03.05.1977
Sameinað þing: 84. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4175 í B-deild Alþingistíðinda. (3240)

235. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda var það ætlan mín að leggja þetta mál fyrir hv. Alþ. sem nú starfar. Hins vegar töldu einstakir ráðh. í ríkisstj. sig vilja skoða málið betur og ekki hafa tíma til þess að gera það svo að þeir væru reiðubúnir til að taka hreina afstöðu gagnvart málinu. Enn fremur var það almenn skoðun innan ríkisstj. að skoða betur sérstaklega þann þáttinn er varðaði frumbýlinga. Það var almennur vilji hæstv. ráðh. að fá að skoða það betur, hvort ekki væri hægt að sjá betur fyrir þeim þætti heldur en frv. gerði ráð fyrir. Þess vegna varð það niðurstaða ríkisstj. að geyma málið til næsta hausts, en mun láta vinna að gerð þess og endur­skoða sérstaklega eða skaða betur sérstaklega þá þætti sem ég hef hér nefnt og hún taldi að nauðsyn væri að athuga betur. Ég taldi á engan hátt hafa þýðingu að fara að leggja frv. fram bara til að sýna það, ekki síst þar sem það var einnig ákveðið að athuga vissa þætti þess betur.

Um afkomu deildarinnar á þessu ári hef ég þær upplýsingar að færa, að ég held að það sé alveg öruggt að deildin hafi nóg fé til að lána á þessu ári miðað við umsóknir og það muni ekki skorta svo á að þar verði nein vandræði. Enn fremur eru þeir föstu tekjustofnar, sem Stofnlánadeildin hefur, til muna meiri en þeir voru á s. l. ári. Þó að halli sé á teknum lánum af hálfu deild­arinnar eða greiðslum hennar á vöxtum og af­borgunum og verðtryggingu og hún verði að nota til þess af þessu fé, mun samt, m. a. vegna þeirra breytinga á lánakjörum sem gerðar voru í fyrra, verða betri útkoma á deildinni á þessu ári heldur en á s. l. ári. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég fékk frá forstöðumanni deildarinnar, gerir hann ráð fyrir að nettóafgangur muni verða 429 millj. á móti 219 millj. á s. 1. ári. Hins vegar skal það tekið fram, að þegar lögunum var breytt 1973, þá var það gert í þeim tilgangi að þessir sérstöku tekjustofnar gengju beint til deildarinnar til uppbyggingar. Það hefur því miður ekki tekist og tekst ekki á árinu í ár. En einmitt með endurskoðun laganna núna er enn þá verið að reyna að leita að leiðum til þess arna og að sjá betur fyrir málum þeirra sem búskap hefja.

Þá held ég að ég hafi svarað fsp. að fullu.