03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4203 í B-deild Alþingistíðinda. (3262)

220. mál, skipulagsskrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð

Frsm. meiri hl. (Ingi Tryggvason):

Herra for­seti. Fjvn. hefur rætt þáltill. um skipulags­skrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð á nokkrum fundum sínum. N. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til að þáltill. verði samþ. með þeirri breytingu, sem gerð er grein fyrir á þskj. 671, en breytingin er í því fólgin að við 2. gr. skipulagsskrár fyrir sjóðinn verði bætt orðunum: „á grundvelli verðtryggingar eftir nánari ákvörðun stjórnar sjóðsins.“ Þetta felur í sér að lögð er áhersla á það í skipulagsskránni að fé sjóðsins verði verðtryggt. Það stendur að vísu í frv., uppkastinu að skipulagsskrá, að stofn­fé sjóðsins skuli varðveitt í Seðlabanka Íslands og ávaxtað með hagkvæmustu kjörum. Það má e. t. v. líta svo á að í þessum orðum felist það, að fé sjóðsins sé verðtryggt, en réttara þótti að taka það fram með ákveðnara orðalagi.

Ég fjölyrði ekki fremur að sinni um þessa till. Rétt er að geta þess, að Lárus Jónsson var fjarverandi afgreiðslu málsins. 7 nm. voru sammála um þessa afgreiðslu en 2 nm. skila séráliti.