03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4220 í B-deild Alþingistíðinda. (3287)

205. mál, rafstrengur til Vestmannaeyja

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fjvn. fyrir það, að hún vildi þó afgreiða málið. En ég kemst ekki hjá því að velja athygli á allmiklum mismun á þáltill. eins og hún var og eins og hún verður með breytingu sem hv. fjvn. leggur til. Í þáltill. segir: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að fela Rafmagns­veitum ríkisins að hefja nú þegar undirbúning að því, að nýr rafstrengur verði lagður til Vest­mannaeyja.“ Hins vegar leggur hv. fjvn. til að skora á ríkisstj. að fela Rafmagnsveitum ríkisins að gera nú þegar framkvæmda- og kostnaðar­áætlun um lagningu nýs rafstrengs til Vestmanna­eyja. Það fer vissulega eftir því hvernig menn vilja meta afgreiðslu fjvn., sem ekki er beinar undirtektir við efnisatriði þáltill., en þó felst í henni að með því að fara út í þetta, sem sagt að gera framkvæmda- og kostnaðaráætlun, þá hlýtur það að vera til einhvers. Menn rjúka ekki í það að gera framkvæmda- og kostnaðaráætlun um eitthvert ákveðið verk nema að baki búi einhver, kannske misjafnlega mikið dulinn ásetningur um að koma verkinu áfram. En bragðdaufara gat það nú varla verið. Hitt er svo annað mál, ef maður heitir allri þeirri sanngirni sem maður á til í þessum efnum og með tilliti til afgreiðslu á öðrum málum sem hafa komið frá einstökum þm., þá held ég að ég verði að líta á þetta sem nokkurn stuðning við efnislegan hluta málsins, þannig að mér verði ekki borið það á brýn, að ég reyni ekki að líta á þetta með eins mikilli sanngirni og mögulegt er.

Nú er það svo, að þótt þessi till. með breytingunni verði samþykkt, þá er í rauninni ekki mikið eftir að gera af því sem í henni felst. Við vitum hvað strengurinn kostar. Við vitum hvernig hann er. Við vitum hve háa spennu á að nota til þess að keyra strauminn í gegnum strenginn. Og við vitum hversu mikil flutnings­getan er o. s. frv. Kostnaðaráætlun er því ekkert framtíðarprógramm. Ég get verið með hana hérna í vasanum þess vegna. Framkvæmdaáætlun — hvað er nú það? Það þarf kannske að gera áætlun um það líka. En þetta verk er einfaldlega fólgið í því að rúlla út úr skipi þessum streng milli lands og Eyja, og það er ekki um marga staði að ræða að leggja þennan streng. Staðurinn er í rauninni ekki nema einn, þannig að þess vegna getur maður ekki verið með slíka framkvæmdaáætlun í vasanum, heldur bara í höfðinu.

En ég treysti því samt að andinn í þessari afgreiðslu sé það jákvæður og menn líti með fullum skilningi og alvöru til þeirrar nauðsynjar sem ber til að flytja orku út til Eyja, að strengurinn verði þrátt fyrir allt lagður. Og ég vil leggja á það áherslu, að mér óar við þeirri til­hugsun, hvað svo sem sá ágæti maður Kristján Jónsson hefur sagt um traust sitt á strengnum eins og hann er, vitandi það að hann hefur bilað nú þrisvar á mjög stuttum tíma, — óar við þeirri tilhugsun satt að segja að leggja út í aðra vertíð með þá geysilegu framleiðslu, sem er í þessu plássi, og þau stórkostlegu verðmæti, sem þar eru í húfi, og hugsanlega ekki eins gott veður annan veturinn til eins og nú. Það er alveg með eindæmum, að það skuli hafa tekist að gera við strenginn og lagfæra hann fjórum sinnum á sama vetrinum, eins og gert hefur verið nú, því að slík veður eru þarna að öllum jafnaði að viðgerð á rafstrengnum gæti tekið og tekur örugglega að meðaltali langtum lengri tíma held­ur en verið hefur, ekki aðeins nokkra daga, heldur jafnvel vikur eða marga mánuði. Við höf­um fengið slíkar vertíðir þarna, að það hefur ekki verið viðlit að líta við viðgerð á strengnum svo að mánuðum skiptir, og við getum ósköp einfaldlega, án þess að kunna mikið að reikna út svona tæknilega hluti, séð í hendi okkar hvað það þýðir, t. d. á miðri loðnuvertíð ef rafmagnið fer af. Ég vil þess vegna leyfa mér að beina því til hæstv. ríkisstj., að hún beiti sér fyrir því að þetta verk verði unnið og það verði unnið sem fyrst, því að við vitum að slíkan streng er hægt að fá með tiltölulega stuttum afgreiðslufresti nú, þó að afgreiðslufrestur á þeim streng, sem nú liggur, hafi verið um það bil hálft ár, að mig minnir að hv. þm. Ingólfur Jónsson hafi sagt, sem þá var orkumálaráðherra.

Hv. frsm. fjvn. gat þess, hversu mikið strengurinn kostaði, þ. e. a. s. hver væri kostnaðaráætlunin, hann kostaði um 340 millj. kr., en tollar og aðflutningsgjöld væru 120 millj., þannig að verðið á strengnum að þeirri upphæð frádreginni væri um 220 millj. kr. Það er ekki siður að taka tolla og aðflutningsgjöld af slíkum vörum, vélum og strengjum til Rafmagnsveitna ríkisins, þannig að við þurfum ekkert að horfa á brúttótöluna í þessu máli fremur en öðrum slíkum. En í því sambandi langar mig til að geta þess, að sá strengur, sem hér um ræðir, þ. e. a. s. nýr strengur, sá strengur sem þarna hefur verið verðlagður, er miklu betri, hann er raunar allt annar strengur en sá sem nú er milli lands og Eyja, í fyrsta lagi vegna þess að það á að keyra strauminn í gegnum þennan streng með 60 kílóvoltum í stað þess að spennan á núverandi streng er 33 kv. Það þýðir að það er hægt að flytja miklu meiri straum með miklu minni töpum heldur en nú er. Ég gat þess að vísu áðan, að starfsmaður Rafmagnsveitnanna hefði talið ástand strengsins gott. Ég vona að það sé satt, en ég veit það ekki, og ég leyfi mér því miður að efast um það. Ég veit ekki og get alls ekki ímyndað mér hvernig hann hefur getað komist að þeirri niður­stöðu, vegna þess einfaldlega að strengurinn hef­ur alls ekki verið skoðaður.

Herra forseti. Ég skal fara að stytta mál mitt. En ég get varla komist hjá því að nefna ofur­lítið þátt hv. þm. Pálma Jónssonar í málinu sem áleit vænlegast að vísa því til ríkisstj. Ég er ekkert að segja að það sé neitt verra en sú af­greiðsla sem hér liggur fyrir framan okkur, því að í rauninni er ákvörðuninni með þessu vísað til ríkisstj. Ég lít svo á. Hún verður að ákveða hvort á að tryggja raforku til Vestmannaeyja eða ekki, því að þetta þarf að ákveða í sumar, og ég vantreysti ríkisstj. ekkert til að fást við þetta verkefni, síður en svo. Ég er viss um að ríkisstj. skilur það mjög vel, hversu dýrt spaug það gæti verið, ef við fengjum ekki þann streng sem við nauðsynlega þurfum, og hve mikill kostnaður er því samfara þegar strengurinn fer í sundur.

Í því sambandi var rætt um hér áðan af einum ræðumanna, raunar af frsm. hv. fjvn., að kostnaður við viðgerðirnar hefði verið um 100 millj. kr. í vetur. Ég vil hins vegar leyfa mér að nefna hér nokkrar aðrar tölur og skora á hv. frsm. n. að vefengja þær ef hann vill. Í byrjun ársins fór fram allmikil endurbót á strengnum, sem álitið er að hafi kostað á milli 70 og 80 millj., líklega nær þeirri tölu, 80 millj. kr. meðan voru keyrðar dísilvélar allan tímann, sem var langur, ég man það ekki nákvæmlega og þori ekki að fara með það. Síðan hefur strengurinn bilað þrisvar. Það var sagt eftir þeim rafmagns­veitumönnum, að hver viðgerð kostaði 15 millj. kr., hver tenging. Nú vill svo til að þrisvar 15 eru 45, og ef við leggjum það saman við 80, þá fáum við 125:125 millj. En tjónið hefur auð­vitað verið miklu meira en þetta, vegna þess að bærinn hefur og atvinnutækin hafa verið keyrð með dísilorku í meira en mánuð samtals, og það er staðfest að kostnaður við þessa keyrslu hefur verið um og yfir eina millj. kr. á dag í olíukostnað, fyrir utan allt það tjón sem orðið hefur þegar þurft hefur að skammta rafmagn, auk þess tjóns sem Eyjabúar hafa orðið fyrir vegna þess að gífurlegur fjöldi rafmagnstækja hefur eyðilagst. Þegar við leggjum svo olíukostnaðinn þarna við, þá erum við farnir að nálgast l60 millj. kr. Þá er ekki mikið eftir í nýjan streng. Og það er einmitt þess vegna sem ég nefni þessar tölur, af því að ég var að víkja að ummælum hv. þm. Pálma Jónssonar, að það sparaðist ekkert við að leggja þennan nýja streng. Það er alger misskilningur. Það sparast mikið, því að ef við legðum ekki nýjan streng, þá hefðum við bara gamlan streng og þessi gamli strengur, ef hann ætti að sinna raforku­þörf Vestmannaeyjakaupstaðar, þyrfti þá að flytja ríflega 6 mw., og það er það sem notað er nú.

Vitað er að mikil þörf er raforkuaukningar til Vestmannaeyja á næstunni, eins og nefnt var hér áður, og með svo lágri spennu sem notuð er til þess að keyra strauminn í gegnum þennan streng, 33 kv., þá fara töpin mjög hratt vaxandi. Þegar við þurfum að reka fleiri og fleiri mw. í gegnum strenginn með þessum sama þrýstingi eða sömu spennu, þá fara töpin hraðvaxandi og stefna upp á við, þannig að töpin eru nú þegar á milli 10 og 12% og fara mjög hratt vaxandi. Ef við keyrum 10 mw. í gegnum strenginn, svo að dæmi sé tekið, þá verða töpin farin að nálgast 2 mw. Það er ekkert lítið, ef það er gert allt árið, sem tapast við að keyra strauminn þarna í gegn, svo að það sparast þó sem hv. þm. Pálmi Jónsson nefndi ekki.

Herra forseti. Auðvitað mætti gera miklu nánari grein fyrir fjöldamörgum atriðum öðrum í sambandi við þetta mál, bæði hvað snertir þarfir bæjarbúa og þá aukningu á rafmagnsnotkun sem við horfumst í augu við nú í Vestmannaeyjum, sem er miklu meiri en venja er. Auk þess mætti nefna ýmis tæknileg vandamál í sambandi við strenginn, en ég held að ég eyði ekki tíma hv. Alþ. nú rétt fyrir þinglausnir til að rekja það. Hins vegar vil ég leyfa mér að endurtaka það, að ég og auk þess fjölmargir aðrir, sem ekki aðeins er málið skylt, heldur einnig þeir menn sem þekkja til þessara hluta og vita hvað í húfi er, þeir álíta brýna nauðsyn að rafstrengurinn verði lagður nú á þessu ári. Og ég vil taka undir orð hv. þm. Guðlaugs Gíslasonar, þegar hann hvatti hæstv. ríkisstj. til að snúa sér sem fyrst að þessu verkefni og leysa það í sumar.