03.05.1977
Sameinað þing: 84. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4177 í B-deild Alþingistíðinda. (3244)

235. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að harma það, að þetta frv. var ekki afgreitt á þessu þingi, enda er sannleikurinn að ekki hefði veitt af því ef við hefðum átt að verða við nauðsynlegustu óskum bænda í sambandi við lánveiting­ar á þessu ári. Ef þetta frv. hefði verið samþykkt og hefði komið til framkvæmda á miðju ári, eins og að var stefnt, þá hefði það gefið deildinni um 200 millj. kr. á þessu ári. Að vísu hefði helmingurinn af því ekki komið í deildina, fyrr en eftir áramót. En þetta hefði farið langt til að nægja til þess að veita lánsloforð fyrir því sem við teljum nauðsynlegt, og þá er ekkert svigrúm til þess að veita þeim, sem eru að hefja búskap eða eru í mestum örðugleikum, neina fyrirgreiðslu umfram það sem hefur verið fram að þessu. Hér er því bæði deildinni og eins hæstv. landbrh. og ríkisstj. verulegur vandi á höndum.

T. d. hefur ekki verið hægt að veita lán til þess að byggja vélageymslur í tvö undanfarin ár og þetta er þriðja árið í röð, en beiðnir eru um lán sem nemur á annað hundrað milljóna kr. Þessar óskir um byggingar munu nema töluvert á þriðja hundrað millj., og hefði verið lánaður helmingur af því, þá hefði þetta þýtt dálítið á annað hundrað millj. kr. sem Stofnlánadeildin hefði orðið að veita. Alveg það sama er með gróðurhús og lán til fleiri framkvæmda. Það er líka mjög mikill þrýstingur á það að fara að veita lán út á vélar, t. d. heybindivélar og vagna sem taka heyið upp í sig sjálfir. Þetta eru tæki sem kosta orðið um milljón kr. og eru orðið miklir erfiðleikar sérstaklega fyrir frumbýlendur að kaupa slík tæki. En ég segi þetta til þess að hv. þm. sé alveg ljóst, að það er langt í frá að Stofnlánadeild landbúnaðarins geti sinnt þörfum bænda eins og nú er.