09.11.1976
Sameinað þing: 16. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

54. mál, sjóminjasafn

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka áhuga og stuðning þeirra tveggja hv. þm. sem hafa talað um þessa fsp., og árétta það, sem ég sagði áðan, að við munum leitast við að láta þetta mál ekki sofna, en framfylgja því eftir því sem tök verða á. Ég vil um leið minna á það, að þó hægt hafi gengið með þetta mál á sviði minjavarðveislunnar, þá hefur þó aðeins þokað í öðrum áttum. Það hefur verið stofnaður Húsfriðunarsjóður sem — þó hann hafi ekki morð fjár til umráða — skiptir mjög verulegu máli. Nesstofa hefur verið keypt að hálfu og unnið hefur verið að viðhaldi Viðeyjarstofu. En þetta, sem þegar hefur verið gert, breytir engu um það og dregur á engan hátt úr nauðsyn þess að sinna sjóminjavarðveislunni og söfnuninni eftir því sem mögulegt er.

Ég vil svo einnig árétta það, að oft er nokkuð erfitt að velja á milli ef einstök rn. eiga á annað borð kost á einhverri hækkun á sínum fjárlagaliðum. Það getur oft verið erfitt að velja þar á milli þegar reynt er að halda í, eins og allir virðast nú sammála um. En sem sagt, ég þakka þennan áhuga og vil taka í útrétta hönd hafnfirðinga og annarra áhugamanna og reyna að vinna málinu framgang.