal við heimsfrægan leik­listarmann utan úr heimi, og ég rauk á Þjóð­viljann, þegar hann kom út úr póstkassanum hjá mér, til þess að gleypa í mig fræði um leiklistina, því að það var mikill áhugamaður um leiklist, svo mikill áhugamaður um leiklist að hann er giftur leikkonu, sem skrifaði viðtalið. Og ég hélt að ég fengi þar miklar upplýsingar um Shakespeare og alla hans kúnst og leiklistina yfir höfuð. En það var ekki orð um það að finna. Það var hins vegar þriggja blaðsíðna runa um nýja heimspeki sem ég er viss um að hv. þm. vita um hvað var. En með tilliti til allra þessara hluta finnst mér það vera furðulegt hugmyndaflug að láta sér detta í hug að klippa út þennan fyrsta hluta 4. gr., sem segir þó hvað þessi samtíningur fólks úr öllum landshornum eigi að tala um. Það gæti kannske farið að tala um eitthvað allt annað þegar það hittist ekki nema einu sinni á ári og engar líkur til þess raunar að það færi að velta þessu fyrir sér. Og ég sé ekki betur en það sé alveg nauðsynlegt að það skipti um skoðanir álíka oft og hv. þm. Svava Jakobsdóttir hefur gert núna á 5 mínútum. En satt að segja, ég verð að segja það þrátt fyrir mikinn leiklistaráhuga, að þá finnst mér þetta frv. vera dæmi um einskæra sýndar­mennsku og einskisverða hluti. Fyrri helmingurinn fjallar um hluti, sem þegar eru til, og seinni helmingurinn um hluti, sem mér sýnist vera gersamlega óþarfir. Ég lýsi því hér með yfir, að ég get alls ekki staðið að afgreiðslu svona máls sem er einskis virði að mínum dómi.