09.11.1976
Sameinað þing: 17. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

55. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Flm. (Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir):

Herra forseti. Aldrei var því „um Álftanes spáð, að ættjörðin frelsaðist þar,“ og aldrei datt mér í hug að Geir Gunnarsson, sveitungi minn núverandi, mundi snúast svona grimmilega á móti þessari till. bara af því að hún gerir ráð fyrir því að kannske verði þetta í Hafnarfirði. Ég vil benda hv. þm. á það, að hér er um að ræða könnun og undirbúning framtíðaraðstöðu og í tillgr, segir: „Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta kanna.“ Ég get ekki séð nokkra goðgá við það að kanna hvort þetta sé ekki betur komið í okkar heimabæ, okkar Geirs Gunnarssonar, heldur en annars staðar, og ég hef fulla trú á að það sé miklu betur komið þar. Ég hef trú á því að við getum boðið þarna upp á betri aðstöðu heldur en nágrannasveitarfélögin. Nú er líka vitað mál. að Landhelgisgæslan vegna síns eðlis getur ekki flutt langt burt frá Reykjavík, ekki langt í burt frá miðstöð dómsvaldsins

Nú ætla ég síst að fara að þræta við Geir Gunnarsson, hv, alþm., um þetta, því ég er víss um að ef til kæmi, þá mundi hann veita þessu máli gott brautargengi, þó að hann hafi nú tekið svona til orða. Hann talaði um fiskiskipabryggjur. Jú, þetta eru tveir hlutir. En ef við búum ekki vel að Landhelgisgæslunni, þá gæti farið svo að við þyrftum minna á fiskiskipabryggjunum að halda. Það gæti komið að því.

Sá rökstuðningur, sem ég fór hér með um þessa till., hefur kannske ekki verið nógu ítarlegur. Ég skal ekki um það segja. En ég á mikið af gögnum um þetta sem mér væri ánægja að sýna Geir Gunnarssyni og öðrum þeim hv. alþm. sem vildu á þau líta. Ég veit ekki hvort ég þarf nokkru við það að bæta, en ég ætla að sú n., sem við þessu máli tekur, fjalli um það af fullum skilningi og velvilja þrátt fyrir þan orð sem hafa fallið hér úr hörðustu átt.