03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4209 í B-deild Alþingistíðinda. (3270)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þar sem mjög er nú liðið á þennan næstsíðasta dag hins háa Alþ. gefst ekki mikill tími til þess að ræða ítar­lega þá skýrslu sem hér liggur fyrir um Framkvæmdastofnun ríkisins fyrir árið 1976, enda þótt margt fróðlegt sé í henni að finna og margt um hana að segja. Ég mun því ekki vera lang­orður að þessu sinni, en tel þó rétt að standa hér upp og segja örfá orð þegar þetta mál er nú hér á dagskrá.

Ég vil ekki láta þetta tækifæri ónotað til þess enn á ný að minna á þær skoðanir mínar, að það sé hin mesta ósvinna að enn sitji sem fram­kvæmdastjórar hjá þessari stofnun tveir af okk­ar samstarfsmönnum hér á þingi, sem reyndar fengu samþykkt ákvæði um möguleika þeirra til þess að starfa í þessari stofnun með eigin atkv. á sínum tíma. Í þessu sambandi vildi ég líka minna á eða vekja athygli á því, að á þessu ári voru hv. þm. Sverrir Hermannsson og Tómas Árnason skipaðir forstjórar Framkvæmdastofn­unar ríkisins samkv. till. stjórnar þessarar stofn­unar án þess að þessar stöður væru auglýstar, og ég tel að það sé einhlítt að það brjóti algerlega í bága við þær reglur sem almennt gilda um ráðningu opinberra starfsmanna. — Ég vildi láta þessa aths. koma hér fram. En ekki meira um það.

Samkv. 10. gr. laganna skal byggðadeild gera áætlanir um þróun byggða og atvinnulífs í þeim tilgangi að tryggja atvinnu og búsetu í byggðum landsins. Þetta er eitt af meginákvæðum laganna, og ég hef ávallt skilið það svo, þetta ákvæði, að það nái til allra byggðarlaga hvarvetna á landinu og tilgangur þessarar stofnunar, þessara laga og þessarar starfsemi, sem þarna fer fram, sé að skapa jafnvægi milli einstakra byggðarlaga, hvort sem það nefnist dreifbýli eða þéttbýli. Að þessu leyti hef ég stutt markmið svokallaðrar byggða­stefnu og haft fullan skilning á því, að nauðsyn­legt sé að koma í veg fyrir röskun, verulega ó­þægilega röskun varðandi búsetu fólks, og að sjálfsagt sé að styðja við dreifbýlisbyggðarlög og skapa möguleika til viðunandi lífskjara hvar­vetna á landinu. Þessa þróun, sem átt hefur sér stað í þessum efnum, þekkjum við sem hér sitj­um, og það er óhætt að fullyrða að m. a. með starfsemi Framkvæmdastofnunar hefur verulegur árangur náðst að því leyti að fólksfjölgun hér á þéttbýlissvæðinu hefur verið stöðvuð og uppbygging ýmissar ágætrar atvinnustarfsemi hefur átt sér stað víða um land.

Hins vegar hefur þessi þróun skapað nokkur vandræði fyrir þéttbýlissvæðin, m. a. Reykjavík, og sú skýrsla sem hér er lögð fram, undirstrikar þessa staðreynd. Erindi mitt hingað í ræðustólinn er að draga fram örfá atriði þar sem þetta kemur fram.

Í fyrsta lagi kemur fram í þessum skýrslum, sem reyndar liggur fyrir í öðrum skýrslum, frá Hagstofu og öðrum þeim sem með því fylgjast, að fólksfjölgun í Reykjavík hefur ekki verið sambærileg við það sem annars staðar þekkist, og reyndar er um nokkra fækkun að ræða í Reykja­vík miðað við hlutfallslega fjölgun landsmanna allra.

Þá kemur líka fram í þessari skýrslu að meðaltekjur reykvíkinga eru lægstar ef kjördæmi eru skoðuð, og lækkuðu meðaltekjur reykvíkinga um 1% á síðasta ári.

Í þriðja lagi ber þessi skýrsla með sér að tala atvinnulausra er langhæst á Reykjavíkursvæðinu eða 201 af 506 skráðum atvinnulausum, og er þá um að ræða ársmeðaltal fyrir 1976. Að vísu er nokkuð erfitt að átta sig á þessari töflu eins og reyndar ýmsum fleiri töflum þar sem ruglað er saman Reykjavík og Reykjanesi eða ýmsum svæðum úr Reykjaneskjördæmi, og tel ég þetta vera galla á þessari skýrslu, því að auðvitað verður að birta tölur og niðurstöður um ástand í Reykja­vík sem sérstöku kjördæmi, alveg eins og öðrum kjördæmum sem um er fjallað í skýrslunni.

Í fjórða lagi er fróðlegt að sjá við upptalningu á lánveitingum úr Byggðasjóði hversu hlutur Reykjavíkur er rýr. Samkv. skýrslunni eru lánveitingar til hinna ýmsu kjördæma sem hér segir: Vesturland 31, Vestfirðir 56, Norðurland vestra 27, Norðurland eystra 59, Austurland 78, Suður­land 51, Reykjanes 13 og Reykjavík 7. Þessar tölur segja sína sögu. Ef litið er síðan á upphæðirnar kemur í ljós að til aðila, sem taldir eru til Reykjavíkur, eru veitt lán og styrkir úr Byggða­sjóði að upphæð 93 millj. kr. En þegar skoðað er betur, hvaða lán hér er um að ræða, kemur í ljós að í fyrsta lagi er veitt lán til Guðmundar J. Magnússonar vegna nýsmíði á 25 lesta fiskibáti að upphæð 5.2 millj., í öðru lagi lán til endurbóta á mótorbátnum Val að upphæð 1 millj., í þriðja lagi er síðan talið upp sem lán og fyrirgreiðsla til reykvíkinga framlag til Hagstofu Íslands varðandi athuganir á framfærslukostnaði í nokkrum stöð­um utan Reykjavíkur. Síðan er veitt lán til ný­smíði á skuttogara, sem er meginuppistaðan í þessum lánveitingum til reykvíkinga, 84 millj., en þessi nýsmíði skuttogarans fer alls ekki fram í Reykjavík, heldur í allt öðru kjördæmi, nánar til­tekið í Reykjaneskjördæmi. Og að lokum er 2 millj. kr. lán til Rannsóknastofnunar landbúnað­arins og þessu láni skal varið til beitartilrauna á hálendi. Þá eru upp taldar þær lánveitingar sem ganga til þessa kjördæmis sem ég er að gæta hagsmuna fyrir. Þetta er auðvitað rýr upptalning, og þegar verið er að taka svona skýrslur saman eru þetta blekkjandi og beinlínis rangar upplýs­ingar og ég vil mjög vita svona vinnubrögð.

Ég held sem sagt að það fari ekkert á milli mála við lestur þessarar skýrslu að hlutur Reykjavíkur er ákaflega slakur. Það kann að eiga sér þær skýringar, ef maður vill vera mjög sanngjarn, að það hafi þurft að veita mikið fé til dreifbýliskjördæma og til þeirra byggðarlaga þar sem atvinnulíf hefur ekki verið í mjög mikl­um blóma. En nú hefur þessari þróun verið snúið algerlega við, eins og ég hef hér upp talið, að meðaltekjur lækka hér í Reykjavík, atvinnuleysingjar eru flestir og fólksfjölgun hefur algerlega stöðvast.

Byggðasjóður hefur eflst mjög á síðustu ár­um. 1974 hafi hann til úthlutunar 297 millj., 1975 860 millj., 1976 1123 millj. og talið er að hann hafi 1977 1630 millj. til ráðstöfunar. Þetta er auðvitað gríðarlega mikil hækkun, úr 297 millj. 1974 í 1630 millj. árið 1977. Á sama tíma sem útlánastarfsemi almennra banka og sparisjóða er takmörkuð er sífellt meira úr að spila í Fram­kvæmdastofnun ríkisins og Byggðasjóði. Þess vegna hlýtur það að vera umhugsunarefni, ekki aðeins fyrir reykvíkinga, heldur reyndar fyrir hið háa Alþ. og fyrir stjórnvöld, hvernig þessu fé megi deila út til landsmanna þannig að það sé gert af sanngirni og tekið tillit til hagsmuna allra kjördæma án tillits til þess hvort þar sé um að ræða þéttbýli eða dreifbýli. Ég vil trúa því að þróunin verði sú á næstu árum að jafnvægi hafi náðst og að atvinnulíf hafi verið það mikið eflt víða um land að ástæðulaust sé við ráðstöfun á fé Byggðasjóðs að einskorða sig við lánveitingar til svokallaðra dreifbýliskjördæma. Það hlýtur að vera komið að því, jafnvel strax á þessu ári, að litið sé jafnframt á hagsmuni reykvíkinga. Út af fyrir sig hef ég aldrei skilið þá stefnu sem í því felst að búa til sérstaka stofnun hér í Reykjavík, safna gífurlegu fé í sjóði en landsmenn hvar­vetna verða síðan að koma hingað á betlibuxum til Reykjavíkur og allra náðarsamlegast að óska eftir fyrirgreiðslu frá þeim háu herrum sem ríkja í Framkvæmdastofnun með aðsetri í Reykja­vík. Ég hefði talið að hægt væri að efla byggð og framkvæma byggðastefnu með öðrum og skyn­samlegri hætti og með þeim hætti að fólkið úti á landi væri sjálft með þetta fé á milli handa og þyrfti ekki að sækja fyrirgreiðsluna hingað til Reykjavíkur. En ég skal ekki fara út í það hér að sinni, til þess gefst ekki tími.

Við sjáum hins vegar af því sem ég hef upp talið, að ekki verður lengur við það unað, og ég vona að þeir, sem stjórna þessari stofnun, muni ekki heldur lengur við það una að hagsmunir reykvíkinga og Reykjaness séu fyrir borð bornir. Ég held að það sé heppilegast fyrir okkur alla að sæmilegur friður ríki á milli kjördæma, það sé ekki verið að skapa neina gjá á milli þeirra, sem í þéttbýli búa, og þeirra, sem í dreifbýli búa. Og stefna og starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins getur átt mikinn þátt í því að skapa réttlæti og frið um jákvæða og skynsamlega byggðastefnu.