03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4195 í B-deild Alþingistíðinda. (3256)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. verulega úr því sem komið er. en mig langar til að fara hér nokkrum orð­um um það sem kom fram hjá hæstv. forsrh. varðandi þá ákvörðun hæstv. ríkisstj. að slíta þingi á morgun og senda það heim.

Hæstv. forsrh. sagði að þingslit nú, þ. e. a. s. á. þessum tíma, væru ekkert frábrugðin því sem áður hefði verið, og vel má svo vera. Það hefði kannske ekkert verið sérstaklega til þess tekið þó að þinglausnir hefðu farið fram á morgun miðað við eðlilegar aðstæður í þjóðfélaginu. En er það virkilega svo, að hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstj. og allt stuðningslið hennar hér á hv. Alþ. sé þeirrar skoðunar, að það skipti engu máli, hvert ástand er í þjóðfélaginu, um það, hvort Alþ. lætur sig þau mál varða eða ekki. Er það virkilega svo, að það sé í raun og veru skoðun hæstv. ríkisstj., að það skipti engu máli hvort Alþ. lætur til sín taka í því ástandi sem nú er, þegar yfirvofandi er allsherjarverkfall og alger lömun er fyrirsjáanleg á öllu atvinnulífi landsmanna innan tíðar verði ekkert að gert. Það er a. m. k. öruggt mál, að launafólk í land­inu, það sem nú býr sig undir það að heyja harða baráttu til að knýja fram þá grundvallar­kröfu verkalýðshreyfingarinnar nú, að lágmarks­laun skuli vera röskar 100 þús. kr. á mánuði, það lítur það einkennilegum augum að Alþ. hlaupi frá og láti sig engu varða hvað verður um mál sem þetta nú á næstu dögum eða vikum. Þetta er því ekkert sambærilegt við það, sem hefur verið að gerast að undanförnu. Það er allt annað hvort Alþ. er sent heim þegar engin mikilvæg mál blasa við til úrlausnar eða hvort það er sent heim kannske gagngert til þess að geta beitt valdi með brbl. á annan veg heldur en kannske meiri hl. Alþ. vildi staðfesta. Og hæstv. forsrh. sagði að það væri til lítils gagns að ræða samningamálin hér á Alþ. Er það einnig skoðun hæstv. ríkisstj., að í raun og veru komi Alþ. ekkert við hvað sé að gerast á vettvangi aðila vinnumarkaðarins þegar yfirvofandi er allsherjarverkfall? Ber að líta svo á að þm. almennt komi það ekkert við, hvort hjól atvinnulífsins snúast eða ekki? Ég hygg a. m. k. að þeir séu æðimargir í röðum launamanna, sem nú búa sig til þess að heyja baráttuna, sem telji að Alþ. og alþm. beri skýlaus skylda til að fylgjast með því og hafa áhrif á það til hins betra með hverj­um hætti þessu deilumáli verður ráðið til lykta.

Það var vikið að því áður í þessum umr., að hæstv. dómsmrh., formaður Framsfl., annars stjórnarflokksins, hefði lýst því yfir opinberlega, að hann teldi að atvinnurekendur ættu skilyrðislaust að skrifa undir kröfuna lágmarkslaun. Og eftir þessu var tekið. Það hefur verið mjög eftir þessu tekið, þessari yfirlýsingu hæstv. dómsmrh. Og ef hæstv. ráðh., sem ég vil ekki draga í efa, hefur meint þessi orð, þá eru það einlæg tilmæli mín til hans sem formanns Framsfl. og sem einhvers valdamesta aðila innan þeirrar hreyfingar sem Framsfl. er hvað sterkastur í, þ. e. a. s. Vinnumálasambands samvinnu­félaganna, að hann beiti áhrifum sínum í þá átt, að Vinnumálasamband samvinnufélaganna, sem er aðili innan Vinnuveitendasambands Íslands, hafi áhrif á það innan þeirra herbúða að gengið verði að þessari kröfu verkalýðshreyfingarinnar. Það er enginn vafi á því, að ef hæstv. dómsmrh. vill hafa áhrif á að mál þróist með þessum hætti og þetta gerist, þá getur það orðið til þess að ríða á vaðið með það að ganga að þessari kröfu, þessari grundvallarkröfu verkalýðshreyfingarinnar. Og það er ástæða til í áframhaldi af þessu að spyrja hæstv. forsrh., einn áhrifamesta aðila innan hins stjórnarflokksins: hvert er álit hæstv. forsrh. á þessari kröfu verkalýðshreyfingarinnar sem dómsmrh. er búinn að tjá sig um? Er hæstv. forsrh. þeirrar skoðunar, að vinnuveitendum beri skilyrðislaust og nú þegar að ganga að þess­ari kröfu verkalýðshreyfingarinnar sem sann­gjarnri og réttlátri, eða er hann á annarri skoðun? Ég dreg það nefnilega ekkert í efa, að ef báðir þessir aðilar innan ríkisstj., sem eru áhrifa­aðilar, beita innan samtaka vinnuveitenda áhrifum sínum í þessa átt, þá verður lausn fundin fyrr á þeirri kjaradeilu, sem nú stendur yfir, heldur en ella væri.

Ef það er hins vegar svo, að hæstv. forsrh. er á annarri skoðun í þessum efnum heldur en formaður Framsfl., þá hefur það auðvitað sín áhrif í þá átt að draga úr möguleikum á því, að þessari kröfu verði fullnægt nú á næstunni. Það er því mikils um vert að Alþ. fái um það vitneskju og verkalýðshreyfingin í landinu fái um það vitneskju, hvort hæstv. forsrh. er sömu skoðunar í þessu máli og hæstv. dómsmrh., formaður Framsfl., þ. e. a. s. hvort hæstv. forsrh. telur að atvinnurekendum beri skilyrðislaust að ganga að þessari kröfu verkalýðshreyfingarinnar. Og það verður eftir því tekið, ef hæstv. forsrh. víkur sér undan því að svara þessu. Það verður ekkert síður eftir því tekið heldur en ef hann yrði við þessari beiðni og svaraði því, kannske burt séð frá því hvert svar hans yrði. Ég ítreka þá ósk mína til hæstv. forsrh., að hann lýsi því hér yfir nú, hver afstaða hans í þessu máli er.