03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4197 í B-deild Alþingistíðinda. (3257)

Umræður utan dagskrár

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það kalda stríð, sem nú undanfarið hefur verið háð gegn íslenskri iðnvæðingu, virðist vera að ná alveg furðulegum árangri. Alls staðar sjá menn hættur. Þótt nú sé einblínt á Grundartangaverksmiðjuna, þá er slíkt að sjálfsögðu aðeins tímabundið. Fólkið í landinu er að verða hrætt. Það veit ekki á hverju það á von. Það er talað um að við séum að komast að mörkum þess að eiturefni séu svo mikil í okkar andrúmslofti að okkur verði að skaða, og vitað er að hægt er að hræða fólk með því, sem það þekkir illa, fremur en nokkru öðru.

Ég fékk það skjal sem hv. 3. þm. Reykn. las hér upp áðan, og það er rétt, ég þekki margt af þessu fólki og ég hef talað við margt af þessu fólki áður og það fyrir tveimur til þremur árum um þessa verksmiðju. Það er að vísu rétt, að fólkið í Kjósinni getur ekki vænst neins af þessari verksmiðju, nema ef vera skyldi óþæginda. Sé það rétt að mengun og óhollusta stafi frá þessari verksmiðju, þá er Kjósin að sjálfsögðu mjög nálægt, aðeins yfir mjóan Hvalfjörðinn að fara, og má þá búast við að það verði fyrir óþægindum. Dunið hafa á þessu fólki látlaust alls konar upplýsingar frá hinum mætustu mönnum, kjörnum fulltrúum þjóðarinnar, um hættuna á því, að þessi verksmiðja verði ógnvaldur ekki bara líf­ríkis Hvalfjarðar, ekki bara lífríkis Faxaflóa, heldur lífríkis alls Íslands, og þessi verksmiðja sé líkleg til þess að raska búsetu til stórra muna.

Nú er það að sjálfsögðu rétt, að öll iðnfyrir­tæki eða flest þeirra munu færa með sér einhverja mengun, og að sjálfsögðu, því fleiri sem þau eru, þá má búast við að mengunin verði meiri. En þar með er ekki sagt, að þetta sé sú mengun sem verði fólki að skaða, og ekki heldur þar með sagt, að það verði mikil mengun sem vegur upp á móti þeim hagstæðu áhrifum sem slík iðnþróun og iðnvæðing kann að hafa á líf manna í landinu. Við höfum lifað án iðnaðar og við höfum lifað án stáls, og það var ekki alltaf glæsilegt líf í þessu landi. Það var margt að enda þótt við hefðum ekki verksmiðjur. En ég get að því leyti að nokkru skilið viðhorf hv. 5. þm. Norðurl. e., því að ég man ekki betur en hann hafi viðhaft þau orð fyrir nokkru í Ed. í umr. um fiskveiðimál, að kannske kæmi að því og það væri ekki illa farið ef við færum að róa aftur á árabátum. Þetta mun hann hafa sagt þegar verið var að ræða um væntanlegan olíuskort í heiminum og kannske yrði olían og ýmis önnur hráefni uppurin þá og þegar og þá kæmi til hins frumstæða lífs á ný.

Nú er mikið úr því gert, að Heilbrigðiseftirlit ríkisins hafi gert skýrslu og komið með sínar kröfur fram um hollustuhætti þessarar tilvonandi verksmiðju. Og Heilbrigðiseftirlitið mun hafa gert bók upp á 180 síður um þetta mál og er hluti af henni hið fyrsta starfsleyfi fyrir slíkri verksmiðju. Nú finnst mér það engin furða, þegar Heilbrigðiseftirlit ríkisins í fyrsta sinn gerir slíkt rit, þótt aðrir sérfræðingar kunni að hafa eitt­hvað við það að athuga og hafi jafnvel hug á því að breyta því eitthvað lítils háttar. Þótt ég hafi mikla trú á Heilbrigðiseftirliti ríkisins og heim mönnum er þar starfa, þá fyndist mér óeðlilegt ef þeir í fyrsta sinn sem þeir gera slíkt rit gerðu það án þess að nokkur gæti nokkuð að því fundið. En mér skilst, og ég held að hað verði ekki á móti hví mælt, mér skilst að forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins sé tiltölulega ánægður með árangurinn og hann geti vel sætt sig við það starfsleyfi sem veitt var.

Ég spurði þennan unga mann í gærkvöld að því, hvar ég gæti skoðað verksmiðjur sem hefðu fullkomnari mengunarvarnir og betri hollustuhætti í veröldinni heldur en verksmiðjan á Grundartanga, ef væri farið að reka hana í dag undir þeim skilyrðum sem til stendur að verði þar. Hann vissi ekki um það og hélt að það væri ekki önnur verksmiðja til í heiminum sem hefði betri skilyrði til þess að gera vel við sitt fólk og gefa frá sér litla mengun heldur en þessi verksmiðja, ef hún yrði reist og rekin á þann hátt sem nú stendur til að gera. Og ég spurði hann þá hvað væri með allt það heita vatn, sem sagt hefði verið að mundi fara út í Hvalfjörðinn, menga hann og breyta lífríkinu. Það kom þá í ljós, að þarna verður lokað kerfi þannig að það fer ekkert heitt vatn út í Hvalfjörðinn. Þá er þetta með rykmagn­ið sem fer upp í loftið. Þeir voru sammála um það, bæði landlæknir og forstöðumaður Heil­brigðiseftirlits ríkisins, að mjög ólíklegt væri að það ryk gæti gert einhvern skaða hinum megin við Hvalfjörðinn og jafnvel ekki í næsta nágrenni, því að það yrði vel gengið frá mengunarvörnum. Svona til gamans spurði ég landlækni að því, hvort hann teldi hættulegra að reykja einn pakka af sígarettum á dag í tuttugu ár eða vinna í 20 ár í þessari væntanlegu verksmiðju, ef hún risi við þær aðstæður sem ætlað er. Hann sagði að það væri ekki gott að svara svona spurningu, en hann fyrir sitt leyti teldi augljóst að sígarettu­reykingarnar væru hættulegri.

Ég held að það sé mikið moldviðri sem búið er að þyrla upp um þetta mál. Mér finnst að þetta sé hjá okkur eins konar nauðvörn. Ég var í gær­kvöld að reyna að tala fyrir till. sem við vorum báðir á, hv. 5. þm. Norðurl. e. og ég, um ráðstaf­anir sem við töldum að gætu orðið í þá átt að vernda eða hamla aðeins gegn ofveiðinni í þorskinn okkar. Við vorum sammála um að hrygningar­stofninn væri í hættu. Og hvað þýðir það? Það þýðir það, eins og vitað var fyrir löngu, að við þurfum að renna fleiri stoðum undir okkar atvinnulíf. Til þess að gera það höfum við reist ál­verksmiðju. Til þess að gera það erum við að reisa verksmiðjuna á Grundartanga. Þetta er nauðvörn. Við sjáum að við erum í hættu með okkar fiskstofna. Við verðum að geta fengið tekjur fyrir þetta þjóðfélag frá öðru en sjávarútveginum, a. m. k. um tíma. Og ég er algerlega samþykkur því, að við eigum að takmarka stóriðju og orkufrekan iðnað mjög mikið. Hitt er ekki óeðlilegt, að við lítum til okkar næstmestu auðlindar þegar okkur vantar tekjustofna, og það er ekkert óeðlilegt, þó að við leitum eftir því að nýta okkar orku, vatnsfallaorku og hitaorku, þegar við getum ekki lengur eingöngu treyst á fiskinn. Þetta höfum við verið að gera. En ég lít svo á, að það sé svo fjarri því að við séum í hættu með okk­ar lífríki, að þetta ógni okkar þjóð, og sem dæmi um það, hvernig hægt er að segja hálfan sannleika eða minna og hræða fólk, vil ég segja: Mikið hefur verið úr því gert, að það færu 6000 tonn af brennisteinssýrlingi út í loftið hjá okkur. (StJ: 8 þús. tonn.) Ja, það eru 6 eftir upplýsingum forstöðumanns Heilbrigðiseftirlits ríkisins, en verða 8 þegar Grundartangaverksmiðjan fer í gang, eins og hann sagði. En Evrópa gefur frá sér 65 millj. tonn af brennisteinssýrlingi. Evrópa er þó það svæði í heiminum þar sem fólk lifir kannske lengst og heilbrigðustu lífi að jafnaði. (StJ: En fiskarnir í vötnunum?) Og fiskarnir í vötnunum lifa þrátt fyrir brennisteinssýrlinginn. Hins vegar kemur það fyrir, ekki bara í Evrópu. heldur víða um heim, að það verða dauðsföll af völdum brennisteinssýrlings. Og einasta sem við verðum varir við brennisteinssýrling hér á Íslandi er þegar slík átt er, að brennisteinssýrlingur kemur frá Evrópu, alla leið yfir Atlantshafið til okkar, þá verðum við stundum varir við hann. En þessi sýrlingur, þessi 8 þús. tonn, er núna eitt af því sem veldur undirskriftunum sem eru að streyma hér að, og umtalið um að mörkin séu ekki þekkt, þetta geti verið hættulegt, ekki bara lífríkinu í Hvalfirði, heldur jafnvel fólkinu í landinu, og það verði að koma viti fyrir þessa blessaða fáráðlinga, sem séu að semja þessi lög, og byggja þessa verksmiðju.

Að lokum vil ég segja það, að ég hef talað við marga aðila sem þetta mál snertir. 1974 var, eins og hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði í Ed., byrjað að byggja Grundartangaverksmiðjuna. Nú er aðeins verið að skipta um eiganda og verkið heldur áfram. Það er ekki verið að byrja á neinu nýju verki. Það er aðeins verið að byggja verksmiðjuna sem byrjað var á 1974.