03.05.1977
Efri deild: 87. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4273 í B-deild Alþingistíðinda. (3322)

236. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er aðeins út af orðum hv. 12. þm. Reykv., að það er að sjálfsögðu mjög erfitt að segja til um hvernig þetta frv. muni verka á hvern einstakan einstakling. En það er hins vegar alveg rétt skilið hjá honum, að ef um er að ræða tiltölulega dýrar eignir, sem einstaklingar eða hjón eiga skuldlausar, þá getur orðið um hækkun á eignarskatti að ræða.

Ég skal aðeins taka eitt dæmi. Við getum hugsað okkur eign sem er samkv. gamla matinu 3 millj. að fasteignamati. Samkv. núgildandi lögum er þetta fasteignamat margfaldað með 2.7, þannig að sú eign er metin á 8.l millj. Það þurfti ekki að greiða eignarskatt áður af 2.7 millj., þannig að eignarskattsskyldur stofn var 5.4 millj. Ef hins vegar þetta fasteignamat hefur sexfaldast með nýju fasteignamati, sem það hefur gert í sumum tilfellum, þá væri viðkomandi eign 18 millj. Hjá hjónum verða skattfrjálsar 9 millj., þannig að skattskyldar yrðu 9 millj. í stað 5.4 millj. áður. Hins vegar er þess að geta, að nú er stofninn 0.8%, en hins vegar var hann stighækkandi áður eða hæst 1.2%, ef ég man rétt. Hér getur því orðið um einhverja hækkun að ræða, ef um tiltölulega dýrar og stórar eignir er að ræða skuldlausar. Hins vegar er erfitt að fullyrða um þetta almennt, því að þetta er eins misjafnt og einstaklingarnir eru margir. Það fer sjálfsagt eftir hvernig skuldastaðan er o. s. frv.

Ég ætla ekki að gera að umtalsefni frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt frekar en ég gerði. Það er alveg ljóst, að það frv. hefur ýmsa galla og ýmsa kosti. Ég hygg hins vegar að það sé ljóst, að það verða ekki sett réttlát og góð lög um tekjuskatt og eignarskatt hér á landi þannig að allir þegnar þjóðfélagsins samþykki það og séu ánægðir með það. Ef á að leiðrétta það óréttlæti, sem gildir í skattamálum, er ljóst að það kemur við einhvern ef það á að koma ein­hverjum til góða.