03.05.1977
Sameinað þing: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4223 í B-deild Alþingistíðinda. (3288)

205. mál, rafstrengur til Vestmannaeyja

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Það er nú með ólíkindum að það skuli þurfa að halda langar ræður um málefni eins og það sem hér liggur fyrir, þar sem greinilegt er að tillögumaður og fjvn. með sinni afgreiðslu eru sammála um það sem gera skal. Á ég bágt með að skilja með hverj­um hætti hv. flm. þessarar till. finnur það út að afgreiðsla fjvn. sé óeðlileg. Ég kemst ekki hjá því að rifja það upp, að formaður fjvn. taldi áðan að sá kostnaður, sem hefði orðið af því að gera við þann streng, sem nú liggur milli lands og Eyja, hafi verið um 100 millj. kr. Tillögumaður dró mjög í efa að þessi tala væri hin rétta, hún væri miklu hærri. Síðan það álit hans kom fram hefur það verði staðfest í viðtali við rafmagnsveitustjóra ríkisins, að ekki er þessi kostnaður fyllilega upp­gerður enn, en allt útlit er fyrir að viðgerðarkostnaðurinn sé 100–110 millj. kr.

Ég vil þá lítillega koma að þeirri till. sem hv. flm., 5. þm. Suðurl. flytur og hér er til afgreiðslu. Í henni segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að fela Rafmagnsveitum ríkisins að hefja nú þegar undirbúning að því, að nýr rafstrengur verði lagður til Vestmannaeyja.“

Eins og fram kemur í nál. fjvn. var það upplýst af rafmagnsveitustjóra ríkisins, að fyrir nokkr­um árum hefði verið hafinn undirbúningur að því að leggja nýjan streng til Vestmannaeyja, og það er óumdeilt, að það hefur verið hafinn undirbúningur að því og þetta er í athugun eins og er. Þess vegna fer till. ekki fram á neitt nýtt, eins og hún kom til fjvn. Hins vegar var það, að þegar fjvn. fór að ræða till., þá þótti henni rétt að fá frekari upplýsingar um hvað þetta verk er stórt og hverjar líkur væru á því að það þyrfti eða gæti komið til framkvæmda. Og það er með þetta fyrir augum sem fjvn. leggur til að breyta till. í það horf að Rafmagnsveitum ríkisins verði falið að gera nú þegar framkvæmda- og kostnaðaráætlun um lagningu nýs rafstrengs til Vestmannaeyja. Það kom í ljós, þegar við ræddum við rafmagnsveitustjóra ríkisins, að strengur, sem væri af svipaðri gerð og sá sem nú liggur milli lands og Eyja, það væri vitað hver sá kostnaður yrði, og voru það þær tölur sem formaður fjvn. nefndi í sinni framsöguræðu. Hins vegar kom það fram hjá rafmagns­veitustjóra ríkisins, að hann teldi rétt að kannaðar yrðu fleiri gerðir og það borið saman við þær upplýsingar, sem áður hefðu verið handbærar hjá Rafmagnsveitum ríkisins, til þess að tryggja orkuflutning til Vestmannaeyja sem best. Og ég verð að segja það, að sem einn af fulltrúum Suðurlandskjördæmis og fólksins þar vil ég leggja áherslu á það, að ef lagt væri í verulegan kostnað við að leggja nýjan rafstreng til Eyja, þá yrði það gert á þann besta varanlega hátt sem tæknin gæti sýnt okkur.

Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Garð­ars Sigurðssonar, að rafmagnsveitustjóri telur þann streng, sem nú liggur milli lands og Eyja, allgóðan. En ég verð að segja eins og flm. till., að ég er ekki tilbúinn að sætta mig við það að hann verði einn látinn nægja í þessu efni, þrátt fyrir að það kom fram í máli rafmagnsveitustjóra ríkisins að flutningsgeta þess strengs er ekki nærri fullnýtt enn. Þess vegna tel ég að það beri að leggja höfuðáherslu á það, að unnið verði að því að kanna með hverjum hætti við fáum þessa tengingu á sem varanlegastan og bestan hátt fram­kvæmda, og það er höfuðnauðsyn, þegar rætt er um það á hvaða tíma þetta skuli gert, að vita með nokkru öryggi hvað framkvæmdin kemur til með að kosta.

Ég vísa því algerlega á bug að það sé af neinni linkind, að orðalagsbreyting hafi verið gerð á þessari till. í fjvn. Orðalagsbreytingin er gerð til þess að við stöndum traustari fótum í sókn til þess að fá varanlega tengingu milli lands og Eyja.