04.05.1977
Efri deild: 89. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4277 í B-deild Alþingistíðinda. (3338)

201. mál, tónmenntafræðsla í grunnskóla

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Þessi till. til þál., sem hér er til umr., er flutt í Nd. Alþ. af Sigurlaugu Bjarnadóttur o. fl. Samkv. þingsköp­um verða þáltill., sem fluttar eru í deildum, að ganga milli deilda eins og um frv. væri að ræða.

Ég kem hér í ræðustól aðeins til þess að vekja athygli á efni þessarar till. sem ég tel vera mjög þarflegt. Það gengur út á það að fullnægja því ákvæði sem er í fræðslulögum, að unnt sé að sinna þeirri fræðslu sem heitið er að hafa innan grunnskólans. Þar á ég við kennslu í tónmennt og söng. Það hefur komið í ljós við athugun, að hvergi nærri hefur verið hægt að sinna þessu verkefni í skólunum víða um land. Með þessari till. er skorað á ríkisstj. að leita ráða til að úr þessu verði bætt, og er bent á nokkur athyglisverð atriði í grg. sem ég ætla ekki að gera að umræðuefni að þessu sinni. En ég vil mælast til þess, að umr. um þessa till, verði frestað á þessu stigi og henni vísað til menntmn.