03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4218 í B-deild Alþingistíðinda. (3285)

205. mál, rafstrengur til Vestmannaeyja

Frsm. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Till. til þál. um nýjan rafstreng til Vestmannaeyja hefur verið rædd í fjvn. N. kallaði til sín Kristján Jónsson rafmagnsveitustjóra ríkisins og gaf hann n. ýmiss konar upplýsingar. Í máli Kristjáns kom m. a. fram að núverandi rafstrengur til Vestmannaeyja er raunar ekki fullnýttur og að hann hefur staðið sig vel þar til gosið hófst í Vestmannaeyjum. Strax eftir gosið var farið að ræða um þörf á því að leggja annan rafstreng til Vestmannaeyja, einkum með tilliti til þess ef tekin yrði upp húsahitun í Vestmannaeyjum með rafmagni. Þá hefur líka verið rætt um nýjan streng sem varastreng vegna bilanahættu á þeim sem fyrir er.

Það hefur verið kannað nokkuð hvað nýr strengur, sem flytti 25–30 mw., kostaði. Áætlaður kostnaður nú er um 340 millj. kr. ef strengurinn er fluttur þannig inn að greidd eru öll gjöld af honum samkv. tollskrá og öðrum ákvörðunum um greiðslu til ríkisins. Af þessum 340 millj. munu vera aðflutningsgjöld og söluskattur um 120 millj.

Það er rétt að geta þess, að iðnrn. hefur með bréfi farið fram á það, að Rafmagnsveitur ríkis­ins skoði þetta mál sem vendilegast nú. Það hefur orðið mjög mikill kostnaður við þennan rafstreng í vetur. Áætlaður kostnaður við við­gerðir á honum er í kringum 100 millj. kr. Nýr strengur mundi vissulega tryggja að ekki yrði orkuskortur í Vestmannaeyjum þó að annar af tveim strengjum bilaði. Hins vegar breytir það auðvitað ekki því, að þó að tveir strengir lægju til Eyja hlyti að þurfa að gera hverju sinni við þann sem kynni að bila.

Samkv. upplýsingum rafmagnsveitustjóra telja sérfræðingar að nú sé ástand þessa strengs gott. Það komu í ljós vissar bilanir sem má rekja til örðugleika við viðgerðirnar, en talin er ástæða til að ætla að bilanahættan sé nú minni en hefur verið á undanförnum mánuðum.

Fjvn. þótti rétt að taka undir efni þessarar till. og mæla með því að tillgr. yrði samþykkt. Hún hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. for­seta, eftir að fjvn. hefur gert till. um breytingu á henni:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að fela Rafmagnsveitum ríkisins að gera nú þegar framkvæmda- og kostnaðaráætlun um lagningu nýs rafstrengs til Vestmannaeyja.“

Þetta mun vera í samræmi við það verk sem þegar er að einhverju leyti í vinnslu og er hugs­að sem áminning um að þetta verk þurfi að skoða og síðar verði teknar ákvarðanir um það, hvar þetta verkefni kemur í röð þeirra stærri verk­efna sem við vissulega þurfum að vinna í sam­bandi við það að dreifa orkunni um landið.