03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4215 í B-deild Alþingistíðinda. (3278)

52. mál, endurbygging raflínukerfis í landinu

Fram. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér um ræðir, fjallar um það, að Alþ. feli ríkisstj. að láta nú þegar gera áætlun um endurbyggingu raflínukerfisins í landinu, og er frá því greint nokkru nánar. Fjvn. hefur rætt þessa till. og flytur við hana smávegis brtt. um að í stað orðsins „áætlun“ komi: kostnaðaráætlun.

Mál það, sem hér er um rætt, er umfangs­mikið og mörgum ofarlega í huga. Það var leitað umsagna Orkustofnunar og Rafmagnsveitna ríkisins um þetta mál og bárust svör frá rafmagnsveitustjóra og orkumálastjóra við spurningum nefndarinnar.

Ég tel ekki ástæðu til að orðlengja lengi um þetta mál. Nm. er að sjálfsögðu ljóst að þessi mál, skipulagning á uppbyggingu og endurbygg­ingu raflínukerfisins í landinu, eru í deiglunni og það er að þeim unnið eins og nú er, þó að ýmsum finnist að hægar gangi heldur en þurft hefði.

Ég ætla ekki að fara að gera því skóna, hvað hafi verið efst í hugum flm. þessarar till. heim hefur ekki öllum verið það sama jafnofarlega í huga. En það er hægt að segja að það megi skipta raflínukerfi landsins í aðalatriðum í þrjá flokka. Það eru aðalflutnings- og samtengingarlínur á milli landshluta, flutningslínur til dreifiveitnanna innan þessara landshluta, dreifikerfin í þéttbýlisstöðunum og dreifiveiturnar í sveitunum. Allt þetta raflínukerfi er orðið mjög víðtækt, það hefur kostað mjög mikið að byggja það upp og á undanförnum árum hefur verið unnið mjög mikið verk, alveg sérstaklega í sambandi við aðalorkuflutningslínur.

Ég vil gjarnan segja það hér, að eitt af þeim verkefnum, sem mest kalla að, er endurbygging á dreifilínunum í sveitunum, vegna þess að af skiljanlegum ástæðum var lagt mikið kapp á að leggja þessar línur víða. Það var kostnaðarsamt og línurnar eru þannig úr garði gerðar að þær fullnægja ekki nema að nokkru leyti orkuþörf þeirra byggðarlaga sem þær liggja um. Það er komið svo nú að mikill meiri hluti sveitabýla á landinu hefur rafmagn til heimilisnota. Þó eru mörg eftir og mjög mikil nauðsyn að leysa vanda þeirra. En hitt er að verða nálega jafn­brýnt, að endurbyggja þá þætti dreifikerfisins sem alls ekki geta sinnt því hlutverki sem upp­haflega var gert ráð fyrir að þau sinntu: að flytja nægilegt rafmagn til heimilisnota.

Það má geta þess til fróðleiks að línulengd um sveitir er nú 5300 km einfasa og 1050 km þriggja fasa, samtals 6350 km, og að heimtaugar til býla og húsa í strjálbýli eru 6000 og spennistöðvar um 5000. Þessar tölur segja þá sögu, að ef ætti að ganga þannig frá dreifikerfinu í sveitunum að allir fengju þriggja fasa rafmagn og ættu þess vegna sambærilegan kost að nota sér rafmagnið, en það er mjög mikill munur á því hvort menn hafa þriggja fasa rafmagn eða einfasa rafmagn til nota á heimilum sínum og sérstaklega þá í atvinnurekstri, þá þarf þarna geysilegt átak til þess að breyti þessu, þar sem við sjáum að aðeins um sjötti hluti af öllu raflínudreifikerfinu um sveitir er þriggja fasa, en 5/6 hlutar enn þá einfasa.

Það eru mörg fleiri verkefni stór, eins og flutningslínur til dreifiveitnanna. Þar hefur að vísu ýmislegt verið unnið, en bæði í heildarsamtengingu aðalorkuflutningslína og flutnings­lína milli dreifikerfa er mikið óunnið.

Ég vil endurtaka það, að fjvn. leggur til að þessi þáltill. verði samþykkt, og lít ég svo á, að það sé fyrst og fremst viljayfirlýsing af hálfu n. til að sýna samstöðu með þeim hugmyndum, sem felast í till., og til að leggja áherslu á að það verk, sem raunar er í gangi, þurfi að hafa velvilja þeirra, sem með þau mál fara að úthluta fjármunum til þessara framkvæmda.