04.05.1977
Efri deild: 89. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4277 í B-deild Alþingistíðinda. (3339)

201. mál, tónmenntafræðsla í grunnskóla

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það er aðallega út af umr. sem urðu í Nd. um þessa till. sem ég kveð mér hljóðs. Þannig er mál með vexti, að fyrsta till. sem ég flutti hér á Alþ., var um far­kennslu í söng, og það sem merkilegra var, sú till. var samþ. á Alþ. 1957. Með hana var aldrei neitt gert, hreinlega ekki neitt, ekki einu sinni gerð tilraun til þess að koma á því námskeiða­haldi og/eða farkennslu sem þar var lagt til að yrði tekið upp, nákvæmlega eins og segir í þess­ari till. þeirra hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur og félaga, að nú verði hafinn skipulegur undir­búningur að tónmenntarfræðslu í formi nám­skeiða eða farkennslu í þeim grunnskólum lands­ins þar sem engin slík fræðsla er veitt nú.

Ég lét ekki þar við sitja. Ég flutti till. á þinginu 1973–1974 um bætt skipulag tónlistarnáms. Og menn eru svo tónelskir hér á Alþ. að þeir samþykktu þessa till. vitanlega líka. Í þeirri till. var kveðið svo á, að Alþ. ályktaði að skora á ríkisstj, að taka til gagngerðrar endurskoðunar allt tónlistarnám í landinu, m. a. skyldi starf hinna einstöku tónlistarskóla samræmt skyldu­náminu og almenn tónlistarkennsla skipulögð þar sem engin er nú. Að því skyldi stefnt að færa undirstöðukennslu í hljóðfæraleik inn í alla skyldunámsskóla nemendum að kostnaðarlausu. Við þessar aðgerðir, svo og aðrar sem nauðsynlegar reynast, skyldi stuðst við álit tónmenntunarnefndar menntmrn. frá 30. ágúst 1972. Þessi till. var sem sagt samþykkt með mikilli ánægju í Sþ., að því er virtist vera, og gekk í raun og veru enn þá lengra en sú till. sem hér er til umr.

Hér er enginn metingur á ferðinni, því að ég styð það eindregið, að þessi till. nái fram að ganga, og vona, að menntmn. komi henni frá sér svo að við getum afgreitt hana. Ég hef sem sé komist að raun um að minn einsöngur í þessu máli, þó að undir hann hafi verið tekið á tíma­bili hér á þingi, hefur ekki náð eyrum þeirra hæstv. ráðh. sem um þessi mál hafa fjallað. Það gæti verið að það verði einhver von til þess að dúett okkar hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur og jafnvel kvartettsöngur félaga hennar gæti náð eyrum hæstv. núv. menntmrh. og vakið hann til umhugsunar um það, að það þyrfti kannske eitthvað í þessu að gera.