04.05.1977
Neðri deild: 89. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4289 í B-deild Alþingistíðinda. (3363)

124. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum dögum urðu hér í d. allmiklar umr. um þetta mál. Var þá mjög á það deilt að ekki skyldi hafa orðið af framkvæmd í þá átt sem fyrri hluti þessarar þáltill. gerir ráð fyrir. En það var upplýst þá, að fyrir tveimur árum hafi verið samþykkt þáltill. hér á Alþ. sem tók af öll tvímæli um hver vilji Alþ. varðandi þetta mál væri. En eins og fram kemur í nál. minni hl. samgn., þá má það furðu gegna að þetta mál, sem er 124. mál þingsins, kemur til n. aðeins tveimur dögum áður en þingslit eiga að fara fram. Mér finnst að það sé blettur á Alþ. að láta mál af þessu tagi velkjast hér ár eftir ár, og þó að búið sé að tjá vilja meiri hl. Alþ. um fram­kvæmd á málinu, þá gerist ekkert. Þegar svo lögð er áhersla á það að ýta við viðkomandi aðilum með endurflutningi á málinu að hluta a. m. k., þá er það látið liggja hér megnið af þeim tíma sem Alþ. starfar.

Það kom fram hjá hæstv. samgrh., sem því miður er nú ekki í salnum, við umr. hér fyrr og hefur raunar komið fram hjá fleirum, að framkvæmd þessa máls væri mjög erfið og vandasöm. Hér er um það að ræða að veita elli- og örorku­lífeyrisþegum frí afnot af síma. Það er hliðstætt niðurfellingu á afnotagjöldum útvarps og sjónvarps sem fer í gegnum Tryggingastofnunina, og mér er ekki um það kunnugt og hef ég þó á nokkrum tilvikum komið nálægt þeim málum, að nein sérstök vandkvæði séu á því að fram­fylgja þeim ákvæðum varðandi það að fella niður hjá þessum tilteknu einstaklingum afnotagjald af útvarpi og sjónvarpi. Mér þykir því einkenni­legt ef það veldur stórkostlegum vandræðum að framkvæma á hliðstæðan hátt að fella niður afnotagjöld af síma hjá elli- og örorkulífeyrisþegum.

Ég á ekki von á því að um það sé deilt, að hér er um stórkostlegt öryggistæki að ræða varð­andi marga þessa einstaklinga sem eru einir sér og geta ekki látið vita af sér nema í gegnum síma. Hv. þm. Garðar Sigurðsson, frsm. minni hl. samgn., var að tala um að ýmsir héldu fram að erfitt væri að framkvæma þetta, en benti jafnframt á að hægt væri að setja í reglugerð ákvæði sem kæmi í veg fyrir misnotkun. Mér heyrðist hæstv. menntmrh. grípa fram í og segja að það væri ekki hægt að setja í reglugerð ákvæði sem kæmi í veg fyrir að um misnotkun yrði að ræða. (Gripið fram í.) Ég er ekkert hissa á því. Ef þetta er skoðun hæstv. ráðh. allra, eins og það virðist vera skoðun hæstv. menntmrh., að hér sé ekkert hægt að gera, þá er ég ekkert hissa á því, þó að legið sé á málinu ár eftir ár þrátt fyrir margítrekaðar viljayfirlýsingar Alþ. Það eru þá hæstv. ráðh. sjálfir sem koma í veg fyrir að af framkvæmd þessa máls verði, ef það er þessi hugsunarháttur sem ræður ríkjum hjá fleiri hæstv. ráðh. en hæstv. menntmrh., og það þykir mér miður.

Mér er ekki um það kunnugt, eins og ég segi, og þar geta sjálfsagt fleiri borið um, — mér er ekki um það kunnugt, að það séu neinir sérstakir meinbugir á því að framkvæma þetta gagnvart þeim aðilum sem heimilt er að fella niður hjá afnotagjald af útvarpi og sjónvarpi, og mér er ómögulegt að skilja að það sé neitt sérstakt varðandi þetta mál sem er þess eðlis að það eigi að koma í veg fyrir að af framkvæmd af þessu tagi geti orðið. Mér finnst beinlínis hlálegt að núna þegar þetta mál kemur hér til þingsins, tveimur árum eftir að þingið er búið að tjá vilja sinn í málinu, skuli vera lagt til að því sé vísað til hæstv. ríkisstj., vitandi það að sumir af hæstv. ráðh. eru þeirrar skoðunar og eru þannig þenkjandi, að þeir telja að það sé ekki hægt að framkvæma málið, og væntanlega samkv. þeim hugsunarhætti beita sér gegn því að úr framkvæmdum verði.

Ég sagði fyrr við umr. um þetta mál að ég teldi ástæðulaust að vísa málinu til n., ég teldi það svo sjálfsagt að það ætti að samþykkja það án þess að það færi til n., ekki síst með hlið­sjón af því hver viljayfirlýsing Alþingis var um þetta mál áður, fyrir tveimur árum. Ég er því þeirrar skoðunar, að það sé sjálfsagt að samþykkja þessa till., og kannske gæti það orðið til þess að ýta við þeim aðilum sem með ein­hverjum hætti hafa til þess orðið að ekkert hefur verið gert varðandi framkvæmd á vilja Alþ. varðandi málið. Það er beinlínis hlálegt að leggja nú til að málinu verði vísað til ríkisstj.

Ég vænti þess að þdm. sjái svo um að tilgreind þáltill. verði samþykkt, þannig að það verði komið í veg fyrir að áfram verði þessi blettur á Alþ., að ekki verði framkvæmd sú skylda hæstv. ráðh. sem Alþ. hefur falið þeim. Það hefur tjáð sig í málinu með meirihlutasamþykkt, og þeirri samþykkt ber að framfylgja.