02.05.1977
Neðri deild: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4162 í B-deild Alþingistíðinda. (3213)

18. mál, skylduskil til safna

Frsm. meiri hl. (Ingvar Gíslason):

Herra for­seti. Ég skal viðurkenna að ég er búinn að tala talsvert um þetta mál, en ýmsar ástæður verða nú til þess að ég óska að segja enn nokkur orð.

Ég vil taka það fram, að ég er enn þá sömu skoðunar og ég lýsti s. 1. laugardag, að ekki sé að finna efnisbreytingar í frv. þessu eftir af­greiðslu þess í Ed. Þessar breytingar eru form­legs eðlis, en með nokkru ívafi af orðhengils­hætti, eins og ég leyfði mér, held ég, að orða það. Um þetta hef ég enn sömu skoðun. Hins vegar get ég endurtekið, að þessar breytingar eru svo meinlausar og svo smásmugulegar að þær koma ekki að neinni sök. Þess vegna get ég ekki annað en mælt með samþykkt frv. í núverandi bún­ingi.

Aðalbreytingin er sú, að ákvæði, sem fyrr var í 10. gr., er nú í 13. gr. Þetta kalla ég formbreytingu. Smávægilegan orðalagsmun kalla ég á mæltu máli orðhengilshátt. En nú hefur komið í ljós að einn hv. þm., hv. 3. þm. Suðurl., skilur af­greiðslu hv. Ed. sem efnisbreytingu. Hann virð­ist lesa annað efni út úr núverandi 13. gr. en var áður í 2. mgr. 10. gr. En við skulum líta nánar á efni málsins og tilgang ákvæðisins í núverandi 13. gr. sem áður var 10. gr.

Að mínum dómi er tilgangur hv. Ed. efnislega alveg hinn sami og var tilgangur okkar hér í hv. Nd. En hvað snertir það atriði, sem hér er eink­um rætt, er tilgangurinn sá að tryggja þremur tilteknum söfnum í landinu takmarkaðan skylduskilarétt. Og ég vil benda á að þetta er aðalatriðið. Það er að tryggja þremur tilteknum bókasöfnum takmarkaðan skylduskilarétt. Um þetta eru Ed. og Nd. sammála, þannig að efnisbreytingin er í sjálfu sér engin. Og á hverju skyldi þetta nú byggjast? Á hverju skyldi þessi tilgangur byggjast, að tryggja þessum þremur sérstöku bókasöfnum takmarkaðan skylduskilarétt? Hann byggist að öllu leyti á sögulegum ástæðum. Þau söfn, sem hér um ræðir, hafa notið réttar og það lögbundins réttar til að fá ókeypis prentmál allt upp í 90 ár og raunar þar yfir. Ég bið menn að taka eftir því, að Amtsbókasafnið í Stykkishólmi hefur átt þennan rétt síðan 1886, Amtsbókasafnið á Seyðis­firði síðan 1907 og Bókasafnið á Ísafirði síðan 1909, að lög voru samþykkt um það. Það er því misskilningur, sem þráfaldlega kemur fram hjá hv. 3. þm. Suðurl., að verið sé að veita þessum söfnum sérréttindi. Það er öðru nær. Með þeirri löggjöf, sem nú er verið að setja um skyldu­skil til safna, er raunverulega verið að svipta þessi söfn rétti sem þau hafa haft að lögum í marga mannsaldra. Og hv. 3. þm. Suðurl. veit vel að erfiðleikarnir við að koma þessu máli fram hafa stafað af tregðu margra þm. og þ. á m. innan menntmn. þessarar hv. d. að taka þennan rétt af söfnunum. Um þetta hafa umr. snúist síðustu 2–3 ár a. m. k. Loks fór svo að við í menntmn. hér í þessari hv. d. ákváðum að höggva á þennan hnút. Minni hl. n. vildi samþykkja það alveg óbreytt. Meiri hl. n. lagði til að frv. yrði samþykkt óbreytt að allri höfuð­stefnu, þannig að skilaskyldan skyldi miðast við fjögur eintök, sem er fækkun úr 12, en þrjú söfn skyldu njóta takmarkaðrar skilaskyldu, þ. e. a. s. að þeim bæri að fá afhent til varðveislu þau rit sem væru styrkt af opinberu fé. Ætlun okkar var að draga nokkuð úr þeirri réttinda­sviptingu sem þessi söfn yrðu fyrir eftir að nýtt skipulag kæmist á. Ég vil því enn leggja áherslu á að hér er ekki um sérréttindi að ræða fyrir þessi söfn, heldur í raun og veru um réttindasviptingu. Það er t. d. fjarri því að hægt sé að tala um að þarna sé um að ræða sérréttindi á kostnað Bókasafns Vestmannaeyja. Ef menn kynna sér sögu málsins, þá verður það alveg ljóst. Ég geri alls ekki lítið úr ágæti Bóka­safns Vestmannaeyja, og mér finnst ekki lítið til um áhuga hv. 3. þm. Suðurl. á málefnum þess safns. Hins vegar gætir misskilnings í afstöðu hans til þessa máls í heild, og þann misskilning vil ég leiðrétta.

Hv. 3. þm. Suðurl. benti á í ræðu sinni s. l. laugardag, að sá munur væri á orðalagi á umræddum frv.-texta, að Ed. felldi niður orðin „til varðveislu“, og að sú niðurfelling þýddi efnisbreytingu á greininni. Þetta tel ég rangt. Hér er ekki um efnisbreytingu að ræða, aðeins blæbrigðamun á orðalagi, sem mun einkum eiga rót sína að rekja til manna utan Alþingis sem reynt hafa með ýmsum ráðum að koma í veg fyrir að ákvæði í þágu hinna umræddu gömlu amtsbókasafna yrði fellt inn í þetta frv. Veit ég að vísu að þessir menn, sem ég er hér að nefna utan Alþingis vilja gömlu amtsbókasöfnunum ekki illt, en formskyn þeirra og sérfræði þeirra segir þeim, að ákvæði þar að lútandi eigi ekki heima í löggjöf um skylduskil til safna. Í þeirra huga hefur orðið „varðveisla“ í þessu frv. svo sérgreinda merkingu, að það á að vera alveg afmarkað fræðilegt hugtak og getur að þeirra dómi ekki átt við aðrar bækur en þær sem geymdar eru í Landsbókasafni, Háskólabókasafni og Amtsbókasafninu á Akureyri. Sem sagt: Sú menningarlega nauðsyn, að prentað mál sé vel varðveitt til síðari tíma og aðgengilegt í þágu fræða og vísinda, er orðin að uppþornaðri sér­fræði sem er hætt að skilja mælt mál og ergir sig allra mest út af smámunum. Nú segi ég og hef margsagt, að þessi orðhengilsháttur gerir ekkert til. Ég tek það ekki illa upp þó að orðin „til varðveislu“ séu felld niður úr frvgr., vegna þess að það breytir engu efnislega. Eftir sem áður stendur það sem til er ætlast, að Amtsbókasöfnin á Seyðisfirði og Stykkishólmi og Bókasafnið á Ísafirði halda rétti sínum til að fá ókeypis nokkuð af ritum sem styrkt eru af almannafé, og þar verða þessi rit „varðveitt“ til afnota fyrir safngesti samkv. nánari reglu sem menntmrh. mun setja. Þetta á allt að geta gerst hvað sem líður þyrrkingslegri hugtaka­smið og fræðilegum vangaveltum örfárra bókasafnsfræðinga.

Þó að þetta dæmi sé ekki stórvægilegt, þá er það á sinn hátt spegilmynd af fræðilegri smá­smygli og orðhengilshætti og þeirri vísinda­mennsku sem nennir að standa í deilum um keisarans skegg.

Því betur sem ég hugsa um tillöguflutning hv. 3. þm. Suðurl., því augljósara virðist mér að hann er á misskilningi byggður. Till. hans um Vestmannaeyjasafnið var byggð á misskilningi og till. hans nú er byggð á sama misskilningi. Hann rekur mál sitt á grundvelli kjördæmissjón­armiða, sem ég tel ekki einasta pólítískt óheppi­leg, heldur í andstöðu við eðli alls þessa máls. Það er í andstöðu við megintilgang laganna um skilaskyldu prentmáls, og það er í andstöðu við þær sögulegu ástæður sem réðu því að menntmn. beitti sér fyrir því að þrjú söfn héldu að nokkru gömlum rétti sínum. Ég mun því ekki greiða atkv. með till. hv. 3. þm. Suðurl., og vona að sú till. verði felld. En ég vil taka það fram að í þessu efni hlýt ég að tala fyrir sjálfan mig, en hvorki sem formaður menntmn. né frsm. fyrir þá n. sérstaklega.