09.11.1976
Sameinað þing: 17. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

28. mál, samkomulag um veiðar breskra togara

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það sýnist nú kannske þarf lítið að fara að halda ræðu hér í þessu máli. Menn þekkja nú afstöðu hver annars nokkuð til þess. Ég sé ástæðu til þess að hefja mál mitt á því að þakka hv. utanrmn. fyrir fljóta og góða afgreiðslu málsins. Mál skipuðust þar svo sem við mátti búast, að n. klofnaði. og er ekkert um það að segja.

Það hefur löngum verið sagt að skrifa mætti söguna með margvíslegu móti, og mér sýnist að sú hafi raunin orðið einnig hér í dag. Mér þykir það skrýtin landhelgissaga fyrir mitt leyti sem nefnir ekki nafn t.d. Hermanns Jónassonar að neinu í sambandi við útfærslu fiskveiðilögsögu, og þannig gæti ég auðvitað nefnt fjöldamörg nöfn. En ég ætla að stilla mig um það hér að þessu sinni, vegna þess að sú saga verður skráð annars staðar og af öðrum sem betur kunna til verka heldur en ég í því efni.

Ég sé ástæðu til þess að mótmæla því sem hv. 3. þm. Reykn. sagði í sinni ræðu, að sjálfshól ráðh. hefði verið svo mikið, þegar þeir komu heim frá Osló, að jafnvel landhelgisgæslan hefði gleymst. Ég held að það þurfi ekki annað en að fletta upp í málgögnum þessara sjálfsánægðu ráðh. til þess að finna því stað, að Landhelgisgæslunni var vissulega þakkað, eins og auðvitað sjálfsagt var. Hv. þm. Jóhann Hafstein rakti það sem eftir honum var haft, og það má áreiðanlega vitna í fleiri því til staðfestingar þó að ég muni ekki gera það að þessu sinni.

Hv. 3. þm. Reykn. talaði um síðasta þorskastríðið, og ég tek undir það með honum að hér var lokið síðasta þorskastriðinu í Osló 1. júní s.l. Ég er honum í sjálfu sér þakklátur fyrir að viðurkenna það, að sá árangur hafi náðst í Osló 1. júní að þorskastríðum er þar með lokið við breta. Það hlýtur að vera nokkur ávinningur, svo ekki sé nú meira sagt, að fá frið á miðunum, enda viðurkenndi hv. þm. það, eins og hans var von og vísa.

Það er alveg rétt, ég hef sagt það hér áður, að rétt sé að leggja samninga þessa fyrir Alþ., helst áður en þeir taka gildi, og það hefur í mjög mörgum tilvikum og flestum verið gert. Ég skal alveg fallast á það. En hinu vil ég mótmæla, að ríkisstj. hafi flýtt þingstörfum óeðlilega, rekið þingið heim, eins og nú er farið að tala um, til þess að geta sest að samningaborði. Og ég get sagt hv. þm. það alveg umbúðalaust, að ég hefði verið algjörlega óhræddur við að leggja þessa samninga fyrir hv. Alþ. ef það hefði setið þegar þeir voru gerðir og áður en þeir kæmu til framkvæmda, enda mun það koma í ljós nú við atkvgr. á eftir hvort það hefði ekki verið óhætt, því að Alþ. er skipað nákvæmlega sömu mönnum nú og það var í vor. Ég vænti þess að það komi þá í ljós hvort samningarnir hefðu verið samþ. í vor, eins og ég ætla og við höfum vissu fyrir, þeir sem að þeim stóðu.

Hinu mótmæli ég alveg, þó ég viðurkenni að rétt sé að bera slíka samninga undir Alþ. þegar þess er kostur, að stjórnarskráin hafi með þessu atferli verið brotin. Ég tel m.ö.o. að 21. gr. stjórnarskrárinnar hafi ekki verið brotin. Hún fjallar um afsal eða kvaðir á landi. Þessi samningur fjallar ekki um afsal eða kvaðir á landi, hann fjallar um landvinninga. Hann fjallar um það að tryggja okkur yfirráð yfir 200 mílna efnahagslögsögu sem við tókum okkur einhliða. Og það kalla ég landvinninga, en ekki afsal lands. Þess vegna mun og mótmæla þeirri skýringu hvar sem er, að um nokkurt stjórnarskrárbrot hafi hér verið að ræða. Hitt skal ég segja í þriðja sinn, að skemmtilegra hefði verið að leggja samningana fyrir Alþ., og ég hef reynt að standa þannig að málum þegar þess hefur verið kostur. Þegar þing hefur setíð og samningar hafa verið gerðir sem taldir hafa verið mikilvægir, þá hafa þeir verið lagðir fyrir Alþ. Og það er ekki ríkisstj. að kenna að kominn er 9. nóv. þegar samningarnir eru nú ræddir, væntanlega í síðasta sinn hér. Þeir voru lagðir fram í þingbyrjun, og það voru ýmsar ástæður sem ég ætla ekki að fara að rekja hér, en ég veit að hv. t.d. 3. þm. Reykn. þekkir, sem ollu því að samningarnir voru ekki ræddir fyrr á þingi heldur en raun ber vitni. Hitt skal ég endurtaka, að það er ekki við utanrmn. að sakast.

Já, samningarnir við vestur-þjóðverja voru taldir dýru verði keyptir. Það má vel vera að mönnum þyki það. En ég bendi á, að samningarnir við vestur-þjóðverja voru gerðir um fisktegundir sem þá a.m.k. var talið að þyldu þessa veiði. karfa og ufsa. Þeirri fisktegund, sem í mestu hættu var, þorskurinn, henni var að verulegu leyti hlíft og aðeins tiltekinn 5000 tonna afli, sem stafaði einungis af því að það kunni að slæðast með einstaka þorskur.

Ég get ekki fallist á það með hv. 3. þm. Reykn. að við höfum á einhverju stigi mála verið tilbúnir til þess að semja um 80–90 þús. tonna ársafla til handa bretum. Það, sem ég bauð í nafni ríkisstj. í þeim samningaviðræðum sem áttu sér stað og ekki leiddu til niðurstöðu, var 65 þús. tonn af fiski samtals, sem talið er að mundu hafa gert um 57–58 þús. tonn af þorski á einu ári. Ég held því fram að þetta tilboð sé lægra en það sem bretar gátu slitíð upp undir herskipavernd og þess vegna ber ég engan kinnroða fyrir það. Hitt er annað mál, að framkoma bretanna var þannig og frekjan svo yfirgengileg að jafnvel þetta tilboð fannst mér sjálfum vera ofrausn við þá eftir framkomu þeirra. En ég tel að við höfum ekki boðið meira en þeir hefðu getað náð með öðru móti, og það mundi hafa sýnt sig, tel ég, að þeir hefðu jafnvel getað veitt enn þá meira með gamla laginu, að maður nú ekki nefni það hættuástand sem var á miðunum þegar þessir samningar voru gerðir og fyrir þá og við öll þekkjum og höfum svo oft rætt hér um að óþarfi er að endurtaka það.

Það er talað um það oft og einatt að bretar hafi verið búnir að tapa þorskastríðinu þegar til Oslóarsamninganna kom. Það má vel vera að niðurstaðan hefði orðið sú, að bretar hefðu orðið að gefast upp. En staðreynd var að þeir voru ekki búnir að því og það stóð ekki til, og til þess að koma á eðlilegu ástandi voru þessir samningar gerðir. Hv. þm. Gils Guðmundsson viðurkennir þetta raunar þegar hann segir að það hafi verið í nánd, í seilingarfjarlægð, að bretar gæfust upp og það mundu ekki hafa líðið nema nokkrir mánuðir. En samningurinn var til nokkurra mánaða, hann var til 6 mánaða, og staðreynd er að bretar eru ekki enn búnir að færa út fiskveiðilögsögu sína, efnahagsbandalagið færir ekki út fyrr en 1. janúar. Það má vel vera að Efnahagsbandalagið hefði getað knúið breta til þess að hætta herskipavernd hér eitthvað fyrr, fyrir 1. des., en 1. júní voru þeir áreiðanlega ekki tilbúnir til þess.

Ég ætla nú ekkert að fara að ræða NATO hér, það er svo gamalrætt umræðuefni. Þá kemst hv. 3. þm. Reykn. verulega á skeið, þegar hann víkur að því, sem raunar er kannske ekki nema von, og síður en svo ætla ég að segja að hann skeiði ekki allbærilega þegar hann talar um annað, en þetta er óneitanlega besti spretturinn.

Það er talað um í þessu sambandi að það sé liðin tíð að sjálfstæð hugsun sé til í Framsfl. Ég get ekki fallist á þetta. Hitt vitum við náttúrlega, að gáfaðastir eru alþb. menn. Það liggur alveg fyrir. (Gripið fram í.) Ég er nokkurn veginn viss um það, sérstaklega með hliðsjón af kunningsskap mínum við þann sem kallaði fram í. (Gripið fram í.) Ég mótmæli því, að framsóknarmenn hafi ekki sjálfstæða hugsun, og ég mótmæli því, að hún komi ekki fram. Ég veit ekki betur en hv. 5. þm. Norðurl. e. hlusti svo að segja daglega á framsóknarmenn halda ræður þér á þingi um ýmis mál sem hann er algjörlega sammála, en ekki endilega vist að séu fengin að láni frá honum eða upprunnin í Norðurlandskjördæmi eystra, nánar tiltekið í Fnjóskadalnum.

Það er best að fara að slá botninn í þetta, vegna þess að það er auðvitað rétt, sem hér hefur komið fram, að þessir samningar eru að ganga sér til húðar, það er að verða liðin tíð að ræða þá og mestu skiptir auðvitað hvað við tekur. Ég hef aldrei getað vænst þess — og ég held að við gerum það engir — að það verði aldrei leitað til Íslands um samninga um eitt eða neitt í framtíðinni og það verði bundinn endir á sjálfstæðisbaráttu Íslands með því að slá botn í eitt skipti, setja punkt fyrir aftan landhelgismálið í eitt skipti fyrir öll. Þetta eru okkar auðæfi, og það er ekki nema við því að búast að aðrar þjóðir leiti til okkar um samskipti á þessu sviði. Það, sem mestu máli skiptir að mínu mati, er að við erum frjálsir að því að gera þá samninga sem í boði eru, við eigum ekki yfir höfði okkar árásir vopnaðra stórvelda til þess að knýja fram þá samninga sem við viljum ekki. Þetta er aðalatriðið að mínu mati.

Svo vil ég aðeins segja við hv. þm. 6. þm. Reykv., víkja að því sem hann sagði, að engin samstaða hefði náðst í landhelgismálinu fyrr en Sjálfstfl. og Alþfl. hefðu slakað á kröfum sínum. Þetta kemur mér ákaflega spánskt fyrir að heyra, að samstaðan um 50 mílurnar hafi náðst vegna þess að þessir flokkar hafi slakað á sínum kröfum. Slakaði Alþfl. á sínum kröfum þegar stjórnin var mynduð? Var ekki sagt af formanni Alþfl., sem þá var, að útfærsla fiskveiðilögsögunnar væri siðleysi sem enginn maður gæti verið þekktur fyrir að taka þátt í? Það minnir mig, þess vegna finnst mér að við eigum að reyna að halda okkur við það sem raunverulega hefur gerst, en ekki það sem við vildum að hefði gerst.