09.11.1976
Sameinað þing: 17. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

52. mál, endurbygging raflínukerfis í landinu

Flm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum að því hvað þörfin fyrir næga og örugga raforku er brýn. En e.t.v. finnst okkur það svo sjálfsagt að slík orka sé fyrir hendi, að við gerum okkur ekki næga grein fyrir því hvað mikið vantar á að ástandið sé viðunandi í þeim málum hér á landi.

Á undanförnum áratugum hefur verið unnið að rafvæðingu landsins frá samveitum og við framkvæmd þess verks það sjónarmið fyrst og fremst haft í huga að raforkan kæmist sem fyrst til allra landsmanna. Nú er þetta markmið að nást, og við þær aðstæður, sem hér hafa verið, munu flestir vera sammála um að þessi stefna var rétt.

En það leiddi hins vegar til þess, að reynt var að teygja línukerfið sem lengst með sem minnstum tilkostnaði, enda þótt afleiðingin yrði að styrkleiki þess og öryggi fyrir notendur hafi orðið í lágmarki. Það er því óhjákvæmilegt, að um leið og nú verður tekinn lokaspretturinn við að koma rafmagni frá samveitu til allra landsmanna þar sem það er framkvæmanlegt, en þar mun vera um að ræða á annað hundrað bændabýli sem á vantar, — um leið og þessum lokaáfanga verður náð, þá verði nú þegar gerð áætlun um endurbyggingu raflínukerfisins og framkvæmdir við það hafnar nú þegar.

Til þess að knýja á aðgerðir í þessu máli hef ég ásamt Halldóri Ásgrímssyni, Inga Tryggvasyni, Steingrími Hermannssyni, Ásgeiri Bjarnasyni og Guðrúnu Benediktsdóttur leyft mér að flytja eftirfarandi till. til þál. á þskj. 53:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta nú þegar gera áætlun um endurbyggingu raflínukerfisins í landinu, bæði stofu- og dreifilínur. Áætlunin verði miðuð við það, að á næstu 4–6 árum verði byggt upp fullnægjandi línukerfi, svo að hægt verði að anna eftirspurn eftir raforku til iðnaðar, húshitunar og annarra nota með nægjanlegu öryggi fyrir notendur um allt land.“

Það er þrennt sem benda má á að einkum þurfi að stefna að við framkvæmd þessa verkefnis, eins og sagt er í grg. þáltill. Í fyrsta lagi þarf flutningsgeta línukerfisins að vera næg. Í öðru lagi þarf að reyna að gera það sem öruggast, svo straumur rofni ekki, a.m.k. alls ekki nema skamma stund. Og í þriðja lagi þarf að vera völ á þriggja fasa orku.

Það er kunnugt hvað almenn þörf fyrir raforku vex árlega. Auk eðlilegrar fólksfjölgunar er alltaf verið að taka í notkun ný rafmagnstæki, bæði á heimilum og í atvinnurekstri. En þyngst á metunum í sambandi við þessa auknu þörf er þó húshitunin. Þó langt sé síðan farið var að nota rafmagnshitun í húsum, þá gjörbreyttist viðhorfið samt á því sviði við margföldun olíuverðsins. Að vísu fylgdi aukin jarðhitaleit í kjölfar þeirrar verðhækkunar og árangurinn hefur þar orðið betri en nokkur þorði að vona. Samt er augljóst að fjarlægð flestra húsa í strjálbýli og margra þéttbýlisstaða frá jarðhita er of mikil til þess að hægt sé að hagnýta jarðhitann. En á þeim stöðum, þar sem ekki eru þegar komnar hitaveitur eða verið að undirbúa þær, þá þarf nú þegar að gera áætlun um upphitun húsa og á hvern hátt sé best að haga upphitun þeirra, svo að markvisst sé hægt að vinna að því. Sums staðar mun t.d. vera hagkvæmt og jafnvel nauðsynlegt að byrja með fjarhitunarkerfi þar sem notuð væri raforka til upphitunar enda þótt möguleikar yrðu síðar fyrir hendi til þess að nýta jarðhita inn á kerfið. En mestu máli skiptir að gera sér sem fyrst grein fyrir því, hvernig hagkvæmast er að vinna svo að framkvæmdir verði ekki dýrari en nauðsyn krefur.

Það er augljóst að eftir því sem notkun rafmagns eykst hafa truflanir á því alvarlegri afleiðingar. Atvinnureksturinn stöðvast um leið og vélarnar hætta að snúast, frost geta valdið stórskemmdum ef upphitun bregst og bændur lenda í vandræðum með nauðsynlega skepnuhirðingu ef eingöngu verður að nota handaflið. Besta leiðin til aukins öryggis er hringtenging línukerfisins. Nú er langt komið lagningu hinnar svonefndu byggðalínu norður og austur um land, allt að Kröflu, og framhald hennar áfram til Austurlands og suður Austfirði hlýtur að koma á eftir. Og þegar faríð er að treysta á orku frá svo langri línu er áframhald hennar vestur til Sigöldu óhjákvæmilegt til þess að loka hringnum. En hringtenging stofn- og dreifilína innan héraða er ekki siður mjög brýn, svo að bilun á einum stað rjúfi hvergi straum. Slík tenging getur einnig aukið flutningsgetu kerfisins og því verið aðferð við að ná því markmiði. Og sama er að segja um þriðja atriðið sem ég nefndi áðan, þriggja fasa rafmagn, þar sem breyting línu úr einfasa í þriggja fasa eykur flutningsgetu hennar. En þriggja fasa rafmagn er t.d. nauðsynlegt við áframhaldandi tæknivæðingu landbúnaðarins þar sem nægilega stórir mótorar til súgþurrkunar og ýmis önnur tæki fást varla nema fyrir þann straum.

Á næsta ári mun í bili nást það mark að í landinu verði til næg raforka til að fullnægja þörfum þjóðarinnar. Það, sem þá vantar, er nógu traust línukerfi til að dreifa þessari orku til notenda. Það virðist því augljóst að næsta verkefnið í orkumálum hlýtur að vera endurbygging þessara lína til þess hvort tveggja í senn að bæta úr þeim orkuskorti, sem nú er víða til vandræða, og fá markað fyrir innlenda orku í stað þess að eyða gjaldeyri til kaupa á öðrum orkugjafa. Það fjármagn, sem til þessara framkvæmda mun þurfa, ætti því að gefa góðan arð. Og eins og ég sagði er sums staðar svo brýn þörf á að hefjast handa um aðgerðir að það má ekki dragast lengur.

Að lokinni umr. nú legg ég til að umr. verði frestað og till. vísað til hv. fjvn.