04.05.1977
Sameinað þing: 86. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4285 í B-deild Alþingistíðinda. (3356)

164. mál, samræming á fjárhagslegum grundvelli framhaldsskóla

Frsm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Austurl. hefur látið þá skoðun sína í ljós, að honum finnist næsta tómleg afgreiðsla á þess­ari till. að vísa henni til ríkisstj. Vitaskuld hefði ég gjarnan kosið að samþykkja þessa till. þar sem ég er 1. flm. hennar ásamt formanni og varaformanni hv. fjvn. En þar sem fyrir liggur að fram hefur verið lagt stjfrv. um framhalds­skóla og þar gripið á því efni sem till. greinir, eins og ég gat um í minni fyrri ræðu, og það frv. verður til sérstakrar athugunar nú milli þinga, þá get ég ekki gert kröfu til annars en að þetta efni, sem till. þessi fjallar um, verði einnig athugað þar sérstaklega.

Ég vil einnig taka það fram, að í framsögu fyrir þessari till. við fyrri hluta umr. skýrði ég efni hennar rækilega. Það ætti að vera ljóst þeim, sem fylgst hafa með því og lesa till. ásamt grg., að hún fjallar fyrst og fremst um að koma framhaldsskólastiginu öllu á sama kostnaðar grundvöll, þannig að hlutur ríkissjóðs annars vegar og hlutur sveitarfélaganna hins vegar verði ekki misjafn á framhaldsskólastiginu miðað við námsefni eins og nú er. Við þurfum sem sé að rétta hlut t. d. iðnskólanna á þann hátt að ríkis­sjóður leggi meira fram til þeirra til samræmis við það sem gert verður t. d. við menntaskóla­námið. En á þessu er reginmunur nú. Kostnaðar­hlutfall er 50% ríki, 50% sveitarfélög við iðn­skólana, en 100% ríki við menntaskólana. Þetta hefur valdið óeðlilegu misrétti sem þarf að uppræta, — misrétti sem hefur haft það í för með sér að litið er á nám í þessum skólum mis­jafnlega þýðingarmiklum augum og virðing menntaskólanámsins hefur verið gerð meiri af ráðamönnum þjóðarinnar og í augum fólksins sjálfs. Þetta misrétti þarf að uppræta og um það fjallar þessi till. Ég vænti þess, að niðurstaða verði á þá lund, að við getum á næsta Alþ. samþykkt lög sem uppræta þetta misrétti, hvað sem hlutdeild sveitarfélaganna kann að verða mikil í því sambandi. Það tengist aftur stefnumörkun um verkefnaskiptingu og tekjustofnaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga, sem er annað mál enda þótt það grípi inn í þetta.