09.11.1976
Sameinað þing: 17. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

28. mál, samkomulag um veiðar breskra togara

Frsm. minni hl. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Enda þótt ég hafi verulega ánægju af sagnfræði og hlustaði því með athygli á ræðu þá sem hv. frsm. meiri hl. flutti hér, þá ætla ég nú ekki að fara aftur fyrir aldamót með mína sögu. Þó væri í rauninni kannske freistandi að gera smáathugasemdir við þá ræðu sem hv. þm. flutti, sérstaklega þá glæsilegu afrekasögu Sjálfstfl. sem hann var að lýsa hér. En þar sem það var án þess að hann veittist í þessari ræðu sinni að öðrum flokkum, þá ætla ég að láta biða annars og betra tækifæris að rifja þá afrekasögu upp, sérstaklega söguna frá 1956–57, eftir að undirbúningur undir útfærslu í 12 mílur hófst og raunar fram á þennan dag. Að vísu get ég ekki lofað því að koma ekki inn á síðustu þættina í afrekaskránni áður en ég lýk máli mínu.

till., sem hér liggur fyrir, fjallar um það að Alþ. staðfesti samning þann um veiðiheimildir til banda breskum togurum í íslenskri fiskveiðilandhelgi, sem gerður var 1. júní s.l. Það hefur ekki farið á milli mála, að eftir að sá samningur var gerður hafa bæði hæstv. ráðh. flestir og ýmsir aðrir talsmenn stjórnarflokkana talað um þennan samning og þá samningamenn, sem að honum stóðu, — talað um samninginn sem einstakt afrek út af fyrir sig og samningamennina sem mikla afreksmenn sem hefðu komið með frelsisskrá í föðurhendi og unnið þarna í einu vetfangi stórkostlegan sigur sem íslendingum hefði ekki tekist ella.

Það er freistandi að fara dálítið ítarlega út í þessa kenningu um það að samningurinn sjálfur sé eitthvert afrek út af fyrir sig, og ég get ekki stillt mig um að víkja að því nokkrum orðum, en skal þó reyna að stytta mál mitt eftir því sem mér er fært.

það liggur alveg ljóst fyrir að mínum dómi, að hvernig sem menn líta á samninginn sjálfan, hvort sem menn telja niðurstöðu hans ágæta, viðunandi eða slaka, þá var það atburðarásin áður en gengið var til þeirra samninga sem gerði það að verkum að hægt var að gera þennan samning ekki verri en hann þó vissulega var að ýmsu leyti. Það var atburðarásin sem gerði það að verkum, en ekki eitthvert sérstakt afrek samningamanna eða hæstv. ríkisstj. í því sambandi, og að því vil ég nú færa nokkur rök.

Það er þá sérstaklega nauðsynlegt í sambandi við þetta mál að rifja það upp, að þeir, sem baráttuna háðu í allan fyrravetur, og þeir, sem sigurinn unnu í þessu þriðja og væntanlega síðasta þorskastríði sem við höfum háð eða komum til með að heyja við breta, þeir hafa næstum því gleymst í öllu því sjálfshóli sem samningamennirnir og hæstv. ráðh. hafa haft í frammi um sjálfa sig í sambandi við samningagerðina. Þeirra hefur að heldur litlu verið getíð. En hinu hefur verið hossað af hæstv. ráðh. flestum, að samningsmennirnir hafi unnið þessi afrek án þess að nokkuð hafi á undan komið og nokkuð hafi verið að ráði til þess gert af öðrum aðilum að koma í veg fyrir glapræði samninga bæði í fyrra og í vetur, sem ég skal nú koma nokkru nánar að. Áður en ég vík frekar að þessu atriði, vil ég ró fara nokkrum orðum um það sem hv. frsm. meiri hl. vék að undir lok síns máls. Það eru þær athugasemdir sem komið hafa fram varðandi formsatriði þessa máls.

Hér liggur nú fyrir Alþingi till. um, að staðfesta þetta samkomulag frá í vor. Nú, hinn 9. nóv., er verið að fjalla um þennan samning eða þetta samkomulag sem gert var 1. júní s.l. og skyldi gilda í 6 mánuði og kom þegar til framkvæmda. Við erum sem sagt að fjalla hér um málið 9. dag nóvembermánaðar, þegar samningurinn hefur verið í framkvæmd í meira en 5 mánuði og aðeins 3 vikur eru eftir af gildistíma hans. Er þetta eðlilegt? Er hér rétt eða skynsamlega að farið í sambandi við það hvernig málið er lagt fyrir Alþ. og að því staðið af hálfu hæstv. ríkisstj.? Ég held að það geti ekki talist eðlilegt. Því hefur verið haldið fram að hér sé um að ræða jafnvel brot á sjálfri stjórnarskránni, á 21. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþ. komi til.“

Ég er ekki löglærður maður og ég veit að um þetta mál hafa glöggir lögfræðingar deilt og deila enn, að því er mér virðist, og ég skal ekki gera neina tilraun til þess að færa líkur að því, hvort er réttara, að hér kunni að hafa verið um stjórnarskrárbrot að ræða eða ekki. Ég get vel fallist á að það liggi ekki alveg ljóst fyrir samkvæmt orðanna hljóðan, að skylda hafi verið að bera þennan samning undir Alþ. samkvæmt þessari gr. stjórnarskrárinnar. Þetta kann vel að vera. En þó verður að taka tillit til þess sem lögfróðir menn hafa talið, að það kunni fyllilega að orka tvímælis hvort slíkt hafi ekki verið beinlínis skylt samkvæmt þessari gr. stjórnarskrárinnar. Aðrir andmæla þessu, eins og hér hefur rækilega komið fram hvað eftir annað, þ. á m. gegnir og mikilhæfir lögfræðingar, og eins og ég sagði, ég tel mig engan mann til þess að leggja neinn dóm á þetta. En mér þætti hins vegar mjög líklegt að hv. alþm. geti flestir, jafnvel allir, orðið mér sammála um það, að það er í fyrsta lagi slæmur kostur og ekki viðunandi til langrar frambúðar ef um er að ræða ákvæði í stjórnarskrá sem mjög er deilt um hvernig beri að skilja og hve víðtæk séu. Þetta verður að vísu ekki lagfært á einu augnabliki og ekki á einu þingi, jafnvel þó að vilji sé fyrir hendi. En vissulega er þarna atriði sem full ástæða væri til að hafa ákveðnari ákvæði um, sem ekki verði misskilin eða ekki þyrfti að deila um. En hvað sem því líður, þá hygg ég að flestir geti orðið mér sammála um að það sé í sjálfu sér óeðlilegt, fyrst menn telja rétt og eðlilegt að leggja slíkan samning sem þennan fyrir Alþ., að gera það þá ekki fyrr en samningstímabilið er svo að segja útrunnið, eins og nú er gert.

Það hefur verið fært fram til réttlætingar því, að þessi samningur var ekki lagður fyrir Alþ. fyrr en nú í haust, að slíkt hafi áður viðgengist um hliðstæða samninga eða samninga sem gerðir hafa verið af svipuðum toga. Ákveðin tilvik hafa vernið nefnd, m.a. samningar við belga og e.t.v. fleiri frekar minni háttar samninga, sem gerðir hafa verið á síðari árum, m.a. í tíð síðustu ríkisstj. eða vinstri stjórnarinnar. Ég tel það í sjálfu sér engin rök þó að þetta hafi ekki verið gert áður. Ef það er talið skylda eða a.m.k. eðlilegt að leggja slíka samninga fyrir Alþ. til staðfestingar áður en þeir koma til framkvæmda, þá eru það í sjálfu sér engin rök þó að það hafi láðst að gera það áður.

Ég vil aðeins ítreka í sambandi við þetta mál, að það er óviðunandi til frambúðar að hafa hér í gildi ákvæði, í stjórnarskránni sem mjög er deilt um hvernig beri að skilja og jafnvel hinir lærðustu menn deila um hvort stjórnarskrárbrot séu framin í vissum tilvikum í sambandi við 21. gr. Um það held ég að allir geti orðið sammála, að við fyrsta tækifæri sé ekki aðeins eðlilegt, heldur nauðsynlegt að hér fáist um skýr og ótvíræð ákvæði. En geta menn ekki einnig orðið sammála um það, að meðan þessi umdeildu ákvæði eru í stjórnarskránni, þá sé rétt að hafa sem fasta reglu að bera undir Alþ. slíka samningagerð sem þessa, samningagerð sem jaðrar e.t.v. við þau tilvik sem átt er við í 21. gr., fá þá samninga staðfesta af Alþ. áður en þeir koma til framkvæmda. Skal ég svo láta útrætt um það.

Vík ég þá aftur að samkomulaginu, sem gert var í Osló 1. júní. Ég vil í stuttu máli rifja upp það helsta sem á undan var gengið.

Það held ég, að enginn hafi gleymt því hversu oft heyrðist úr herbúðum stjórnarsinna eftir að við vorum í þriðja skipti komnir í þorskastríð við bretana, að nauðsynlegt væri að semja. Enginn sagði að ætti að semja hvað sem það kostaði, en það var auðheyrt bæði á málgögnum og talsmönnum stjórnarliða ýmsum, að það mátti kosta töluvert mikið ef tækist að semja. Það tókst svo að semja við vestur-þjóðverja, og ég býst við að mörgum hafi þótt þar allrausnarlega að verki staðið af hálfu íslenskra valdhafa, að tryggja þeim þann afla sem gert var með samningunum. Hitt gekk erfiðlegar, að ná samningum við bretana og má að mínum dómi þakka það sérstaklega tveimur aðilum að þeir samningar tókust ekki miklu fyrr en varð og urðu ekki miklu háskalegri og verri fyrir íslensku þjóðina heldur en þó varð raun um með Oslóarsamninginn frá því í vor. Þessir tveir aðilar eru í fyrsta lagi meginþorri íslensku þjóðarinnar, sem var andvígur slíkum samningum, og það kom mjög greinilega í ljós, og í öðru lagi þeir samningamenn breta undir forustu Hattersleys sem gerðu slíkar kröfur að það gat í rauninni ekki náð nokkurri átt að ræða samninga við slíka menn, þó að það væri gert og reynt að ná einhverjum árangri. En það ern þessir aðilar sem ég hygg að hafi komið í veg fyrir það að hæstv. ríkisstj. gerði á s.l. hausti samning sem sennilega hefði þýtt ekki miklu minna en 80–90 þús. tonna ársafla bretum til handa.

Síðan kom svarta skýrslan, og þá varð lýðum ljóst að það mundi vera enn þá örðugra en áður vegna andstöðu meginhluta íslensku þjóðarinnar við slíka samninga að semja upp á einhver slík býti eins og tilhneiging virtist vera til áður en hún kom út. En þó var eftir eða um það leyti sem hún var birt alþjóð farið að láta í það skina að um 65 þús. tonna ársafla kynni að geta orðið samkomulag við bretana. En það var frammistaða landhelgisgæslunnar og þjóðin á bak við landhelgisgæsluna sem kom í veg fyrir að slíkir samningar væru gerðir enda þótt tilhneiging hjá ákveðnum aðilum — ákveðnum aðilum, segi ég — í stjórnarflokkunum væri mjög greinileg og mjög sterk í þá átt að semja og það upp á þessi býti eða einhver svipuð og þau sem ég hef nú verið að gera grein fyrir.

Og þar kom, þegar leið fram á veturinn og fram á vorið, að bretarnir sáu að lokum að þeir voru að tapa þessu máli, þeir voru að tapa því á tvennum vígstöðvum. Í fyrsta lagi var vonlaust að vinna styrjöldina við íslendinga. Íslendingar voru ekki á því að gefast upp í því stríði, og bretarnir sáu að þeirra menn voru orðnir þreyttari heldur en okkar menn á þessari viðureign og sjómennirnir þeirra farnir að hóta hvað eftir annað að fara í land og hætta þessari vonlausu orrustu. En það var fleira sem kom til og sýndi bretum að þeir voru búnir í rauninni að tapa þessu stríði. Það var sú þróun sem orðið hafði, sú tiltölulega öra þróun sem orðið hafði á alþjóðavettvangi í sambandi við hafréttarmálin og sérstaklega þann þátt sem að okkur íslendingum snýr, þ.e.a.s. að því er varðar 200 mílna auðlindalögsöguna. Það var alveg ljóst, að sú þróun var öll á þann veg að bretarnir hlutu að sjá að þetta var gersamlega tapað fyrir þá. Það var ekki aðeins að á þeim fundum hafréttarráðstefnu, sem haldnir hafa verið undanfarin ár, væri búið að móta af miklum meiri hl. og fá samþykki mikils meiri hluta þjóða heims fyrir þessari meginreglu, þ.e.a.s. að strandríki geti ákveðið eða tekið sér 200 mílna auðlindalögsögu, að strandríki geti ákveðið sjálft hversu mikið má veiða á hverjum tíma innan þessarar auðlindalögsögu og það geti einnig ákveðið sjálft hversu mikið það treystir sér til eða kærir sig um að veiða af því magni eða hvort það vill veiða það allt. Þetta var komið inn í hafréttarsáttmálann, þessi ákvæði voru búin að standast sína eldraun, og það var vitað að um það bil eða yfir 2/3 hlutar af þjóðum heims eða fulltrúum frá þjóðum heims stæðu að þessu, enda þótt bein atkvgr. hefði ekki farið fram og það væri rétt, að vegna ágreinings og það djúpstæðs ágreinings um önnur atriði hefur frestast að þetta frv. næði endanlega í höfn og yrði að alþjóðalögum. En mikils virði hefur það verið fyrir okkar málstað og á hinn bóginn sýnt bretunum fram á að þeirra málsstaður var tapaður, að allar tilraunir til þess að breyta þessum ákvæðum í væntanlegum hafréttarlögum hafa gersamlega mistekist, og það má sem betur fer heita að það sé öruggt að þessi ákvæði koma til með að standa hvað sem framtíðin ber í skauti sínu í sambandi við væntanlegan hafréttarsáttmála.

En þá kom það jafnframt til, sem mjög mikils virði var, að þegar það var sýnt að enn mundi dragast að ljúka málum á Hafréttarráðstefnunni, þá fór hver þjóðin af annarri nú á þessu ári og að einhverju leyti á síðasta ári að lýsa því beinlínis yfir og undirbúa það að færa út einhliða, eins og við íslendingar höfðum gert. Mexíkó var einna fyrst af þjóðum nú í þessari allra síðustu lotu sem lýsti því yfir að það mundi færa út fiskveiðimörkin og miða það við alveg ákveðinn tíma. Þá komu Bandaríkin, þá Kanada og svo kom Noregur loksins á eftir. Þótti bæði mér og fleirum að vel hefði mátt minnast þess sem segir í kvæði Björnsons og ég held að hv. 3. þm. Austurl. hafi rifjað upp fyrir norðurlandamönnum ekki alls fyrir löngu, að margir spurðu um Orminn langa og spurðu hvað dveldi Ólaf Tryggvason í sambandi við útfærslumál og hafa furðað sig á því hversu norðmenn hafa verið seinir að taka endanlegar og formlegar ákvarðanir í þessu efni. Skal ég ekki hafa fleiri orð um það.

En það var ekki aðeins að þessar þjóðir, sem ég hef nú nefnt, væru ákveðnar í því og hefðu flestar lýst því yfir og sumar þegar tekið formlega ákvörðum um útfærslu áður en samningurinn í Osló var gerður. Það var einnig farið að ræða það mjög eindregið og ákveðið og undirbúa það hreinlega að Efnahagsbandalag Evrópu og bretarnir sjálfir færðu út í 200 mílur einhliða ef það drægist enn eitthvað að ráði að nýr hafréttarsáttmáli yrði gerður. Þannig stóðu þessi mál þegar gengið var að samningaborðinu við breta, og þannig var sú vígstaða sem bretarnir höfðu þegar gengið var að því samningarorði.

Enda þótt ég segði hér í upphafi að ég ætlaði ekki að rekja alla „afrekasögu“ Sjálfstfl. í sambandi við landhelgismál. enda þótt nokkurt tilefni kynni að hafa gefist til, þá get ég ekki látíð hjá líða að minnast nokkru nánar á einn þátt þessarar sögu og m.a. að velta því fyrir mér og öðrum hv. alþm. svona til hugleiðingar hver geti verið meginástæðan til þess að sumir helstu forustumenn Sjálfstfl., og ég get og vil alveg sérstaklega nefna í því sambandi hæstv. forsrh. og þó ekki síður hæstv. sjútvrh., — hvernig á því stendur að þessir hæstv. ráðh. hafa hvað eftir annað virst óðfúsir að semja við breta, ekki upp á hvaða býti sem var, en þó upp á þau býti sem hér um bil öllum öðrum íslendingum fannst að væri ekki hægt að semja um. Og enn er komið að því að eitthvað svipað virðist vera uppi á teningnum. Ég hef verið að velta þessu fyrir mér, og ég hygg að á þessu kunni að vera fleiri skýringar en ein. En þó hygg ég að ein skýring vegi þar langmest og sé sú sem varpar einna skýrustu ljósi á þetta mál. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það hafi verið hinn mikli vilji þessara íslensku ráðamanna til þess að styggja ekki NATO-þjóðir, þessar miklu vinaþjóðir okkar sem mynda Altanshafsbandalagið og eru kjarninn í hinni rómuðu vestrænu samvinnu um svonefnd varnarmál. — það sé meginatriðið hjá þessum ágætu mönnum að styggja ekki þessar þjóðir og vaða næstum því eld og brennistein og ganga gegn vilja mikils meiri hluta eigin þjóðar til þess að ná fram samningum við slíkar vinaþjóðir, af því að það sé okkur ómissandi.

Það verður að segjast, að ég held að af fáu hafi meginþorri íslendinga haft meiri áhyggjur allan s.l. vetur heldur en því, hvað yrði í sambandi við samningamálin við breta. Menn höfðu raunar þar fyrir sér samningagerðina við vesturþjóðverja. Og menn höfðu einnig fyrir sér hversu ýmsir ráðamenn, þeir sem ég hef þegar nefnt og aðrir fleiri, virtust varla njóta svefns né matar af áhyggjum út af því að aumingja NATO og alveg sérstaklega vesalings dátarnir hérna á Miðnesheiði og allt það hafurtask blasti nú við íslensku þjóðinni í dálitíð nýju og nokkuð miskunnarlausu ljósi. Það var alveg greinilegt allan s.l. vetur að hugur þessara NATO-aðdáenda var ákaflega mikið við það bundinn hvernig vernda mætti Atlantshafsbandalagið, hvernig vernda mætti víghreiðrið á Keflavíkurflugvelli fyrir íslensku þjóðinni, sem var farin að krefjast þess í vaxandi mæli eða vaxandi fjölda íslendinga að við færum úr NATO og hafurtaskið á Keflavíkurflugvelli væri látíð fara heim til sín. Áratugum saman — ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í það — höfðu ákveðin öfl í Sjálfstfl. með Morgunblaðið í fararbroddi, en áttu oft vikapilta jafnvel í öðrum flokkum, reynt að hamra það inn í hugskot fólks að herinn og NATO væru hér til þess að vernda Ísland, til þess að vernda íslendinga. Ákaflega lengi, áratugum saman, hafði þessi ósannindaáróður hljómað í flestum blöðum og fjölmiðlum, og forustumenn þriggja stjórnmálaflokka höfðu gert þennan áróður að uppistöðu allrar utanríkismálastefnu sinnar. Þeir sjálfstæðismenn, sem svo kalla sig, voru lengst af forsöngvarar í þessum kór, en því miður tóku allt of margir í Alþfl. og Framsfl. löngum undir þennan hallelúja-kór. Og vissulega hafði í þessi áróður borið árangur. Fjöldi íslendinga hafði það fyrir satt fram undir síðustu tíma —- ótrúlegur fjöldi —að NATO og herinn á Miðnesheiði væru verndarar okkar, þetta væri trygging þess að yfir okkur væri vakað í válegum heimi. Og árangurinn af öllum þessum áróðri kom hvað skýrast í ljós þegar forvígismenn Varins lands, sem svo nefndu sig, fengu tugþúsundir manna til þess að biðja um áframhaldandi hersetu á Íslandi.

Að vísu hefur hæstv. sjútvrh., sem því miður er nú ekki hérna, fært að því ákaflega veigamikil og ágæt rök úr þessum ræðustól fyrir fáeinum dögum að undirskriftasafnanir væri harla lítið að marka, það væri hægt að fá fólk til þess að skrifa andir hvern déskotann sem væri, einnig það, eins og dæmin sanna, að biðja útlendinga að flengja sig. En víkjum nú aftur að hinu mikla áhyggjuefni þeirra landsfeðra sem höfðu af því hvað mestar áhyggjur í allan fyrraverur að NATO og herinn á Miðnesheiði væru farin að sjást í allt of skýru ljósi.

Eftir að besk NATO-herskip höfðu enn einu sinni ráðist inn í íslenska landhelgi og gert þar hvað eftir annað hinar dólgslegustu árásir é íslensk varðskip, eftir að Nimrod-þotur breska NATO-hersins höfðu hótað loftárásum á íslensk varðskip, þá var það eitthvert allra mesta áhyggjuefni, ef ekki mesta áhyggjuefni vina þessa félagsskapar, hvernig hægt yrði að vernda NATO fyrir íslendingum, hvernig komið yrði í veg fyrir að æ fleiri gerðu sér ljóst hvers eðlis Atlantshafsbandalagið, hvers eðlis herstöðin á Miðnesheiði væri. Hin gamla og gróna kenning, að herinn og herstöðin og NATO, þetta væri allt okkur til verndar, hún hafði goldið alveg ægilegt afhroð. Þessi kenning, þessi falskenning var afhjúpuð sem einhver hrikalegasta pólitísk blekking í allri íslenskri stjórnmálasögu, og nú voru að sjálfsögðu góð ráð dýr. Um hríð var reynt að halda því fram að NATO og landhelgismálið væru alveg óskyld mál. En þó var jafnframt hlaupið til og NATO beðið um að hjálpa nú bretum, já, og íslendingum, skulum við segja, til þess að gera samning. Og það var ótæpilega hamrað á nauðsyn þess að slík hjálp kæmi og hún þyrfti að koma til þess að bjarga NATO á Íslandi. Sjálfs sín vegna og aðstöðu sinnar vegna hér yrði þessi félagsskapur að sveipa sig einhvers konar verndara- eða hjálpargervi. En þegar slíkt mistókst, þá þótti íslendingum, NATO-sinnum í áhrifastöðum, einsætt að lægja yrði þessa sívaxandi óánægjuöldu íslenskra gagnrýnenda sem voru nú farnir að gagnrýna NATO, og þetta yrði aðeins gert með því að koma á samningum, með því að losna úr þessari úlfakreppu. næstum því hvað sem það kostaði. Og hvað eftir annað í allan fyrravetur krafðist t.a.m. Morgunblaðið þess, að lífsbjörg íslendinga yrði seld fyrir NATO. Ég held að það hafi ekki heldur verið ráðandi öflum í Sjálfstfl. að þakka, heldur andstöðu mikils hluta þjóðarinnar, þ. á m. ýmissa ágætra sjálfstæðamanna, og andstöðu sem gætti óneitanlega hjá Framsfl., því miður einhvers síðasta vottsins af sjálfstæðri stefnumótun hjá þeim flakki áður en hann virðist hafa gefist alveg upp og farið að framkvæma stefnu Sjálfstfl. svo að segja í einu og öllu.

En það var ekki þessum mönnum að þakka, ekki Morgunblaðinu og ekki ýmsum forustumönnum Sjálfstfl. að þakka að ekki var miklu fyrr gengið til samninga við breta og ekki var gerður við þá miklu verri samningur heldur en Oslóarsamningurinn þó var. Það eru allt aðrir aðilar sem eiga þakkir fyrir þetta.

Svo vil ég aftur víkja nokkrum orðum að því, hvernig málin stóðu þegar sest var að samningaborðinu í Osló í vor. Ég ætla í örstuttu máli að rekja meginatriði þess sem ég er þegar að vísu búinn að nefna.

Í fyrsta lagi höfðu bretar tapað þorskastríðinu, um það var ekkert að villast, enda hafa þeir viðurkennt það síðar. Þeim hafði í fyrsta lagi ekki tekist að sundra íslensku þjóðinni, þeim hafði ekki tekist að sökkva íslensku varðskipunum. Breskir togaramenn töldu ástandið á Íslandsmiðum gjörsamlega óþolandi og vildu fara í land eða fara á önnur mið. En það, sem jafnframt þessu hafði gerst og hlaut ekki síður að valda því að bretar sáu sína sæng upp reidda og hlutu að sjá að leikurinn var tapaður, var sú þróun í alþjóðamálum í sambandi við hafréttarmálin sem ég hef þegar að nokkru lýst. Það var alveg ljóst að það gat ekki veríð nema spursmál um einhverjar víkur, hausta lagi einhverja mánuði, þangað til bretar voru knúðir til þess, m.a. af Efnahagsbandalagi Evrópu, að hætta þessari vitlausu stefnu sinni, þar sem Efnahagshandalag Evrópu var farið að telja það brýna nauðsyn og bretar raunar þar á meðal að færa út sjálfir í 200 mílur og gera það einhliða. Hver þjóðin af annarri, eins og ég hef þegar lýst, hafði ákveðið að færa út einhliða, og 200 mílurnar voru alveg ótvírætt búnar að sigra á Hafréttarráðstefnunni enda þótt önnur atriði gerðu það að verkum að allsherjarhafréttarsáttmál í hefur ekki verið settur enn þá.

Það var svo komið að þorskastríðið við íslendinga stóð í rauninni algjörlega í vegi fyrir því að bretar og Efnahagsbandalagsþjóðir Evrópu gætu mótað og framkvæmt þá stefnu sem þau voru loksins komin inn á í hafréttarmálum, þ.e.a.s. 200 mílna auðlindalögsögustefnuna. Þetta hlutu bretar að sjá, að þessu varð að linna, það gat ekki verið um annað að ræða en að hætta þessari margföldu vitleysu sem þeir höfðu steypt sér út i. Það var sem sagt íslenska þjóðin, samstaða hennar svo að segja órofa, með varðskipsmennina í broddi fylkingar, það voru þessir aðilar sem höfðu unnið stríðið, og það var þróunin í alþjóðamálum sem hafði orðið okkur geysimikil hjálp og raunar kippt öllum stoðum undan bretum í þessu heimskulega stríði þeirra. Afstaða þeirra var gjörsamlega vonlaus, og það hafa þeir viðurkennt eftir að þeir náðu samningunum í Osló.

Sá samningur, sem hér um ræðir, Oslóarsamningurinn eða samkomulagið frá 1. júní s.l., hefur bæði kosti og galla. Aðalkostirnir eru þeir, að við fengum frið á miðunum. Vissulega var það afar mikils virði, og það er vonandi að sá spádómur sé réttur sem kom hér fram hjá hv. frsm. meiri hl., að aldrei framar komi til þess að bretar heyi þorskastrið við okkur.

Annað, sem var mikils virði í sambandi við það að fá frið á miðunum og mikilvægt í þessum samningi út af fyrir sig, var að sókn breta í smáfiskinn hefur væntanlega minnkað verulega og íslendingar hafa nú heimild og hafa haft, eftir að samningurinn var gerður, heimild til þess að hafa eftirlit með veiðarfærum breskra togara.

Þetta allt skal ég viðurkenna sem kosti við þennan samning.

Hin óbeina viðurkenning á 200 mílunum, sem í samningnum felst og ýmsir talsmenn hans hafa gert jafnvel að aðalatriði málsins, hún er í mínum augum harla lítils virði í sjálfu sér, eftir að hún kemur fram, þegar það liggur í rauninni ljóst fyrir að allar þjóðir, sem máli skipta í þessu sambandi, eru á hraðri leið með að færa út í 200 mílur, þ. á m. bretar sjálfir og Efnahagsbandalag Evrópu í heild. Hefði þessi viðurkenning komið í fyrrahaust eða fyrr, þá var hún mikils virði og þá hefði mikið verið fyrir það gefandi að fá hana jafnhliða friði á miðunum.

Gallar samningsins eru þessir: Ég tel að við hefðum innan mjög skamms tíma losnað við breta, þ.e.a.s. losnað við bresku herskipin, þar sem það lá ekki annað fyrir hjá bretum heldur en að gefast upp, og þar með hefðum við náð fram meiri árangri e.t.v. Um það er erfitt að dæma, hversu langan tíma það hefði tekið, og ég skal ekki fara lengra út í það. En megingallinn á þessum samningi er í rauninni sá, að hann er að hálfu leyti eða jafnvel meira aðeins biðleikur, aðeins vopnahlé, eins og nú virðist komið í ljós, þar sem bretar sækja það fast og jafnvel er haft eftir utanrrh. þeirra að þeir telji það hið allra stærsta utanríkismál nú, ef ekki hið allra stærsta, að ná áframhaldandi veiðisamningum við íslendinga. Það, sem er allt í kringum þessa samningagerð og hefur komið í ljós ekki síst eftir á, er þetta, að hér virðist aðeins hafa verið um biðleik eða vopnahlé að ræða, en ekki það að við værum lausir við ásókn breta fyrir fullt og allt. Vissulega skal ég viðurkenna að það hefði mikið verið fyrir það gefandi og sá samningur til 6 mánaða hefði þurft að vera býsna slæmur að öðru leyti sem ekki væri unandi við ef við hefðum þar með losnað við veiðar hreta af Íslandsmiðum fyrir fullt og allt. En því er því miður alls ekki að heilsa. Hér hefur aðeins, að því er nú er greinilega komið í ljós, verið samið um vopnahlé, en því miður ekki um annað eða meira.

Af þeim sökum, sem ég hef nú rakið nokkuð og skal nú reyna að fara að stytta mál mitt, þá er einsætt að ég legg til að þessi till. um staðfestingu á samningnum við breta verði felld. Um þetta atriði er stjórnarandstaðan sammála. Fulltrúi Alþfl. mun hins vegar að sjálfsögðu gera grein fyrir rökum sínum gegn samningnum, og ég er ekki að halda því fram að þau séu í öllum efnum hin sömu og mín. Hann mun gera grein fyrir þeim, en niðurstaða okkar beggja hér hin sama.

Ég gat þess áðan, að það væri hægt að sætta sig við miðlungs góðan samning og jafnvel heldur slakan samning til 6 mánaða ef hann fæli það í sér að allri kröfugerð af breta hálfu væri þar með lokið, ef um það væri að ræða að við værum lausir við slíka kröfugerð af hálfu hreta fyrir fullt og allt. Nú verður mér sjálfsagt svarað því til að bretar muni ekki geta verið með neinar kröfur þar sem þeir hafi óbeint viðurkennt okkar 200 mílur og séu sjálfir ákveðnir í hví — eða Efnahagsbandalagið fyrir þeirra hönd — að færa út í 200 mílur. Það má e.t.v. segja að hið nákvæma lögfræðilega orð yfir það, sem bretar og Efnahagsbandalag Evrópu fyrir þeirra hönd kann að koma til með að gera, það sé ekki orðið kröfur. En þá eru þessir aðilar orðnir ákaflega mikið breyttir og ákaflega miklu betri í viðskiptum heldur en þeir hafa verið fram að þessu ef ekki verður beitt ýmsum áhrifameðulum og margvíslegum þrýstingi til þess að fá máli sínu framgengt. Og svo mikið er a.m.k. víst, að bretarnir leggja afar mikið upp úr því að leggja allt kapp á það að ná hér nýjum samningum, hvort sem þeir vilja sætta sig við einhverjar breytingar á þessum samningi frá því í sumar eða jafnvel vilja fá hann framlengdan óbreyttan. Um það skal ég ekkert segja.

Nú er mér tjáð að bað sé lögð nokkur áhersla á að flýta þessu máli sem við höfum verið að ræða um hér í dag, enda kann að vera að sumum finnist nú hver síðastur þar sem ekki eru nema 3 vikur eftir af samningstímabilinu áður en það er algjörlega tómt mál að tala um innihald þessa samnings nema þá sem sögulegt plagg. En ástæðan til þess, að þess var sérstaklega óskað að stjórnarandstaðan hraðaði því að gefa út nál., þannig að hægt yrði að taka þetta mál fyrir hér í dag, kann líka að vera sú, að hæstv. ráðh. og öðrum stjórnarliðum, sem bera þetta mál fyrir brjósti, finnst hreinlegra að vera búnir að fá staðfestingu Alþ. á þessum samningi áður en þeir setjist að spánnýrri samningagerð, næsta kapítula í þessari endalausu samningagerð sem virðist ætla að vera þeirra örlög, hversu lengi og hvenær sem þeir komast í stjórnarstóla.

Mér er tjáð, ég hef heyrt það í einhverjum fjölmiðli, lesið það í blaði eða heyrt það í útvarpi, að einhverjir sendimenn frá Efnahagsbandalagi Evrópu séu væntanlegir hingað núna á föstudaginn til þess að taka upp þráðinn, til þess að ræða um nýja samningagerð. Og nú eru það ekki bretar einir sem við eigum að mæta hér. Hingað kemur, skilst mér, eins og það var ákaflega virðulega orðað í þessum fjölmiðli sem ég er hér að vitna til, utanrrh. Efnahagsbandalags Evrópu, — það er hvorki meira né minna en utanrrh. þessa mikla stórveldis, eins og það var orðað, — hann er væntanlegur hingað, skilst mér, á föstudaginn kemur til þess að ræða um nýja samningagerð.

Nú hefur verið dálitíð fróðlegt — og ég get ekki lokið máli mínu án þess að víkja að því — hver viðbrögð tiltekinna íslenskra ráðamanna hafa verið í sambandi við þessar nýju fyrirætlanir breta og Efnahagsbandalagsins um viðbótarsamning um fiskveiðimálin við akkur íslendinga.

Ég held það þurfi ekki að leita mjög lengi að svari við því hvernig venjulegur íslendingur, bæði til sjávar og sveita, bregst við þegar bretar eða efnahagsbandalagsmenn fyrir þeirra hönd koma á þessari stundu til þess að semja um í framhaldandi fiskveiðar innan okkar landhelgi. Ég held að flestir muni segja sem svo: Herrar mínir, hér er ekki um neitt að semja, við höfum því miður engan fisk að láta, ekki ugga sem við þurfum ekki sjálfir að nota. — Og menn segja einnig, Ég held langflestir íslendingar: Við sjáum ekki að þið hafið neitt að bjóða, ekkert a.m.k. sem lítandi er á, í staðinn fyrir það sem þið viljið fá úr okkar hendi.

Þetta segjum við stjórnarandstæðingar, og þetta segja miklu fleiri. Ég hygg að það sé meiri hl. í öllum íslenskum stjórnarflokkum, fyrir því að segja eitthvað á þessa leið, að það sé ekki um neitt að semja, við höfum ekkert að láta og þeir hafi ekkert að bjóða.

En það eru þó þegar uppi raddir um það, að það sé ekki aðeins sjálfsagt að tala við þessa ágætu menn, heldur sé nauðsynlegt að setjast að samningaborði og ræða um það hvað þeir hafi að bjóða, og það er í rauninni látið í það skína, a.m.k. öðru hvoru, að það sé sjálfsagt að gera nýja samninga.

Hæstv. forsrh. talar yfirleitt fremur varlega og hann er ákaflega kurteis maður. Hann vill tala við þessa menn, segir hann, og það skil ég í sjálfu sér ákaflega vel. Hann er ekki sá maður sem skellir hurðum. En reynslan hlýtur að sýna það á næstunni hvort nú bregði svo við að það sé engin hætta á því að of mikil kurteisi í þessum efnum í viðskiptum við erlendar þjóðir leiði til — ja, ef ekki ófarnaðar, þá til hæpinna og jafnvel slakra samninga fyrir okkur.

Hæstv. sjútvrh., sem ég hefði gjarnan viljað ávarpa hér nokkrum orðum, að marggefnu tilefni hæði héðan af Alþ. og úr blöðum, er því miður ekki viðstaddir og ætla ég því að sleppa að langmestu leyti þeim smápistli sem ég ætlaði honum og verð að bíða betra tækifæris til þess að mestu leyti. Ég get þó ekki látið hjá líða að segja það, að mér hefur fundist það eiginlega alveg átakanlegt hvernig hann hefur verið að leita undanfarnar vikur með logandi ljósi að einhverju sem hugsanlega væri að einhver Efnahagshandalagsþjóðanna gæti boðið til þess að hægt væri að ná við þær því sem hann kallar gagnkvæma samninga. Sá piltur er ekki aldeilis smeykur við að láta af hendi nokkur þúsund tonn, kannske nokkra tugi þúsunda tonna handa útlendingum ef hægt væri að gera þá góða með því móti. Hann hefur verið að leita, og meðal annars. sem hann hefur fundið, — það hefur ekki alltaf verið bað sama sem hann hefur fundið, því það hefur verið jafnóðum rekið ofan í hann aftur sumt af því sem hann telur að hafi verið eitthvað til að hengja hatt sinn á í þessu sambandi, en þá hefur hann reynt að leita að einhverju nýju, — en meðal þess er þetta:

Í fyrsta lagi og það sem hann hefur talið einna mest um eru þessar síðustu síldarbröndur sem verið er að ná upp úr Norðursjó, enda þótt það liggi fyrir margítrekað að það sé hin brýnasta nauðsyn að hætta heim veiðum um sinn og loka þeim stað fyrir síldveiðum í nokkur ár. Þetta hefur að sjálfsögðu verið fyrsta haldreipið og kannske það stærsta. í öðru lagi eru það fiskveiðiréttindi við Grænland, þar sem allri vita að því miður er komin slík ördeyða að ekkert íslenskt skip hefur síðustu missiri gert að ég hygg, tilraun til þess að veiða, þar sem það er svo að segja vonlaust að fá það neitt sem nálgast það að vera sæmilegur afli miðaða við þann tilkostnað sem þar er um að ræða.

Í þriðja lagi hefur hæstv. sjútvrh. verið að tala um það, að við ættum að semja um það núna að veita Efnahagsbandalagsþjóðum eða bretum fiskveiðiréttindi ef einhvern tíma síðar kunni að glæðast það fiskur bæði við Grænland og við Norðursjó og kannske víðar að við hefðum áhuga á því að veiða hjá þessum þjóðum. En hví að gera um það samning nú? Er ekki skynsamlegra að bíða þangað til að því kemur að þeir hafi eitthvað að bjóða og við líka?

En svo er það fjórða sem ég hef heyrt hæstv. sjútvrh. halda fram í þessari dauðaleit hans að einhverjum tilefnum til þess að gera nýja samninga. Það er að hann telur að með því að kaupa það gegn svo og svo miklu af fiski veiddum hér á Íslandsmiðum nú að gera einhvern tvíhliða samning um verndun fiskstofna í Norðurhöfum, þá sé það ákaflega mikið keppikefli fyrir okkur íslendinga að semja um fiskveiðar gegn því að Efnahagsbandalagsþjóðirnar fari nú að hætta því að eyða fiskimið í Norðursjó eða við Grænland. Þetta er það allra nýjasta.

Mér hefur satt að segja blöskrað þessi dauðaleit hæstv. ráðh. svo mjög að ég gat ekki orða bundist um að rekja það stuttlega, en hefði gert það nokkru rækilegar ef hann hefði setið undir þessum umr., eins og mér finnst að hann hefði vel mátt vera.

En ég held nú, að þrátt fyrir þessa tilhneigingu, sem alveg sérstaklega hefur komið fram hjá hæstv. sjútvrh., sé ekki ofmælt hjá mér að flestallir muni ljúka upp einum rómi um það, að um ekkert sé að semja.

Að síðustu skal ég leitast við að draga saman í fáeinar setningar nokkrar helstu staðreyndir þessa máls, eins og það liggur fyrir að mínum dómi.

Sjálf málsmeðferðin er óeðlileg og ætti að verða viðvörun um það, hvernig ekki á að standa að mikilvægri samningagerð um landsréttindi eða um landhengismál við aðrar þjóðir. Það nær ekki neinni átt, eins og gert hefur verið í þessu tilviki, að stjórnvöld leyfi sér, eins og gerðist s.l. vor, að hraða afgreiðslu mála sem mest á Alþ., senda það síðan heim, jafnvel með óvenjulega mikinn fjölda mála hálfafgreiddan, auðsjáanlega í þeim tilgangi einum að losna við Alþingi áður en þau settust að samningaborðinu um eitt allra viðkvæmasta og stærsta utanríkismál þjóðarinnar. Síðan var því harðlega neitað að kveðja Alþ. til fundar á ný til að fjalla um samningana. En loks er þó viðurkennt, eftir mikið hik að því er virðist, að slíkt eigi að gera eða sé a.m.k. eðlilegt að gera, með því að flytja loks þá þáltill. sem hér liggur fyrir um staðfestingu þessa samnings þegar samningstímabilið er að mestu leyti líðið. Þetta ber að vita. Þetta tel ég vera viti til varnaðar, jafnvel þótt slíkt hafi komið fyrir áður.

Það sem áunnist hefur í landhelgismálinu og afar greinilega hefur komið í ljós síðustu mánuði og raunar síðustu missiri, það er ekki samningnum, sem gerður var í Osló, að þakka. Það er að þakka allt öðrum atriðum, eins og ég hef rakið. Og ástæðurnar til þess, að samningamennirnir íslensku í Osló gerður þó ekki verri samning en raun ber vitni, eru hinar sömu og hvað ettir annað í fyrravetur komu í veg fyrir að ráðamenn gerðu enn þá verri og stórum verri samninga heldur en þennan samning sem þó var gerður. Þær ástæður voru nær einhuga samstaða íslendinga og hörð andstaða þeirra gegn öllu þessu samningamakki, frækileg framganga varðskipsmanna okkar og siðast, en ekki síst mjög ör og mjög jákvæð þróun hafréttarmála, þar sem hvort tveggja gerðist, að 200 mílurnar sigruðu raunverulega á Hafréttarráðstefnunni og hver þjóðin á fætur annarri ákvað einhliða útfærslu á grundvelli þess frv. að hafréttarsáttmála sem fyrir liggur nú og vegna ágreinings um önnur atriði fyrst og fremst hefur ekki öðlast formlegt alþjóðagildi.

Þeir ágætu stjórnarliðar, sem eru að þakka sjálfum sér þann árangur sem náðst hefur í hafréttarmálum og Oslóarsamningurinn er að sumu leyti vitnisburður um, þeir ættu að koma þakklætinu á framfæri við rétta aðila. Það eru a.m.k. ekki þeir ráðamenn, sem allt of oft hafa staðið bognir í baki og jafnvel einnig hoknir í hnjánum frammi fyrir bretum og NATO, sem hafa sérstaklega til lofsyrða unnið í þessu sambandi. Það er þorri íslensku þjóðarinnar með varðskipsmenn og stjórnarandstöðu í broddi fylkingar, en vissulega með fylgi mjög margra liðsmanna úr stjórnarflokkunum að halda uppi hinum íslenska málstað. Þeir, sem stutt hafa og styðja enn Morgunblaðslínuna, sem í stuttu máli má orða svona: „NATO fyrst, Ísland síðar“ — þeir hafa ekki til sérstakra þakka unnið.

Og að lokum: Enn er fram undan landhelgisbarátta og enn sem fyrr virðist hún háð eftir sömu meginlínum og einatt hefur verið í íslenskri landhelgisbaráttu. Fáeinir ráðamenn virðast óðfúsir til að semja. Þeir eru að leita dauðaleit að átyllu til að framlengja breska samninginn í einhverri mynd. Vonandi komast þeir að raun um það, nú ekki síður en áður, að allur þorri íslendinga er andvígur samningum um frekari eða áframhaldandi veiðar útlendinga innan íslenskrar efnahagslögsögu. Okkur rekur engin nauður til að gera slíka samninga, og eins og sakir standa, meðan aðrar þjóðir hafa ekkert að bjóða okkur í skiptum sem máli skiptir, þá höfum við ekki ráð á því að gera fleiri samninga en orðið er í þessum efnum. Þvert á móti eigum við að gera öðrum þjóðum ljóst, að við verðum að hagnýta okkar fiskstofna sjálfir og bera sjálfir og einir ábyrgð á að þeir verði ekki eyðilagðir.

Þetta er hið eina svar sem ber að gefa utanrrh. og öðrum sendimönnum Efnahagsbandalags Evrópu þegar þeir koma hingað, væntanlega núna á föstudaginn. Síðan má gefa þeim kaffisopa áður en þeir halda heim.