03.05.1977
Efri deild: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4225 í B-deild Alþingistíðinda. (3293)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég ítreka þakkir sem ég hef áður borið fram til hæstv. forsrh. fyrir að flytja okkur svar ríkisstj., — ítreka þakkir fyrir svarið sem ég er þó síst ánægður með. Því hef ég áður lýst við umr. utan dagskrár í Sþ. og mun ekki orðlengja það frekar, það er þarflaust. Ég tek svarið alls ekki gilt. Ég tel að ærið tóm gæfist til þess að verða við óskinni þarna vestan að um lýðræðislega og formlega atkvgr. þar sem það mætti koma skýrt fram og óumdeilanlega hver afstaða fólksins til fyrirhugaðrar verksmiðju væri.

Ég mun ekki orðlengja þetta frekar, hlýt aðeins að segja sem svo, að eigi má sköpum renna. Það er lítil gleði í þeirri tilhugsun, að seinna mun það koma fram að betur hefði ríkisstj. hinkrað við í þessu máli, — engin tilhlökkun til þeirrar stundar er við andmælendur þessa frv. munum segja við hæstv. forsrh., sem ég vænti að þá verði ekki lengur forsrh.: Hvað sagði ég þér?