03.05.1977
Sameinað þing: 84. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4177 í B-deild Alþingistíðinda. (3243)

235. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Sem einn af þeim nm., sem sæti áttu í þeirri n., er undirbjó frv. sem spurt er hér um, þá sé ég ástæðu til að láta það koma fram, að ég hefði mjög kosið að það frv. hefði verið afgreitt á þessu þingi því að þess er mikil þörf að bæta fjárhagslega stöðu Stofnlánadeildar með þeim hætti sem þar er lagt til. Úr því að svo er ekki vil ég leggja á það ríka áherslu, að þetta frv. eða frv. um þetta efni verði afgreitt á haustþinginu eða fyrir næstu áramót, svo að eigi líði lengri tími án þess að Stofnlánadeildinni verði aflað aukins fjármagns.

Ég vil svo aðeins taka það fram, að ég lít svo á, eins og raunar kom fram hjá fyrirspyrjanda, að stofnlánadeildarlögin veiti nægar heimildir til þess að ganga til móts við þarfir frumbýlinga, sem eru óneitanlega ríkari. En það er ekki hægt nema auka svigrúm deildarinnar með auknu fjármagni, og till. n. veita að mínum dómi nægi­legt svigrúm til þess að það sé hægt að gera. Þetta tel ég ástæðu til að láta koma fram við þessar umr.