03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4181 í B-deild Alþingistíðinda. (3248)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Út af því, sem hér hefur komið fram, vil ég aðeins segja það, að þann stutta tíma, sem ég hef starfað hér innan veggja, veit ég ekki til annars en það hafi verið á valdi viðkomandi ríkisstj. og þingmeirihl. að ákvarða um það, hvenær þingi skuli slitið. S. l. fimmtudag óskuðu forsetar eftir fundi með formönnum þingflokka til að gera grein fyrir óskum hæstv. ríkisstj. varðandi þinglausnir, og á þeim fundi, eins og ég hygg oftast áður undir sams konar kringumstæðum, var sett fram sú ósk hæstv. ríkisstj. að þinglausnir ættu sér stað á morgun, þ. e. a. s. miðvikudaginn 4. maí. Eins og kom fram hjá hv. þm. Benedikt Gröndal hef­ur það ekki verið venja, eftir því sem ég best veit, að stjórnarandstaða hverju sinni setti sig upp á móti því eða gerði tilraunir til að koma í veg fyrir það með ýmsum aðgerðum að óskir viðkomandi ríkisstj. næðu fram að ganga varðandi þinglausnir. Það hefur ekki heldur mér vitanlega verið farið fram á formlega staðfestingu af hálfu stjórnarandstöðu á óskum ríkisstj. í þessum efnum, þannig að ég tel að stjórnarandstaðan sé að þessu leyti á engan hátt bundin af ákvörðunum ríkisstj. varðandi þinglausnir. Það er í höndum hæstv. ríkisstj. og meiri hl. Alþ. að ákveða slíkt, og slíkt hefur yfirleitt og líklega alltaf verið framkvæmt með þeim hætti, án þess að formlega væri óskað staðfestingar stjórnar­andstöðu á því.

Það hlýtur að vekja spurningar í hugum ekki bara hv. alþm. heldur og almennings í landinu, hvort það sé í raun og veru eðlilegt undir þeim kringumstæðum, sem nú ríkja í landinu, að Alþ. ljúki störfum. Það er ekkert líklegra, eins og mál standa í dag eða á morgun, þegar endanlega á að senda Alþ. heim, en að verið sé að sigla inn í allsherjarverkfall hér á landi. Allflest bendir til þess að svo sé, því miður. Það hlýtur því að þykja óeðlilegt undir slíkum kringumstæðum að Alþ. ljúki störfum og láti sig engu varða hvað verður um framgang mála á vinnumarkaðinum, hvort það verður alger stöðvun um lengri eða skemri tíma, eða hvort það er í raun og veru vilji alþm. almennt að þau mál séu látin afskiptalaus af löggjafarsamkomunni.

Það er vitað og er löngu ljóst, að verkalýðshreyfingin hefur óskað eftir því við stjórnvöld að beita sér fyrir ýmsum ráðstöfunum í efnahagsmálum til þess að greiða fyrir lausn þeirra samninga sem nú standa yfir, — aðgerðum sem hlýtur að koma til kasta Alþ. að taka ákvarðanir um. Það er einnig ljóst, eins og hér hefur komið fram, að höfuðkrafan í þeirri samningsgerð, sem nú á sér stað af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, en um lágmarkslaun sem svarar 110–111 þús. kr., — það er grundvallarkrafa sem um verður samið í þessum samningum. Það er líka ljóst, að þrátt fyrir engin svör, bókstaflega engin svör af hálfu vinnuveitenda varðandi þá kröfu, þá liggur það fyrir, að það er meiri hl. fyrir því hér á hv. Alþ. að gengið verði að þeirri kröfu. Það er ljóst. Stjórnarandstaðan öll — og maður skyldi ætla eftir yfirlýsingum hæstv. dómsmrh., formanns Framsfl., sem hann hefur hér gefið, að einnig Framsfl. styðji þá kröfu og telji að atvinnurekendur eigi skilyrðislaust að henni að ganga. Ég minni einnig á að annar fulltrúi hins stjórnarflokksins í útvarpsumr. fyrir stuttu, hv. þm. Sverrir Hermannsson, taldi að atvinnurekendur ættu skilyrðislaust að ganga að þessari kröfu. Verður því einnig að líta svo á að fyrir hendi sé a. m. k. einhver vilji — einhvers hv. þm. — innan Sjálfstfl. til þess einnig að staðfesta að að þessari kröfu eigi að ganga.

Ég held að ljóst sé að þessu athuguðu að það er meirihlutavilji fyrir því á Alþ. að gengið verði að þessari einni af aðalkröfum, grundvall­arkröfum verkalýðshreyfingarinnar við þessa samningsgerð. Getur verið, að það sé ótti við það hjá hæstv. ríkisstj., að slíkt bærist inn í þingsali og að meiri hl. Alþ. væri þann veg farið, að hann vildi ganga að því að þessi grundvallar­krafa verkalýðshreyfingarinnar næði fram að ganga? Er einhver ótti við það hjá hæstv. ríkis­stj., að slíkt kynni að gerast og gæti gerst, og þess vegna sé nauðsyn á því að Alþ. sé sent heim áður en til slíkra hugsanlegra atburða kynni að koma? Er með því að senda Alþ. heim nú verið að koma eða a. m. k. gera tilraun til þess að koma í veg fyrir að sá þingmeirihl., sem sýni­lega er fyrir því að ganga að grundvallarkröfum verkalýðshreyfingarinnar, kunni að sjá dagsins ljós á Alþ.? Eða hver er meining hæstv. ríkisstj. með því að leggja svo ríka áherslu á það að senda Alþ. heim nú, eins og mál standa varðandi samningamálin á vinnumarkaðnum?

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram, að við kringumstæður þær, sem nú ríkja, verður að teljast mjög svo óeðlilegt í alla staði að senda Alþ. heim frá þeim miklu vandamálum sem liggja fyrir og úrlausnar krefjast. Hefur beinlínis verið óskað eftir af hálfu verkalýðshreyfingarinnar að pólitískum aðgerðum verði beitt til þess að greiða fyrir samningum þeim sem nú standa yfir. Ég tek undir það, að það er óeðlilegt og það er í andstöðu við eðlilega hugsun í sambandi við úrlausn þeirra miklu vandamála, sem nú blasa við, að ákveða nú að Alþ. skuli sent heim og það skuli einungis vera í höndum hæstv. ríkis­stj. að stjórna, væntanlega með brbl., og ákveða þannig mál sem snúa að því að greiða fyrir lausn þeirrar kjaradeilu sem nú stendur yfir.