09.11.1976
Sameinað þing: 16. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

42. mál, veiting lyfsöluleyfa

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason hóf ræðu sína á eins konar sálkönnun á mér. Hann fór að tala um náttúru mína og innræti, og ber það væntanlega með sér að hann er farinn að kynna sér kenningar Freuds og annarra sálfræðinga eftir að hann fór í þetta mikilvæga embætti. Er ég síst að lasta það, því kenningar Freuds hafa mér alltaf fundist ákaflega skemmtilegar.

Mér fannst leitt að ráðh. gekk mjög stutt í þessari sálgreiningu á mér, og ég ætla nú ekki að fara í neina sérstaka sálgreiningu á honum heldur. En ég kemst ekki hjá því að minnast á að það hefur komið í ljós að þessi hæstv. ráðh. er ákaflega skapríkur og á erfitt með að leysa mál á þann hátt að hann taki tillit til annarra. Við kynntumst því ákaflega vel í sambandi við maraþonumr. sem fór fram hér á þingi í sambandi við hið svokallaða rækjumál fyrir norðan, þar sem þessi eðliseinkenni hæstv. ráðh. komu ákaflega skýrt í ljós.

Það kom í ljós að hæstv. ráðh, hefur veitt níu leyfi til lyfsölu. Í sumum tilvíkunum var ágreiningur uppi, og í slíkum tilvikum er það verkefni ráðh. að skera úr um ágreininginn. En í þeim þremur tilvíkum, sem ég nefndi, var enginn ágreiningur uppi. Þar voru þeir sérfróðu menn, sem ég nefndi áðan, sammála um hvernig ætti að haga stöðuveitingu, og það þarf ákaflega sterk rök til þess að ráðh. gangi í berhögg við slíkan undirbúning og það brýtur í bága við vilja Alþ. að ráðh. geri það. Hann leiddi engin rök að ákvörðunum sínum í þeirri ræðu sem hann flutti hér áðan. Og þetta er ákaflega alvarlegt mál. Við megum ekki aftur sökkva niður í það fen að ráðh. beiti eigin geðþótta eða pólitísku mati við veitingu embætta. Þeir verða að vera menn til þess að halda þannig á málum að þeir fari málefnalega með veitingar á embættum. Þetta hefur hæstv. ráðh. ekki gert í þessum þremur tilvikum. Hann gat ekki fært nein rök að því, hvers vegna hann vék frá þeirri einróma niðurstöðu sérfræðinga og landlæknis sem fyrir lá í þeim tilvíkum. Hann var með almennar hugleiðingar í kringum það. En þegar um er að ræða einróma álit þessara aðila, sem lögin hafa gert að umsagnaraðila, þá þarf ákaflega sterk rök til að ráðh. gangi í berhögg við það, og þau rök komu ekki fram.

Ég vil vara hæstv. ráðh. við að halda áfram á þessari braut, og ég vil raunar beina því til hæstv. ráðh. allra, að sómi ríkisstj. og Alþ. liggur við að við sökkvum ekki aftur niður í það fen hneykslanlegra stöðuveitinga sem mótaði Ísland í marga áratugi. Við verðum að forðast að sökkva niður í það fen aftur. Því miður hefur hæstv. heilbrrh. ekki áttað sig á þeirri staðreynd.