03.05.1977
Efri deild: 87. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4271 í B-deild Alþingistíðinda. (3320)

236. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra for­seti. Ég hef gefið út sérálit við afgreiðslu þessa máls úr fjh.- og viðskn. Ástæðan er ekki sú, að ég sé mótfallinn þeim breytingum sem felast í því frv. sem hér er til umr. Breytingarnar, sem gerð er hér till. um, eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis og verða að teljast nauðsynlegar vegna tilkomu nýs fasteignamats. Tilgangur þessara breyt­inga er sá einn að miða að óbreyttri álagningu skatta þrátt fyrir nýja matið, og reyndar var það einmitt verk hv. fjh.- og viðskn. Ed. á sínum tíma að koma inn í lögin um nýja fasteignamatið ákvæði sem fól í sér fyrirheit um að samþykkt fasteignamatsins hefði ekki í för með sér skatta­hækkanir.

Hitt er allt annað mál, að svo er að sjá að umr. um skattamál hér á hv. Alþ. ætli að verða nokkuð endasleppar. Virðist ætla að verða nokkuð slappur endir á þeim löngu umr. sem átt hafa sér stað allan þennan vetur um þörfina á því að breyta núgildandi skattalögum. Við munum það allir hv. þm. í þessari d., að það var eitt af fyrirheitum núv. ríkisstj., þegar hún hóf feril sinn, að tekjuskattslögunum yrði breytt, og hæstv. fjmrh. hefur haft það fyrir vana að opna sinn munn reglulega og segja álit sitt á því, að nauðsynlegt væri að breyta skattalöggjöfinni, og hann hefur ævinlega tiltekið að það yrði gert innan tíðar. En árin hafa liðið án þess að nokkuð gerðist og nú er að ljúka þriðja þinginu, frá því að þessi ríkisstj. kom til valda, án þess að fyrirsjáanlegt sé að nokkur efnisbreyting verði gerð á núgildandi tekjuskattslögum. Fjmrh. hefur að vísu boðað það, að hugsanlega muni hann beita sér fyrir setningu brbl. eftir fáeina daga um lækkun beinna skatta, væntanlega í samræmi við samkomulag við aðila vinnumarkaðarins. Að sjálfsögðu hefði verið eðlilegast að þingið hefði starfað áfram næstu tvær eða þrjár vikur og hefði þá afgreitt tekjuskattsbreytingu eftir að viðræður hefðu farið fram um það mál við aðila vinnumarkaðarins. Hins vegar skal það ekki vanþakkað að gerðar séu breytingar til lækkunar á sköttum, þótt á hitt megi benda, að ekki væri minni þörf að lækka söluskattinn, sem er einmitt það skatt­form sem hvað mest hefur hækkað í tíð núv. hæstv. fjmrh. og svo úr hófi fram, að það hefur átt sinn stóra þátt í þeirri miklu verðbólgu sem ætt hefur yfir á undanförnum árum.

En einhver lækkun beinna skatta, sem gengur jafnt yfir alla þá sem teljast í sama tekjuhópi, leiðréttir ekki það misrétti, sem fyrir hendi er í skattalöggjöfinni, og kemur ekki til með að leggja neinar nýjar byrðar á þá sem sleppa við að borga tekjuskatt eða borga mjög lítinn tekju­skatt vegna þeirra galla sem eru á núverandi tekjuskattslöggjöf.

Ég ætla ekki að fara að endurtaka fyrri ræður mínar og annarra alþb.-manna um ágalla tekjuskattslaganna og hinar fjöldamörgu ívilnunarreglur sem þar er að finna og eru til þess gerðar að fyrirtæki geti sloppið með að borga lítinn sem engan tekjuskatt, jafnvel þótt þau hafi miklar tekjur og töluverð umsvif. Við höfum rætt það mál talsvert oft hér í þinginu og engin ástæða til að endurtaka það hér. Hins vegar er ekki úr vegi að benda á það í þinglokin, að hæstv. fjmrh. og stjórnarmeirihl. hefur nú þegar unnið það afrek að koma í veg fyrir að tekjuháir skatt­leysingjar fái skattseðla í hendur í samræmi við breytt skattalög fyrr en í fyrsta lagi eftir að næstu kosningar hafa farið fram. Það er sem sagt nú þegar sýnt að þeir skjólstæðingar þessara flokka, sem gjarnan vilja hafa skattalögin óbreytt, verða ekki ónáðaðir með óvæntum skattseðlum áður en þeir fá tækifæri til þess að kjósa á nýjan leik og áður en þeir fá tækifæri til þess að borga í flokkssjóði. Það verður sem sagt allt við það sama fram yfir kosningar a. m. k.

Við eigum eftir að sjá hvort núv. stjórnar­flokkar og hæstv. ráðh. hafa í sér þor að breyta skattalöggjöfinni á seinasta ári fyrir kosningar. Satt að segja segir mér svo hugur, að héðan af verði ekkert hreyft frekar við skattalöggjöfinni fyrr en að næstu kosningum loknum. Ég tel hins vegar óviðunandi með öllu að ekki sé reynt að koma í veg fyrir við álagningu skatta á þessu ári að fjöldamörg fyrirtæki sleppi með að borga lítinn sem engan tekjuskatt þó að þau hafi háar tekjur. Þess vegna vil ég nota þetta seinasta tækifæri, sem hér gefst, til þess að reyna að fylla a. m. k. að einhverju leyti upp í þessar glufur tekjuskattslaganna og hef því borið fram till. um að verð­hækkunarstuðull og flýtifyrning í núverandi skattalögum, 15. gr., komi ekki til framkvæmda meðan ný skattalög hafa ekki verið samin og samþykkt, heldur verði fyrningar eigna í atvinnu­rekstri við næstu skattlagningu miðaðar við eðli­legan fyrningartíma eigna.