10.11.1976
Efri deild: 10. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

66. mál, vegalög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Mér þykir hlýða nú við 1. umr. þessa máls að segja hér nokkur orð, ekki síst af því að ég átti sæti í þeirri n. sem þetta lagafrv. samdi.

Það er rétt sem hæstv. ráðh. sagði að þetta nefndarstarf var allmikið og mikil vinna í það lögð, alveg sérstaklega af starfsmönnum vegamálaskrifstofunnar, enda má segja það að vinnubrögð þeirrar stofnunar yfirleitt séu mjög til fyrirmyndar. Þaðan stóð aldrei á hvorki upplýsingum né kortum eða öðru slíku sem við þurftum að glöggva okkur á, og ber sannarlega að þakka það þegar ríkisstofnun vinnur svo vel sem þar er gert.

Ég vildi þá einnig í framhaldi af því taka undir þau orð hæstv. ráðh., að vegamálaskrifstofan hefur einnig unnið mjög gott starf í valddreifingu út um landsbyggðina, hefur þar haft forgöngu miðað við ýmsar aðrar ríkisstofnanir og gert þar ótrúlega mikið gagn á stuttum tíma, þótt mér sé ljóst að þar þurfi enn betur að gera og þeir heimamenn, sem um þessi mál fjalla á hverjum einstökum svæðum, þurfi jafnvel enn þá rýmri ráð en þeir hafa í dag.

N. skoðaði sannarlega marga möguleika á breytingum á vegalögum og þá alveg sérstaklega gagnvart flokkun vega, því að í það fór aðalstarf n. Þegar þessar till. eru skoðaðar, þá þykir mönnum eflaust að breytingin hafi ekki orðið ýkjamikil þegar á allt er lítið. Það valt auðvitað á ýmsu í n. öðru hverju og menn voru þar ekki á eitt sáttir, en þetta var málamiðlunin sem allir að lokum felldu sig við.

Það er rétt sem hæstv, ráðh. sagði, það var skipuð n. þar sem menn voru frá hverjum þingi lokki. En vitanlega voru það ekki hin pólitísku sjónarmið sem þarna komu fyrst og fremst inn í, hin flokkspólitísku, heldur voru það kjördæmasjónarmiðin sem voru kannske meira ráðandi og stundum allsráðandi í sjónarmiðum og störfum okkar, eins og oft vill verða.

Ég ætla ekki að fara út í störf n. eða þær hugmyndir sem yfirleitt komu þar upp. Það er auðvitað rétt að geta þess alveg sérstaklega, að það koma þar upp mjög ákveðin á tímabili sú stefna, sem jafnvel hefði getað orðið ofan á þótt aldrei hefði um hana orðið samkomulag, að það yrði hringvegurinn einn og þá aðeins hraðbrautirnar til viðbótar sem yrðu í þessum stofnvegaflokki. Ég leyndi því hvergi í n. að ég óttaðist þá þróun. Ég benti t.d. á það þar, að Austurland var þannig sett að nær allir þéttbýlisstaðir á Austurlandi voru þá utan við þetta stofnvegakerfi. Auðvitað var þarna spurning um forgang, og ég er ekki að segja það að með því að flokka vegi í stofnbrautir og þjóðbrautir séum við að setja stofnbrautir í flokk nr. eitt, sem eigi að hafa forgang, og þjóðbrautirnar í einhvern annan flokk óæðri. Það er sem sagt alls ekki skilningur okkar, og ég veit að það er ekki heldur skilningur hæstv. ráðh. Hins vegar vitum við auðvitað um hinn aukna forgang sem hraðbrautirnar hafa haft og hafa verið lýsandi dæmi um, þar sem framlög til þeirra hafa á stuttum tíma aukist úr rúmum 30% í yfir 50%, ef brýr eru undanskildar. Þetta er slæm þróun fyrir landshluta eins og Austurland þar sem engin hraðbraut er. Við höfum hins vegar haft það okkur til bjargar að vera með landshlutaáætlun. Ef hún hefði ekki verið í gangi, þá veit ég ekki hver hlutur okkar hefði verið. Hann hefði sannarlega verið slæmur.

Ég sem sagt dró mjög í efa að á þessari forgangsþróun yrði mikil breyting með hringveginum svona þröngum, að hann yrði aðaluppistaðan í stofnbrautunum, og svo aftur hraðbrautunum. Sporin sem sagt hræddu. En því var vitanlega yfir lýst og kom beinlínis inn á fundinn til n. að það væri síður en svo ætlun hæstv. ráðh. að þarna væri um nokkurn forgang að ræða, og auðvitað fögnuðum við því. Mótrök margra þeirra, sem voru á því að halda þessu í þrengra forminu, voru þau, sem er auðvitað alveg rétt, að fyrir heildarsamgöngur í landinu öllu er þessi hringtenging og hún sem allra best, hún er auðvitað mjög mikilvæg, og það ber ekki úr því að draga að sú þróun verði sem hröðust að hringtengingin verði sem allra fullkomnust milli hinna einstöku landshluta.

Það var bent á hina vanræktu kafla milli héraða, milli kjördæma, þetta einskis manns land sem stundum hefur verið nefnt. Það var bent á Möðrudals- og Mývatnsöræfin, það var bent á Holtavöruheiði og þannig fengist í þessi stóru verkefni fjármagn átakaminna, án togstreitu heimamanna, sem vildu draga féð beint til sín inn í kjördæmin, en þessir vegir gleymdust. Ég gat fallist á sumt af þessu, en hitt vó þó þyngra og alveg sér í lagi gilti þetta auðvitað um minn landshluta vegna þess að þar er hraðbrautadæmið hreinlega ekki með.

Ég sagði áðan að hringvegurinn hefði farið fram hjá flestum þéttbýlisstöðum á Austurlandi. Á það var svo fallist, sem millileið að vísu til þess að fyrirbyggja misskilning, að það kom upp sú málamiðlun að lengja hringveginn eystra þannig að hann færi fjarðaleiðina og næði þannig til fjögurra þéttbýlisstaða í viðbót. Og um hina ýmsu möguleika, sem teiknaðir eru á kortunum, má margt segja, og síst er ég að halda því fram að málamiðlunin síðast gerða hafi verið í einu og öllu best, hvað þá eina rétta leiðin, því að auðvitað er það sem hér um gildir, það er framkvæmdin. Hér að vísu sá rammi sem vinna á eftir, en aðalspurningin verður alltaf um það hvernig verður unnið.

Hraðbrautirnar hverja nú sem sjálfstætt hugtak út úr vegalögum. En aðalspurningin verður auðvitað áfram um það, hversu allsráðandi þær verða í fjármagnsútdeilingunni, hvort það verður óbreytt frá því sem verið hefur og ég hef auðvitað oft gagnrýnt af ástæðum sem alkunnar eru. Áfram stendur í 3. gr. þessa frv.: „Stefnt skal að því að leggja bundið slitlag á þá vegarkafla, þar sem innan 10 ára má búast við 1000 bíla umferð á dag yfir sumarmánuðina.“ Auðvitað verður á þetta áfram sótt af fullum krafti. Það er í þessu atriði sem mál ráðast.

Náin framtíðarstefna í vegamálum á að mínu viti fyrst og fremst að beinast að því að gera sem allra mest af vegakerfi okkar sæmilega akfært sumar sem vetur. Og það þarf ekki hvað síst að huga að þeim vetrarvegum sem hafa þýðingu, annars vegar vegna ákveðinna miðstöðva í hinum einstöku landshlutum og framleiðsluvegunum sem ég svo kalla, sveitavegunum. Það er auðvitað rangt að kalla þá framleiðsluvegi, vegna þess að þar kemur miklu fleira til en flutningur á mjólk. Inn í það vefst einnig spurning um menntunarlega og félagslega aðstöðu þessa fólks sem þar býr. Ég hlýt því að fagna því að sjá á þskj. 62 till. frá nokkrum valdamiklum stjórnarþm. um það að flýta alveg sérstaklega uppbyggingu þjóðvega í snjóahéruðum landsins, og hlýt þá að líta þannig á að þeir muni sækja á það, þeir sömu þm., að eitthvað örlítið verði nú víkið af hraðbrautastefnunni, sem ég kalla svo, og þetta verkefni verði þá meira forgangsverkefni á næstu árum en það hefur verið. Ég fagna sem sagt þeirri till. og vona að í framhaldi af þessari breytingu verði hún samþykkt og að þessu verkefni unnið. Þetta er í raun og veru fyllri till. og víðtækari en sú till. sem ég flutti í fyrra um sveitavegi á Austurlandi, en meginhugsunin í þessari till. er þó í raun og veru alveg sú sama. Þeirri till. var vísað til ríkisstj. og hún sem sagt kurteisislega drepin með því móti og af þeirri einföldu ástæðu að hún væri ekki nógu víðtæk. Það er ekki hægt um þessa till, að segja. Hún er víðtæk, nær yfir landið allt, og við skulum því vona að hún verði samþykkt og að því svo unnið.

En allt þetta leiðir til þess, að áfram er það mín stefna, þó að stofnvegahugtakið hafi verið útvíkkað, að sá vegaflokkur hafi engan forgang frekar en hinn í sambandi við þjóðbrautirnar, og það vona ég að sem allra flestir geti verið sammála um. En sú hætta blasir þó víð, og hún er auðvitað auðskilin. Það er svo gífurlega mikið fjármagn sem þarf í hvern hraðbrautarspotta sem leggja þarf, að áfram vofir sú hætta yfir að meginhluti vegafjárins eða æ vaxandi hluti þess sogist inn í þetta hraðbrautakerfi. Ef þessu væri jafnað nokkurn veginn út, þá væri kannske ekkert við því að segja, en það verður auðvitað aldrei. Og þá auðvitað óttumst við það, t.d. eystra, að hvort tveggja verði útundan, þ.e.a.s. þeir stofnvegir, sem ekki ná marki 3. gr. um bundið slitlag, og svo hins vegar þjóðbrautirnar. Ég vil sem sagt treysta því, að með þessari breytingu á vegalögum verði einnig nokkur breyting hér á, og treysti hæstv. ráðh. mjög í því sambandi, því að auðvitað er þessi breyting á vegalögum lítils virði fyrir okkur, a.m.k. úti á landsbyggðinni, ef hún boðar ekki um leið í reynd nokkra breytingu á útdeilingu vegafjárins.

Það má auðvitað segja það, og það er rétt og inn á það kom hæstv. ráðh. nokkuð, að stóraukning vegafjárins í heild sé auðvitað sú lausn sem að ber að keppa. Við vitum að það er í mörg horn að líta í litlu samfélagi örrar uppbyggingar, en ég verð þó að segja það sem mína skoðun, að það hlýtur að teljast eðlilegt og sanngjarnt, að tekjur af umferð og því, sem henni er skylt, renni sem allra mest beint í Vegasjóð. Nú fer þessu hins vegar víðs fjarri. Það er aðeins litill hluti af þessum upphæðum sem rennur til endurbóta á vegakerfi okkar. Ég álit að frumskilyrði sé að á því verði mikil breyting, að tekjurnar af umferðinni, tekjurnar af farartækjunum, ýmsar tekjur því tengdar, renni sem allra mest beint í Vegasjóð. Ég þykist vita að hæstv. samgrh. reyni sem allra mest að beina fénu í þessa réttu átt. En staðreyndin er engu að síður sú að það fer allt of lítill hluti af þessu fé beint í þessi verkfeni þó að mikilvæg séu. (Gripið fram í: Það fer dálítið í brýr.) Jú, það fer líka í brýr, brýr eru í vegakerfinu, ég undanskil þær ekki vegakerfinu, og ég veit einnig að það eru mörg önnur verkefni sem kalla á þetta fjármagn, og síst skal ég á móti þeim mæla. En þetta er engu að síður mín skoðun og alveg sérstaklega vegna þess að hækkun t.d. á bensíni er yfirleitt alltaf réttlætt með aukinni þörf Vegasjóðs, sem réttmætt er, og þá þurfa þessar tekjur, m.a. af þessu, að renna sem allra mest í þennan sjóð.

Ég skal ekki hafa um þetta miklu fleiri orð. Ég hlýt þó að víkja að sýsluvegum örstutt. Þar er um mjög vanrækt verkefni að ræða, og ég held að okkur hafi tekist að sumu leyti að koma þar nokkru til vegar, þó ekki nógu, því að það er fyrirsjáanlegt, að þessir vegir verða þrátt fyrir þessar breytingar, sem við höfum þarna lagt til, áfram vanræktir. Það er rétt að geta um það, ég tók ekki eftir því hvort það kom inn í mál hæstv. ráðh., að ein af þeim leiðum, sem við ræddum þarna í fullri alvöru, var að kaupstaðirnir greiddu einnig til þessa sjóðs, sýsluvegasjóðs. Ég lýsti því yfir í n. og get lýst því yfir eins hér, að ég hefði talið það sanngjarnt og eðlilegt og stutt það — gerði það. Ég veit að það átti ekki að vera í jafnríkum mæli og önnur sveitarfélög. En kaupstaðirnir áttu líka að fá nokkuð þar fyrir sinn snúð, t.d. að leggja þá vegi að ýmsum útivistarsvæðum sem þeir þurfa ábyggilega mjög á að halda til þess að losna úr andþrengslum, að maður tali nú ekki um héðan af höfuðborgarsvæðinu, og komast í heilnæmara og betra umhverfi og andrúmsloft, svo að þeir hefðu nú fengið eitthvað fyrir sinn snúð. Ég held sem sagt, að þetta hefði verið leið sem hefði átt að fara. En um hana náðist einfaldlega ekki samkomulag, ekki innan n. út af fyrir sig, það var ekki deila um það þar, en með þetta mál var farið inn í þingflokkana og þar voru menn hreinlega ekki sáttir við þessa hugmynd sumir hverjir. Við sáum að þetta yrði átakamál ef út í það væri farið, og því var frá því fallið. En ég held hreinlega að það hefði verið á því rík þörf að þeir hefðu einnig lagt hér eitthvað af mörkum.

Það hefur læðst að mörgum sá grunur að ásókn sveitarfélaga í kaupstaðarréttindi stæði ekki í alllitlu sambandi við það að losna við þessi gjöld, sýslusjóðsgjöldin, og kannske hefur það í sumum tilfellum verið — fyrir utan stoltíð náttúrlega og upphefðina — aðalástæðan fyrir því að þessi sveitarfélög hafa verið að sækja í kaupstaðarréttindin. Og það á auðvitað ekki að mínu viti að vera að verðlauna þessa aðila fyrir það. Að þessu var ekki horfið. Ég tel það sem sagt miður, vil lýsa því hér yfir persónulega, að ég tel það miður, en ekki í okkar þingflokki frekar en að ég hygg öðrum gat orðið um það samkomulag að fara þessa leið.

Ég vil svo aðeins ítreka það, að áfram hlýtur það að vera meginatriðið í öllum okkar vegamálum hvernig fjármagnsdreifingin verður, og þar hlýt ég að vilja leggja áherslu enn einu sinni á framtíðarstefnu okkar núna um sinn. Meðan við eigum svona mikið af ófærum vegum sem jafnframt eru eins þýðingarmiklir og þeir eru, þá eigum við að leggja aðaláherslu á þá, halda vitanlega eitthvað áfram með hraðbrautir, en fara okkur heldur hægt í þeim efnum, — leggja aðaláhersluna á hitt, samgöngur innan kjördæma og innan héraða, einkum varðandi þá vegi sem tengja hina einstöku staði við vissar miðstöðvar þjónustu og uppbyggingar í hinum einstöku landshlutum.