03.05.1977
Sameinað þing: 84. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4170 í B-deild Alþingistíðinda. (3235)

214. mál, endurskoðun á opinberri atvinnu- og þjónustustarfsemi

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og hv. 11. þm. Reykv. gat hér í ræðu sinni áðan, kom það fram í fjárlagaræðu minni fyrir árið 1977, að ég teldi tvö meginmarkmið sem unnið skyldi að varðandi endurskoðun og um­bætur á opinberri atvinnu- og þjónustustarfsemi ríkisins: Í fyrsta lagi bæri að kanna hvort ýmis framleiðslu- og þjónustustarfsemi, sem hið opin­bera hefði með höndum, sé betur fyrir komið í höndum einstaklinga eða félaga þeirra. Í öðru lagi að gerð verði könnun á starfsemi og rekstri ríkisstofnana og athugað á hvern hátt settum markmiðum sé náð og hvernig fjármunum, sem ætlað er til viðkomandi starfsemi, sé varið. Enn fremur hef ég lagt áherslu á að hlutur ríkisútgjalda af þjóðarframleiðslunni fari ekki yfir ákveðið hlutfall og það minnki frá því sem verið hefur. Sem svar við fsp. hv. þm. vil ég segja þetta:

Til að vinna að athugun á hvaða framleiðslu- og þjónustustarfsemi, sem hið opinbera hefur með höndum, sé betur komið í höndum ein­staklinga eða félaga þeirra hefur verið skipuð n. 7 manna. Í þeirri n. eiga sæti Árni Vilhjálmsson prófessor, formaður, Gísli Blöndal hagsýslustjóri, Guðríður Elíasdóttir, formaður Verkakvennafé­lagsins Framtíðarinnar, Ingi Tryggvason alþm., Jón Árnason alþm., Ólafur Sverrisson kaupfélags­stjóri og Víglundur Þorsteinsson framkvæmda­stjóri.

Ljóst er að hér er um viðamikið verkefni að ræða sem mun taka talsverðan tíma. Hins vegar hef ég óskað að n. geri mér grein fyrir niður­stöðum jafnharðan og verkinu miðar áfram þannig að unnt verði að meta álit hennar eftir því sem tilefni gefst til.

Eins og ég gat um hér að framan er meginmarkmiðið skýrt. Þó ekki sé ástæða til að taka almenna ákvörðun um það í eitt skipti fyrir öll, hver skuli vera hlutdeild ríkisins í atvinnurekstri landsmanna, hef ég lýst þeirri skoðun minni, að ríkið eigi ekki að vera þátttakandi í atvinnu­starfsemi í landinu í samkeppni við einstaklinga og félög þeirra sem geta sinnt þeirri starfsemi á fullnægjandi hátt, heldur afhenda þeim þau verkefni. Ljóst er að störf n. munu fyrst og fremst beinast að þeim stofnunum ríkisins þar sem starfsemi viðkomandi stofnunar er í sam­keppni við einstaklinga eða félög þeirra. Verk þetta er ekki það langt á veg komið að hægt sé að gera grein fyrir nánari vinnutilhögun né hvaða byrjunarverkefni n. muni taka fyrir.

Annað meginviðfangsefnið á sviði opinberrar hagsýslu er að gerð verði könnun á starfsemi og rekstri allra ríkisstofnana. Kannað verði hver sé tilgangur með starfi hverrar stofnunar og jafnframt verði skoðað á hvern hátt þeim tilgangi sé náð og þeim fjármunum, sem ætlað er til viðkomandi starfsemi, sé varið. Vinna verður að þessu verkefni í áföngum og taka fyrir á hverju ári ákveðinn fjölda ríkisstofnana. Fjár­laga- og hagsýslustofnun ásamt ríkisendurskoðun mun hafa umsjón með verkefni þessu í samvinnu við viðkomandi fagrn.

Eitt af grundvallaratriðum þess, að hægt sé að vinna að þeim verkefnum sem ég hef lýst hér að framan, er að til séu haldgóðar upplýsingar um viðkomandi starfsemi á hverjum tíma. Hef ég lagt ríka áherslu á að unnið væri að því að til staðar væru upplýsingar sem gæfu fullnægjandi mynd af rekstri ríkissjóðs innan fjárlagaársins. Jafnframt er eigi þýðingarminna að viðhalda stöðugt ströngum aðhaldsaðgerðum í fjárútstreymi hjá ríkissjóði. Gerð greiðsluáætlunar fyrir hvern mánuð fjárlagaársins hjá hverri ríkis­stofnun og samanburður við allar útgreiðslur úr ríkissjóði hefur tvímælalaust leitt til þess árangurs sem m. a, kemur fram í jákvæðum rekstrarjöfnuði A-hluta ríkissjóðs á árinu 1976 og að hlutur ríkisins í þjóðarframleiðslunni hefur minnkað hlutfallslega samanborið við 1974 og 1975, og er það ásetningur minn að þessum verklagsreglum verði fylgt fast eftir.

Sú hefð hefur ríkt um árabil, að aðalgreinar­gerð fjmrh. til Alþ. um fjárhagslega afkomu liðins árs hefur verið flutt í fjárlagaræðu í upp­hafi þings hvert haust. Hefð þessi mótaðist á sínum tíma af því, að uppgjör ríkisreiknings var ekki lokið fyrr en nokkuð var liðið fram á árið, þannig að í þingbyrjun gafst fyrst tæki­færi til slíkrar grg. Síðustu árin hafa miklar umbætur verið gerðar í ríkisbókhaldinu sem gera kleift að skila haldgóðum upplýsingum um af­komu ríkissjóðs á hverjum tíma innan ársins. Á grundvelli bráðabirgðayfirlits ríkisbókhalds um afkomu ríkissjóðs árið 1976 var gefin út fréttatilkynning í jan. s. l. og er hún birt sem fskj. með skýrslunni. Í skýrslunni er enn frem­ur gerð grein fyrir bráðabirgðaniðurstöðum láns­fjáráætlunar fyrir árið 1976, sem varðar láns­fjáröflun á vegum ríkissjóðs. Ljóst er að með gerð lánsfjáráætlunar er stigið veigamikið skref í stjórn íslenskra efnahagsmála og hefur áætlunin reynst mjög gagnlegt stjórntæki til þess að ná settum markmiðum í efnahagsmálum. Að lokum fylgir skýrslunni töfluviðauki sem sýnir að­alflokkun tekna og gjalda ársins, þá yfirlit um afkomu ríkissjóðs árin 1968–1976 samkv. A-hluta ríkisreiknings og samanburði við fjárlög. Þá eru töflur fyrir sama tímabil sem sýna ríkis­útgjöld og skatttekjur hins opinbera af vergri þjóðarframleiðslu og að lokum yfirlit um láns­fjármagnaðar opinberar framkvæmdir árið 1976.

Þar sem ríkisreikningur 1976, A-hluti í heild sinni, hefur nú verið lagður fram hér á hv. Alþ. og afhentur yfirskoðunarmönnum ríkisins til meðferðar, mun ég ekki að þessu sinni gera nánari grein fyrir tölulegum niðurstöðum sem fram komu í nefndri skýrslu. En ég vildi mjög gjarnan mega nota þennan tíma — með leyfi forseta — til þess að gera grein fyrir helstu niðurstöðum sem fram koma í A-hluta ríkisreiknings fyrir árið 1976. Ríkisreikningur, A-hluti, hefur aldrei áður verið tilbúinn jafnsnemma árs. Eigi reyndist unnt að þessu sinni að full­gera B-hluta ríkisreiknings á sama tíma. Er svo m. a. vegna þess, að allir ríkisaðilar í B-hluta hafa eigi enn þá fullgert ársreikninga sína. B-hluti ríkisreiknings verður lagður fram á Alþ. strax og þing kemur saman að hausti.

Rekstrarjöfnuður ríkisreiknings var hagstæður um 816 millj. kr. Gjöldin voru 70 milljarðar 508 millj. og tekjurnar 71 milljarður 324 millj. Í skýrslu minni um afkomu ríkissjóðs voru fjár­hæðir byggðar á greiðslugrunni tekna og gjalda vegna ársins 1976. Ríkisreikningurinn er gerður upp á rekstrargrunni, þar sem tekið er tillit til óinnheimtra tekna og ógreiddra gjalda á árinu, og verða niðurstöður nokkru hærri en samkv. greiðslum. Gjöld reikningsins voru því 2 milljörðum 61 millj. hærri en áfallin greidd gjöld. Tekju­færsla reikningsins var 3 milljörðum 12 millj. hærri fjárhæð en innheimtan.

Frá árinu 1968 hefur rekstrarjöfnuður aðeins tvisvar verið hagstæður, árin 1970 og 1972. Samkv. heildaryfirliti A-hluta ríkisreiknings var endurmatsjöfnuður óhagstæður um 1 milljarð 278 millj., sem er nær eingöngu hækkun um­saminna lána í erlendri mynt vegna gengis­munar.

Það liggur ljóst fyrir að staða ríkissjóðs hefur batnað verulega á árinu 1976, staðan við Seðlabankann versnað að vísu um 896 millj. auk 699 millj. kr. hækkunar vegna gengismunar, eða um 1595 millj. samtals. Á árinu 1975 var þessi fjár­hæð 5 milljarðar 801 millj. Lánahreyfingar utan Seðlabankans sýndu innkomið lánsfé nettó að fjárhæð 1 milljarður 389 millj. kr. Lausafjár­staðan við aðra en Seðlabankann er mjög þýðingarmikil stærð, en hún batnaði á árinu um 3 milljarða og 100 millj. og nam lækkun við­skiptaskulda þar af 1600 millj. Lausafjárstaðan var hins vegar óhagstæð um 316 millj. á árinu 1975.

Allar þessar tölur segja sína sögu um hinar ýmsu hliðar ríkisfjármála á árinu 1976. Engin ein þeirra segir allan sannleikann. Þær verður allar að skoða og meta hverja fyrir sig og í samhengi.

Ég mun nú rekja stærstu frávik gjalda og tekna reiknings og fjárlaga.

Gjöld reiknings námu 11 milljörðum 651 millj. umfram fjárlög eða 19.8%. Í gjöldum reiknings umfram fjárlög koma m. a. fram áhrif markaðra tekna. Hækkun þeirra umfram fjárlög nam 1 milljarði 126 millj. og þar af 560 millj. kr. til Byggðasjóðs ríkisins.

Stærstu gjaldaliðir reiknings umfram fjárlög eru þessir: Tryggingamál 2 milljarðar 821 millj., menntamál og listir 2 milljarðar 109 millj., vegagerð 1 milljarður 121 millj., Landhelgisgæsla 455 millj., dómgæsla og lögreglumál 897 millj., vaxta­gjöld 719 millj., sjávarútvegsmál 668 millj., upp­bætur á útfluttar landbúnaðarafurðir 656 millj., húsnæðismál 563 millj., annað 1 milljarður 642 millj.

Tekjur urðu 10 milljörðum 982 millj. kr. hærri en fjárlög, eða 18.2%. Stærstu frávikin eru eftirtalin: Sölugjald 3 milljarðar 421 millj., sérstakt vörugjald, 1 milljarður 547 millj., almenn aðflutningsgjöld 1 milljarður 281 millj., gjald af gas- og brennsluolíu 429 millj., gjald af bílum 404 millj., launaskattur 967 millj., tekju- og eignarskattur 1 milljarður 98 millj., aukatekjur, stimpil­gjöld og þinglýsingar 464 millj., vextir 349 millj. og aðrir liðir 1 milljarður 22 millj.

Unnið er nú að lokauppgjöri lánsfjáráætlun­ar 1976 hjá hlutaðeigandi stofnunum og eru því ekki fyrir hendi endanlegar niðurstöður ársins. En samkv. bráðabirgðayfirliti um lánsfjármag­aðar ríkisframkvæmdir eru tekin lán 9 milljarðar 319 millj. kr. til samanburðar við 7 milljarða 740 millj. samkv. áætlun. Mismunurinn nemur 1 milljarði 537 millj. kr., en af aukningunni eru 1 milljarður 200 millj. vegna Landsvirkjunar sem ekki hafði verið tekið tillit til í upphaflegri áætlun.

Eitt af meginmarkmiðum lánsfjáráætlunar var að hamla á móti auknum erlendum lántökum og var í heild sinni dregið úr erlendum lántökum niður í 20% í staðinn fyrir 28% fjáröflunar á árinu 1976 miðað við árið á undan, en að sama skapi jókst hlutfall innlendrar lánsfjáröflunar. Hér er um að ræða lækkun sem nemur 5.8% frá árinu 1975.

Eins og ég gat um hér að framan eru sýnd í töfluformi með skýrslu um afkomu ríkissjóðs 1976 ríkisútgjöld sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu og skatttekjur hins opinbera sem hlutfall af sama. Þær tölur, sem þá voru bornar saman, voru bráðabirgðatölur, en samkv. þeim voru heildarútgjöld ríkisins áætluð 27.3%, en reyndust, þegar útgjöldin voru tekin samkv. rekstrarreikningi ársins 1976, 27.6%, en á árinu 1975 var hlutur ríkisins 31.4%. Hér er því um að ræða lækkun sem nemur 3.8% frá árinu 1975. Ef sama hlutfall hefði gilt árið 1916 og var á árinu 1975 hefði ríkið tekið til sín um 10 milljörðum kr. meira af þjóðarframleiðslunni. Þegar litið er til skatttekna ríkisins af þjóðarframleiðslunni hefur hlutur ríkisins hins vegar aukist. Á árinu 1975 var skatttekjuhlutfallið 26.4% af þjóðarframleiðslunni, en hefði orðið 27.9, sem er hækkun um 1.5%. Sá mikli hallarekstur, sem varð á ríkissjóði árin 1974 og 1975, sýnir að ríkis­sjóð vantaði 11 milljarða kr. til þess að jákvæður rekstrarjöfnuður næðist, sem telja verður al­gera forsendu fyrir heilbrigðum rekstri ríkissjóðs. Fjárvöntun hefur fyrst og fremst verið mætt með aukinni skuldasöfnun hjá Seðlabankanum.

Ljóst er að eitt brýnasta viðfangsefnið á sviði ríkisfjármála er að eyða þessari skuldabyrði sem mæta verður með lækkun útgjalda eða tekju­öflun. Það er tvímælalaust eitt mikilvægasta viðfangsefnið að koma í veg fyrir að ríkisútgjöld fari fram úr ákveðnu hlutfalli af þjóðarframleiðslunni.

Ég vona að sú niðurstaða ríkisfjármála 1976, sem birtist í ríkisreikningnum, sé spor í rétta átt.