03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4206 í B-deild Alþingistíðinda. (3266)

220. mál, skipulagsskrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir meðferð og afgreiðslu þessa máls og tel ekki ástæðu til að fjölyrða um málið.

Það var rætt hér við framlagningu þáltill. allítarlega, og ég býst ekki við að ný efnisatriði komi hér fram. Ég vil þó aðeins láta það í ljós, að hér er ekki um mál að ræða sem varpað er inn í þingið á síðustu dögum þess. Öllum þing­flokkum var sent það fyrir páskahátíðina, áður en þm. fóru í páskaleyfi. Síðan var þáltill. útbýtt eftir hátíðar og hún tekin til umr. og vísað til n. eins og þingsköp gera ráð fyrir.

Ég tel engin merki þess að frekari samstaða náist um meðferð þessara fjármuna þótt beðið væri til hausts, þegar af þeirri ástæðu að ágreiningurinn er um það, hvort stofna skuli slíkan Þjóðhátíðarsjóð sem í þáltill. segir eða hvort Alþ. skuli nú þegar verja þessum fjármunum til tiltekinna verkefna sem greinir í brtt. á þskj. 498. Ég á ekki von á að sættir takist á milli þessara andstæðu skoðana og því sé engin ástæða til þess að bíða með afgreiðslu málsins, auk þess sem eðlilegt er að þessi sjóður taki til starfa, vegna þess að verkefnin eru brýn sem honum er ætlað að sinna.

Ég vil svo aðeins bæta því við, að hér hefur ekki verið gengið fram hjá Alþ. eða alþm. Fyrrv. forsrh. hefur lýst því yfir hér á þingi ómótmælt, að hann hafi skýrt fulltrúum þingflokkanna frá fyrirætlun Seðlabankans um sölu þjóðhátíðar­myntar, tilgangi þeim sem ætlunin var að ná með útgáfu myntarinnar, hvernig verja skyldi ágóðanum og að í því skyni skyldi stofnaður sjóður, er hefði þetta meginmarkmið. Á því stigi málsins var samþykkt af hálfu fyrrv. ríkisstj. að fall­ast á þetta án andmæla frá fulltrúum þingflokka. Þótt ég sé þeirrar skoðunar að þingið sé auðvit­að síðasti dómarinn í þessum efnum og geti kveðið á um efni skipulagsskrárinnar eða hvort stofna skuli Þjóðhátíðarsjóð, þá var með þetta mál farið alveg eins og önnur mál varðandi þjóðhátíð, að leitast var við að samstaða næðist um það. Mér eru það að vísu vonbrigði að svo hefur ekki orðið. En ég held að það sé alveg óþarfi að tefla þessu máli fram sem einhverju sjálfstæðismáli varðandi sannfæringu, ákvörðunarrétt eða vald alþm. Hér er um efnisafstöðu að ræða sem ég treysti þm. vel til að taka í samræmi við álit meiri hl. hv. fjvn. sem ég vil enn á ný mæla með.