03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4183 í B-deild Alþingistíðinda. (3250)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst láta þess getið í tilefni af fram komnum fsp. og aths. þm., að það mun hafa verið fyrir um það bil einum mánuði að ég átti tal við formann þingflokks Alþb. og formann þingflokks Alþfl., og ég held að litlu síðar hafi fulltrúa SF verið gert kunnugt um þá fyrirætlun að ljúka þing­störfum fyrir mánaðamótin apríl-maí. Þessi samtöl við formenn þingflokka Alþb. og Alþfl. voru á þá lund, að þeir ekki einasta hreyfðu engum mótmælum, heldur var ekki annað á þeim að skilja en þeir teldu þetta fullkomlega eðlilegt. Með þessu er ég ekki að segja að ábyrgðin sé þeirra. Ríkisstj. og stuðningsflokkar ríkisstj. meta það og vega, hvernig þinghaldi skuli í höfuðatriðum hagað, en í mínum huga eru mótmæli nú í dag við því, sem þeim hefur verið kunnugt um í mánaðartíma, allseint fram komin. Og því léttvægari eru þessi mótmæli.

Varðandi nauðsyn þess að Alþ. sitji að störfum vil ég minna á að þótt þinglausnir fari fram í þessari viku, þá er það ekki frábrugðið í aðalatriðum því sem oft hefur átt sér stað, að þingstörfum ljúki um þetta bil. Ef við lítum á, hvort aðstæður í þjóðfélaginu og kjaradeilan breyti þarna nokkru um, ætti það alveg eins að hafa verið fyrir mánuði eða hvaða dag sem síðan er liðinn, vegna þess að fyrirsjáanlegt var þá þegar að til kasta ríkisvaldsins mundi koma með einum eða öðrum hætti til þess að greiða fyrir lausn deilunnar. Í þeim tilgangi hefur ríkisstj. sett starfshópa í ýmsum málaflokkum með aðilum vinnumarkaðarins til þess að kanna á hvern hátt unnt væri á þessum tilteknu sviðum, sem einkum lúta að skattamálum, málum lífeyrisþega og vinnuverndarmálum, svo dæmi séu nefnd, að komast að niðurstöðu, er aðilar vinnumarkaðarins og þá ekki síst og e. t. v. fyrst og fremst launþegar mætu einhvers, þannig að fremur gengi saman með deiluaðilum. Starfi þessara starfshópa er á sumum sviðum langt komið. Á öðrum sviðum er alls ekki upplýst hvað unnt er af ríkisins hálfu að gera eða hvað aðilar vinnumarkaðarins muni meta tilteknar ráðstafanir mikils og hvort slíkar ráðstafanir muni leiða til sátta eða niðurstöðu í deilunni.

Ég held að það sé ekki sérstök ástæða til þess, að Alþ. sitji áfram vegna þessara mála, þegar af þeirri ástæðu að samráð er haft við fulltrúa allra flokka um lausn á þessum mismunandi sviðum. Og ég efast ekki um að samkomulag verður, ef upplýst er að tilteknar aðgerðir leiði til lausnar og þær verði ekki of dýrkeyptar fyrir fjárhag ríkissjóðs og afkomu. Ég held líka að þessar umr. nú í dag sýni að það er vafasamt gagn að því, að hér fari fram almennar umr. um kaupgjalds­samningana sjálfa, vegna þess að þeir samningar hljóta fyrst og fremst að vera í höndum aðila vinnumarkaðarins. Ég veit ekki betur en allir þingflokkar séu þeirrar skoðunar, að það eigi að heyra til undantekninga að með löggjöf sé kveðið á um kaup og kjör manna í landinu. Ég veit ekki betur en sumir þingflokkar telji það algerlega útilokað að löggjafarvaldið kveði á um kaup og kjör í landinu og þ. á m. fyrst og fremst Alþb. þess vegna verður sá þáttur málsins auðvitað að útkljást fyrst og fremst í samningum milli aðila vinnumarkaðarins. Hitt er svo annað mál, hvort ríkisvaldið getur með ráðstöfunum sínum auðveldað þeim að ná endunum saman.

Þetta vildi ég láta fram koma í tilefni af aths. hv. þm. nú. Tveim öðrum fsp. var beint til mín: Annars vegar frá hv. 2. þm. Austurl. um það, hvort ég hygðist gefa skýrslu um fund þann er ég sótti í Englandi og fjallaði um efnahagsmál, aðstoð við þróunarríkin og vandamál í efnahags­lífi almennt í blönduðu hagkerfi. Svarið er, að það hafði ég ekki hugsað mér. Þessa fundi hef ég sótt sem borgarstjóri, alþm. og ráðh., og ég hef haft gagn af þeim í þeim störfum mínum öllum að látið þá vitneskju koma fram við afgreiðslu þeirra mála sem á dagskrá hafa verið hverju sinni. En þessum fundum er þannig háttað, að þá sækja stjórnmálamenn frá mjög mismunandi stjórnmálaflokkum. Þá sækja þátttakendur í atvinnulífi, bæði fulltrúar launþega og fulltrúar vinnuveitenda. Þarna er ekki ein skoðun á ferðinni, heldur margar, og engin ályktun er gerð. Frekar tel ég ekki þörf á að svara varðandi þennan fund.

Þá varpaði hv. 5. þm. Vesturl. þeirri fsp. fram, hver hefði verið afgreiðsla ríkisstj. á ályktun þeirri er samþykkt var á fundi í Borgarfirði nú um helgina. Ég held að það sé einfaldast að lesa upp þá bókun sem gerð var á fundi ríkisstj. þar að lútandi og ég hafði hugsað mér að kynna í Ed. áður en til atkvgr. við 2. umr. frv. um járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði yrði gengið. En bókunin er svo hljóðandi:

Ríkisstj. telur að ekki sé unnt að fresta afgreiðslu frv. til 1. um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Ríkisstj. mun því ekki hlutast til um að fram fari leynileg atkvgr. um málið.“

Ég þarf ekki að skýra þessa bókun eða afstöðu ríkisstj. Ég lét þau orð falla í Ed. í gær, að þessi ályktun væri of seint fram komin, málið hefði tvívegis verið hér til meðferðar á Alþ., frv. um járnblendiverksmiðju samþ. á Alþ. og þá gert ráð fyrir samvinnu við ameríska fyrirtækið Union Carbide. Það frv. var þannig úr garði gert, að það gaf möguleika til að við aðra en Union Carbide yrði samið. Síðan leysti það fyrirtæki sig frá þessu samstarfi og hafnir voru samningar við norska fyrirtækið Elkem. Þótti eðlilegt að nýtt frv. yrði hér lagt fyrir Alþ. varðandi þá samninga, enda voru þeir að nokkru leyti frá­brugðnir hinum fyrri samningum og að öllu leyti íslendingum til hags. Meðan á þessari málsmeð­ferð stóð var unnt að koma slíkum tilmælum fram. En nú á síðasta stigi málsins er ekki ástæða til að taka umrædda áskorun til greina, og á því hyggist svar ríkisstj.