03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4207 í B-deild Alþingistíðinda. (3267)

220. mál, skipulagsskrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Það er rétt, sem fram hefur komið hjá þeim ræðumönnum sem talað hafa hér á undan mér, að það er ekki miklu við þetta að bæta efnislega. Línur virðast nokkuð skýrar. Hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir, að hann eigi ekki von á því að sættir megi takast. Mér þykir það nokkuð furðuleg yfirlýsing þar sem það er vitað mál að það er alls ekki þrautreynt. Ég tel afstöðu hv. minni hl. fjvn. alveg hárrétta og get fyllilega tekið undir rök­stuðninginn í því áliti. Ég er meðflm. að brtt. þeirri sem hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir er 1. flm. að. Ég tel að í rökstuðningi minni hl. felist viðurkenning á réttmæti þess tillöguflutnings, og með hliðsjón af því svo og þeirri staðreynd, að ég tel samstöðu í þessu máli mjög mikilvæga, mun ég greiða áliti minni hl. fjvn. atkv.

Ég hef ekki fleiru við þetta að bæta, öðru en því, að ég hafna því algerlega að þingflokkar hafi í tíð vinstri stjórnar fjallað um beinar till. um hvernig þessu fé skyldi varið. Það kann að vera að hæstv. vinstri ríkisstj. hafi á einhverjum síðustu vikum sínum haft tíma til þess að ræða þessar hugmyndir, og síst af öllu skal það gagn­rýnt, en þær hugmyndir voru ekki ræddar í þingflokkum og því síður beinar tillögur. En það er kannske líka rétt að taka það fram, að það hefur enginn þm. gagnrýnt það að myntin skyldi slegin. Það er ekki það atriði sem er til umr., heldur eingöngu það, að Alþ. hefur verið snið­gengið við ráðstöfun þessara fjármuna.