09.11.1976
Sameinað þing: 16. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

42. mál, veiting lyfsöluleyfa

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Hæstv. forseti. Mér er ljóst að ræðutími minn er búinn og skal ekki hafa mál mitt langt. — Hæstv. ráðh. sagði að út frá þeirri gagnrýni, sem ég kom með, ef ætti að framfylgja henni, þá væri rétt að taka þessi völd af ráðh. og afhenda þau einhverjum embættismönnum. Ég er ekki á þeirri skoðun. Hins vegar tel ég ákaflega miklu máli skipta að það séu hæfir umsagnaraðilar sem fjalla um slík mál, og þegar þeir eru sammála um hvernig á að ráðstafa, þá eigi ráðh. að fylgja umsögn þeirra, nema hann hafi mjög veigamikil rök á móti, og það hefur hæstv. ráðh. ekki haft í þessum tilvikum. Mér er þetta fyrst og fremst tilefni til þess að vara hæstv. ráðh. alla saman við því að sökkva aftur niður í það fen óhæfilegra stöðuveitinga sem tíðkaðist hér á Íslandi áratugum saman.