03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4202 í B-deild Alþingistíðinda. (3259)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. Þetta eru umr. utan dagskrár sem óskað var eftir í sambandi við þinghald. Önnur mál hafa blandast í þær. Varðandi Bilderbergfundinn vil ég aðeins segja tvennt. Annað er það, að upplestur á dagskrár­efni fundanna, sem síðasti hv. ræðumaður gat um, sýnir að þar eru málefni á ferðinni sem snerta Ísland, og ég verð að harma að ég hafi ekki átt kost á að sækja fleiri fundi en raun ber vitni um. Hitt er svo það, að ég gekk úr skugga um það gagnvart aðilum vinnumarkaðarins og þeim, er málið skiptir, að fjarvera mín frá sumardeginum fyrsta, á fimmtudegi, og þar til ég kom heim eftir hádegi á mánudegi tafði í engu samningsumleitanir aðila vinnumarkað­arins og seinkaði ekki að einu eða neinu leyti störfum sáttanefndar. Þetta vil ég að komi skýrt fram. Það var ekki þannig verið að verki af minni hálfu að um undanskot frá skyldustörfum væri að ræða.