09.11.1976
Sameinað þing: 16. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

42. mál, veiting lyfsöluleyfa

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Hæstv. forseti. Í stjórnmálasögu okkar íslendinga eru margir heldur óskemmtilegir kaflar. Einn kaflinn, ákaflega óskemmtilegur, er um stöðuveitingar. Það tíðkaðist hér mjög lengi að stöður voru veittar að geðþótta ráðh. og oft að pólitískum geðþótta og væri hægt að rekja þá sögu um langan aldur. Hún er ákaflega óskemmtileg. En sem betur fer hefur dregið úr slíkri mismunun að undanförnu, m.a. fyrir tilstilli Alþ. sem hefur sett í lög í ákaflega mörgum tilvíkum að fara skuli að sérstökum reglum þegar stöður eru veittar, leitað álits þar til greindra aðila, og nú í eina tvo áratugi hafa ráðh. fylgt slíkum fyrirmælum yfirleitt á næsta eðlilegan hátt svo að mismunun við veitingu embætta er miklu minni núna en hún var um afar langt skeið.

Meðal þeirra embætta, sem mjög var keppt um áður fyrr, voru lyfsöluembættin, vegna þess að þau voru talin veita allálitlegar gróðalíkur, og margir sóttust um að komast í slíka aðstöðu. Alþ. setti þess vegna á sínum tíma reglur um það, hvernig ætti að veita slíkar stöður, og hefur verið farið eftir þeim frá því að þau lög voru sett, allt þar til hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason tók við stöðu heilbrrh. Hann hefur brotíð þessar lagareglur — eða andann í þessum lagareglum, því hann fer vissulega með æðsta vald, það dregur enginn það í efa, — hann hefur brotíð í bága við anda og tilgang þeirra.

Ég skal rekja þessa sögu stuttlega, og til þess að enginn telji að ég sé hér að láta í ljósi almennan pólitískan ágreining minn við þennan hæstv. ráðh., þá mun ég fylgja frásögn sem birtist í Dagblaðinu 10. okt. s.l., en hæstv. ráðh. mun á það fallast að það blað sé frekar hlynnt honum í stjórnmálum. Fyrirsögn Dagblaðsins er þannig: „Heilbrrh. hundsaði þrívegis álit sérfræðinga. Hefur veitt þrjú lyfsöluleyfi að eigin geðþótta“. Og sjálf frásögnin er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Í sumar hafa lyfsöluleyfi í þremur apótekum á landinu verið auglýst laus til umsóknar og síðan verið veitt. Í engu tilfeilanna fór Matthías Bjarnason heilbrmrh.till. sérfræðinga sem samkv. lögum eiga að raða umsækjendum í röð eftir reynslu þeirra og starfsaldri.

Sérfræðingarnir, sem raða eiga umsækjendum upp, eru annars vegar tveggja manna n. skipuð fulltrúum lyfsala og lyfjafræðinga og hins vegar landlæknir. Í öllum tilfeilunum þremur voru umsagnaraðilarnir sammála um niðurröðun umsækjenda, og þannig fékk Matthías Bjarnason ráðh. í hendur lista yfir umsækjendur í tölusettri röð. Í öllum tilfellunum virti ráðh. umsagnir sérfræðinganna að vettugi og valdi „sína menn“ að eigin geðþótta.

Er þetta enn eitt dæmið um valdníðslu ráðh. í embættisveitingum. Lögin fela honum embættisveitingar, en þau mæla líka fyrir að áður skuli álits áðurnefndra sérfræðinga leitað. En álit sérfræðinganna mun ekki hafa hentað ráðh. í þessum tilfellum.

Lyfsöluleyfin, sem auglýst voru laus til umsóknar í sumar, voru á Egilsstöðum, í Neskaupstað og Ingólfsapótek í Reykjavík.

Á Egilsstöðum voru umsækjendur 5. Sérfræðingarnir skipuðu þremur í röð 1, 2 og 3 þannig: Einar Benediktsson, Hjálmar Jóelsson og Vigfús Guðmundsson. Ráðh. veitti Hjálmari Jóelssyni embættið.

Í Neskaupstað sótti Einar Benediktsson aftur um og einnig Vigfús Guðmundsson. Aftur settu sérfæðingarnar Einar í efsta sæti og Vigfús í annað sæti. Ráðh. veitti Vigfúsi embættið.

Er kom að veitingu Ingólfsapóteks í Reykjavík setti umsagnarnefnd lyfsala og lyfjafræðingafélagsins Ingólf Lilliendahl apótekara á Dalvík í efsta sæti og Werner Rasmussen í annað sæti. Landlæknir var sammála þessari niðurstöðu. Ráðh. veitti Werner Rasmussen embættið.

Einar Benediktsson, sem hefur þannig í tvígang á þessu ári orðið fyrir valdníðslu ráðh., tók kandídatspróf 1967. Hann starfaði við lyfsöludeild lyfjadeildar Pharmaco til vors 1973. Það sumar starfaði hann hjá lyfjaeftirlitinn, en frá hausti 1973 hefur hann verið lyfjafræðingur ríkisspítalanna með fullri ábyrgð. Hann mun ekki sömu stjórnmálaskoðunar og ráðh.

Efstu umsækjendur um Ingólfsapótek eru bekkjarbræður og kandídatar sama ár eða 1963. Hefur Ingólfur Lilliendahl rekið lyfjabúð á Dalvík með fullri ábyrgð en Werner starfað hjá öðrum í Reykjavík. Tíðkast hefur að þyngra sé á metum við leyfisveitingar rekstur lyfjasölu úti á landi um árabil en störf hjá öðrum í Reykjavík. Um slíkt hirti ráðh. ekki nú „og þó ráðh. hafi veitingarvaldið er óeðlilegt að hann sé að hræra í málum að eigin geðþótta, gegn samdóma áliti sérfræðinga“, komst einn lyfjafræðingur að orði í samtali við Dagblaðið.“

Ég óska þess, að hæstv. ráðh. geri hér grein fyrir ástæðum sínum til þess að brjóta í lága við tilgang laga og þá hefð sem skapast hefur á þessu sviði.