04.05.1977
Neðri deild: 89. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4287 í B-deild Alþingistíðinda. (3362)

124. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Eins og kemur fram af nál. skilum við tveir nm. séráliti sem minni hl. hv. samgn. í þessu máli þar sem við leggjum til að þáltill. verði samþykkt. Það sem við finnum fyrst og fremst að, er hvernig að málinu hefur verið staðið. Málið var lagt fram í haust og kemur ekki hér til umr. fyrr en nú á laugardaginn, 30 apríl, og í n., samgn., í gær, líklega 3. maí. Þetta sýnir ósköp einfaldlega lítinn áhuga á að leyfa hv. þd. að ræða málið og leyfa hv. n. að kanna það, senda til umsagnar, leita upplýsinga m. a. um hvað þetta kostar, með hverjum hætti best væri að framkvæma þetta og hvað helst ætti að vera í reglugerð o. s. frv. Þessi aðferð stjórnarliðsins er að okkar dómi fyrst og fremst notuð til þess að koma í veg fyrir að málið fái sæmilega meðferð og afgreiðslu. Það er ekki vansalaust.

Sími er fyrir þetta fólk, sem hér um ræðir, aldrað fólk og öryrkja, fyrst og fremst öryggis­tæki. Mjög fullorðið fólk, heilsulítið og lasburða á erfitt með að hreyfa sig um, og það getur hvenær sem er eitthvað komið fyrir þetta fólk þannig að það þurfi að láta vita af sér, kalla á aðstoð, og þá kemur varla annað tæki til en sími. Hins vegar er kjörum þessa fólks svo komið, að það hefur lítið fé handa á milli umfram það sem þarf til brýnustu lífsnauðsynja, sennilega til þess að hafa í sig, og síminn, þó að hann sé kannske ekki tilfinnanlega dýr fyrir þá sem hafa sæmileg laun, þá er þó það gjald, sem fólk þarf að greiða fyrir símann, mjög hátt ef miðað er við fólk sem hefur lítið handa á milli.

Í síðari hluta till. er skorað á hæstv. samgrh. að beita sér fyrir því að aldrað fólk og öryrkjar fái verulegan afslátt á ferðalögum. Þar er nú ekki sterkar að orði kveðið. Það er vitað mál að að nokkru leyti eru til afsláttarfargjöld fyrir aldraða. Í sumum tilfellum greiðir það ekki nema hálft venjulegt gjald. Það er t. d. hjá Strætis­vögnum Reykjavíkur nokkur afsláttur af far­gjöldum með þeim, einnig mun vera nokkur afsláttur af flugfargjöldum og hjá sumum skipa­félögum er það einnig. En það gefur auga leið að það fólk, sem þarf að lifa af ellilífeyri einum saman og tekjutryggingu, getur ekki eytt miklum fjármunum til ferðalaga, og þess vegna er að okkar dómi mikið nauðsynjamál að enn meiri og raunar miklu meiri lagfæringar verði gerðar í þessum efnum.

Það kemur af sjálfu sér að fyrst svona hefur verið haldið á málum, að á degi þinglausna skuli þetta mál vera að koma úr n. í fyrri deild, að það er erfitt um vik að koma þessu máli áfram með eðlilegum hætti, enda leikurinn til þess gerður. En verði málinu vísað til hæstv. ríkisstj., þ. e. till. okkar í minni hl. n. verður ekki samþykkt, ef málinu verður vísað til hæstv. ríkisstj., þá vil ég leyfa mér að skora á hæstv. ríkisstj. að leita leiða til þess að gera leiðréttingar í þessum efnum og gera öldruðu fólki kleift að halda síma. Í reglugerð mætti setja ýmiss konar ákvæði sem koma í veg fyrir að þetta verði mis­notað, eins og kom fram í umr. þegar þetta mál var rætt á sínum tíma. Ég tel að það sé mjög auðvelt að finna einhverja slíka leið. Einnig er hugsanlegt að koma þessu í gegnum tryggingarnar. Það eru sem sagt margir vegir færir ef vilji er fyrir hendi. Og ég vil ítreka það, að það er í mínum huga aðalatriðið að úrbætur verði gerðar í þessum efnum, með hverjum hætti sem hæstv. ríkisstj. tekst að finna leið til þess.

Ég held að það sé óþarfi að hafa þetta miklu lengra mál. En ég vil endurtaka, að ef málinu verður vísað til ríkisstj., sem ýmislegt bendir til, þá vil ég leyfa mér að skora á hæstv. ríkisstj. að leiða þetta mál farsællega til lykta.