03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4200 í B-deild Alþingistíðinda. (3258)

Umræður utan dagskrár

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Mér þóttu ummæli hæstv. forsrh. um Bilderbergfundinn svokallaða það athyglisverð, að ég held að það sé fyllsta ástæða til þess að ræða þau nánar hér á Alþ. Hæstv. forsrh. upplýsir að hann hafi farið sem slíkur á þennan fund, þ. e. a. s. hann hefur þá farið á kostnað almennings til viðræðna við helstu áhrifamenn hins vestræna heims á sviði efnahagsmála og hermála. Samt fer það svo, þegar hann er kominn heim og inntur eftir því, hvað hafi verið til umræðu á þessum fundi, þá lýsir hann því yfir að hann gefi engar upp­lýsingar um það, ekki einu sinni ríkisstj., hvað þá þjóðinni sem hefur borgað undir hann á þennan fund.

Það er náttúrlega fyrir löngu vitað að yfir þessum fundum hvílir mikil leynd eða á að gera það a. m. k., svo mikil leynd að bresk blöð kalla þessa Bilderbergsamkundu mafíu hins vestræna heims. Þessum fundum er haldið uppi af áhrifamönnum í ríkjum sem gjarnan kalla sig lýðræðisríki, en svo þegar kemur að því að þeir, sem ráða mestu í heim ríkjum, setjast á rökstóla til þess að móta stefnu, þá er lýðræðið ekki meira en svo, að það má ekki síast út, það er lokað inni eg þjóðkjörnir fulltrúar telja sig geta á þjóðþingum neitað að gefa nokkrar upp­lýsingar um hvað þar er að gerast. Læt ég svo hvern og einn og hæstv. forsrh. Íslands um að dæma um það, hvert hér sé um lýðræði að ræða eða ekki.

Það er vitað mál, að á þessum fundum er mótuð stefna, — stefna sem hefur áhrif á þær þjóðir þar sem áhrifa þessara manna gætir eða þar sem þeir ná til. Hæstv. forsrh. Íslands lýsir veru sinni á þessum fundum á þá leið, að hann hafi gagn af þessum umr., hann verði margs vísari og láti þá vitneskju koma fram við afgreiðslu mála hverju sinni. Hvað þýðir þetta? Hæstv. forsrh. útbreiðir fagnaðarerindið, og við getum raunar ekki vitað þegar hæstv. forsrh. opnar munninn hvort hann er að tala sjálfur eða hvort hann er að tala út úr Bilderbergklúbbnum og boðar þar einhverja línu sem er mótuð bar. Mér virðist hæstv. forsrh. hafa viðurkennt með þessum orðum að hann sé fjarstýrður af þessari mafíu hins vestræna auðvalds.

Kannske veitti ekki af að hæstv. forsrh. sækti þennan fund einmitt á þeim tíma þegar samningar standa milli launafólks og atvinnurekenda og átök á vinnumarkaðinum fram undan. Á þess­um tíma, er hæstv. ráðh. sat þennan fund, var raunar einsýnt að samningar stóðu þannig að til einhverra aðgerða hlaut að koma.

Enda þótt mikil leynd hvíli yfir þessum samkundum, þá hefur þó farið svo með árunum að blaðamenn og sagnfræðingar, ýmsir rannsóknarblaðamenn svokallaðir, hafa grafið upp ýmislegt, og það er auðvitað ekkert leyndarmál heldur hverjir sækja þessa fundi. Það eru forstjórar auðhringa, það eru hershöfðingjar NATOs og yfirmenn CIA, það eru ráðamenn hjá Efnahagsbandalaginu. Hæstv. forsrh. Íslands segir að þeir hafi núna verið að ræða efnahagsmál. Það væri fróðlegt fyrir launafólk á Íslandi að fylgjast með því, hvaða línu hæstv. forsrh. hafi sótt þangað núna.

Ég hef undir höndum umræðuefni af þessum Bilderbergfundum um nokkurt árabil og heimildin er ítalska blaðið L'Evropeo. Ég ætla, til þess að gefa hv. Alþ. nokkra hugmynd um hvað þarna er rætt og á hverju við megum eiga von, að lesa hér upp umræðuefni þessara funda, en þessi samtök eða þessi mafía var stofnuð 1954, eins og menn kannske vita, sem nokkurs konar áframhald af NATO til þess að tryggja enn frek­ari ítök þess hernaðarbandalags á okkar heims­hluta.

Á stofnfundinum 1954 var umræðuefnið varnir Evrópu gegn hættunni sem stafar af kommúnismanum, afstaðan til Sovétríkjanna. Á fundi í Frakklandi 1955 var umræðuefnið útbreiðsla kommúnismans á Vesturlöndum, stefna Vestur­landa í pólitískum, hugmyndafræðilegum og hernaðarlegum efnum. Á fundi í Vestur-Þýskalandi 1955, aukafundi, var umræðuefnið staða Atlants­hafsbandalagsins, herfræðileg vandamál tengd kjarnorku, endursameining Þýskalands. Á fundi í Danmörku 1956: uppvöxtur ríkjaheilda sem beinast gegn Vesturlöndum, austurlönd og Kína, kommúnistískur undirróður í Asíu og stefna Vesturlanda. Á aukafundi í Ítalíu 1957 var um­ræðuefnið nútíma vopn og öryggi vesturlanda, hernaðarstefna NATO og vandamál tengd af­vopnunarmálum. Á fundi í Englandi 1958 framtíð NATO, vesturlönd og Sovétríkin. Á fundi í Tyrk­landi 1959: herfræðileg og viðskiptaleg vandamál vesturlanda, stefna vesturlanda í málefnum Afríku. Á fundi í Sviss 1960: staðan í heimsmálunum, stefna Bandaríkjanna gagnvart Evrópu, vandamál Evrópuríkja. Á fundi í Svíþjóð 1961: Atlantshafssamstarfið og bandarísk stjórnvöld, hið nýja hlutverk Sameinuðu þjóðanna, vandamál Efnahagsbandalagsins. Frakkland 1963: jafnvægi í hermálum Bandaríkjanna og Evrópu, Bretland og Efnahagsbandalagið, stefnan gagnvart þróunarlöndunum. Á fundi í Bandaríkjunum 1964: Atlantshafsbandalagið og breytingar á því, innri þróun Sovétríkjanna og hugsanleg stefnubreyting þeirra. Á fundi í Ítalíu 1965: samstarf á sviði gjaldeyrismála, staða NATO. Á fundi í Vestur­Þýskalandi 1966: nýskipan NATO, efnahagsþróun Evrópu með tilliti til þróunarlandanna. Á fundi í Bretlandi 1967: misræmið milli Bandaríkjanna og Evrópu á tæknisviðinu, ný vandamál NATO. Belgía 1972: ástandið í Evrópu og NATO, ný herfræðileg viðhorf. Á fundi í Frakklandi 1974: pólitísk, efnahagsleg og hernaðarleg staða Evrópu. Árið 1975 kom klúbburinn saman í Tyrklandi, en þá voru fundarmenn óvenjufáir eða um 50. Ekki veit ég hvert umræðuefnið var þá, en eftir þennan upplestur undrar mig ekki þó hæstv. forsrh. Geir Hallgrímsson kunni vel við sig í þessum klúbbi.

Herra forseti. Ég læt þetta nægja og betur hver þm. dregið sínar ályktanir af því, hvaða línu hæstv. forsrh. Íslands sótti. Ég fyrir mitt leyti á ekki von á að sú lína verði til góðs ís­lenskum verkalýð, en það mun koma í ljós á næstu dögum hvað hæstv. forsrh. Íslands á að gera.

En það eru fleiri en ég og fleiri en sósíalistar sem eru andvígir svona makki áhrifamanna hins vestræna auðvalds. Um það leyti sem hæstv. forsrh. var á þessum fundi birtist forustugrein í Dagblaðinu, og ég ætla að leyfa mér að lesa hér niðurlagið úr þeim leiðara. Hann fjallar um hæstv. forsrh. Geir Hallgrímsson og Bilderberg. Niðurlagið hljóðar svo:

„Á meðan hafa menn vonast til að ríkisstj. gerði skyldu sína og kæmi til móts við kröfur launafólks og reyndar einnig atvinnurekenda til að auðvelda kjarasamningana. Ríkið er mikilvægasti aðilinn í kjarasamningunum. Alþ. verður sent heim eftir nokkra daga. Menn telja ástæðu að óttast að enn einu sinni muni ríkisstj. bregðast skyldu sinni og halda að sér höndum, forustumenn stjórnarflokkanna muni síðan koma fram fyrir alþjóð og kenna verkalýðshreyfing­unni um verkföll og jafnvel það sem þeir munu kalla nýja kollsteypu í efnahagsmálum. Hvaða línu um þessi mál skyldi forsrh. hafa sótt á fund auðjöfranna á Englandi? Ekki eru það menn sem líklegir eru til að hafa sérstakan áhuga á að tryggja hag láglaunafólks á Íslandi eða annars staðar. Þeirra áhugi beinist að trygg­ingu eigin hagsmuna, að finna hagkvæma fjár­festingu og kannske rétta í leiðinni fram ein­hverjar gjafir í samræmi við það sem fínar frúr 19. aldar iðkuðu. Almenningur fyrirlítur þessa Bilderberg-línu.“

Þannig hljóðar niðurlag leiðarans og ég held, að Dagblaðinu hafi ratast þarna satt á munn, að almenningur fyrirlítur þessa Bilderberglínu og það hefði verið Alþ. meira til sóma að hæstv. forsrh. hefði gefið sér tíma til þess að sækja einhver ráð til Alþingis íslendinga í þeim efnahags- eða kjaramálum, sem fram undan eru, heldur en þarna út til Bilderberg.