10.11.1976
Efri deild: 10. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

66. mál, vegalög

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Þó að hæstv. samgrh. hafi orðið að víkja héðan úr salnum, þá vil ég eigi að síður láta það koma hér fram, að ég er ánægður yfir því hvernig hann ræddi um þetta frv. til vegalaga. Hann taldi eðlilegt og líklegt að á því gætu orðið nokkrar breytingar og bann mundi líta á það mildum augum. Ég segi þetta af því að fyrir mitt leyti tel ég rétt að kanna miklu betur en mér hefur enn þá gefist kostur á hvaða áhrif þessi nýja flokkun á vegum hefur á þróun vegagerðar í kjördæmi mínu og raunar yfir landið í heild.

Maður kemst ekki hjá því, að þegar lítið er á þessa nýju flokkun sem gert er ráð fyrir að hverfa að í frv., þá virðist breytingin vera ákaflega lítilvæg. Það má heita að sé eingöngu að steypt sé saman hraðbrautum og þjóðbrautum í einn flokk sem kallaður er stofnbrautir. Þetta er með litlum frávíkum. Landsbrautir, sem áður voru, eru nú nefndar þjóðbrautir, en ákvæði um gerð hraðbrauta með bundnu slitlagi eru algerlega óbreytt frá því sem er í gildandi veg aleigum, svo að ég sé ekki hverju þetta getur bjargað af þeim válegu hlutum sem hv. 7. landsk. þm., Helgi Seljan, hafði að athuga við hraðbrautirnar sem alls ekki höfðu komist inn í Austurlandskjördæmi. Það eru ýmis atriði þessu lík sem ég vil gjarnan átta mig ú, áður en ég samþykki þetta frv. algerlega óbreytt, hvernig muni verka á landið í heild. Ef það er rétt, sem mér virtist hv. 7. landsk. þm. leggja mikla áherslu á, að hraðbrautarákvæðin verkuðu ekki í þessu frv. eins og áður hefði verið, þá er þarna um eitthvað að ræða sem er dálitíð einkennilega dulið fyrir mér, og ég þarf að reyna að leita að því hvað það er, því að það skiptir að sjálfsögðu mjög miklu máli fyrir það umdæmi sem ég er þm. fyrir. Það vill nú svo til að Suðurlandskjördæmi hefur lengsta ríkisvegi af ollum kjördæmum landsins og það hefur einnig lengsta sýsluvegi af öllum kjördæmum landsins. (Gripið fram í: Það má vel una við það.) það má vel við una, ef rétt er skipt, það er alveg rétt. En ég fæ ekki séð að það verði á neinn hátt eðlilegri skipting á milli landshluta og á milli einstakra vega með þessu fyrirkomulagi á flokkum heldur en var eftir eldri gerð. En sem sagt, eins og ég sagði áðan, þá líst mér þannig á að breytingin sé ekki mikil og þess vegna er ástæðulaust fyrir fram að taka afstöðu með eða móti þessu frv. Ég vona að það sé þess eðlis að ég geti goldið því jáyrði mitt, og ég á von á því að svo verði þegar ég er búinn að kanna það til hlítar.

En það eru þarna viss atriði önnur sem mig langar lítils háttar að koma að, og það er t.d. í sambandi við sýsluvegina. Eins og ég gat um, eru sýsluvegir mjög mikilvægir fyrir mitt kjördæmi þar sem þeir eru lengstir af sýsluvegum í einu kjördæmi á landinu. Það er þess vegna enginn vafi á því, að það er þörf fyrir mikið fjármagn til þeirra. En ég ber dálítinn ugg í brjósti við fyrstu skoðun yfir þeirri fjáröflun sem þarna er ráðgerð. Eins og nú er, þá er á lagt sýsluvegasjóðsgjald í sveitarfélögunum sem svarar 3 dagvinnustundum fyrir hvern íbúa. Frv. gerir ráð fyrir að þessu verði breytt upp í 6 dagvinnustundir. Ég efast ekkert um að mjög víða er full þörf á þessari aukningu. En ég tel að hér ætti að setja lágmarkið heldur neðar, en að sveitarfélögin sjá ef ættu úrskurðarvald um það hvort þau færu upp í 8 dagvinnustundir, eins og hámarkið er í frv. Ég er ekki að gera því skóna að því verði breytt. En þar sem sveitarfélögin vilja leggja þetta á sig, þá kemur sú viðbót til góða innan þess sveitarfélags. Það er fram tekið í þessu frv., og það er eins í lögunum. Svo er eitt í þessu efni, sem ekki er hægt heldur að ganga fram hjá, að ég óttast það, ef þessari skyldu er breytt úr 3 dagsverkum upp í 6 dagsverk, að það dragi ekki úr þeirri óheillaþróun sem orðið hefur á síðustu árum, að þéttbýlisstaðirnir hafa sagt sig úr lögum við sveitarfélögin og gengið úr sýslufélögunum. Eins og sakir standa eru þéttbýlishrepparnir ekki skyldugir til þess að greiða nema helming móts við dreifbýlishreppana. Þeir hafa greitt 11/2 dagvinnustund fyrir hvern íbúa. Það mundi verða aukið með þessu móti upp í 3, og ég á ekki von á öðru heldur en það hefði heldur erfiðar afleiðingar fyrir samskipti þessara sveitarfélaga.

Ég segi þetta ekki fyrir þá sök, eins og ég aðeins kom að áðan, að mér sýnist ekki vera fullkomin þörf fyrir fjármagn í sýsluvegina. Þyngsli umferðarinnar á þeim hefur stóraukist hin síðari ár. Það er ekki einvörðungu að mjólkurbílarnir séu þyngri en áður hefur verið, heldur eru olíutankbílar, eins og allir þekkja, mjög stórir og þungir vagnar, og auk þess er farið í stórum stíl að flytja fóðurbæti lausan í tönkum heim á bæina, og það krefst líka öruggari og sterkari vega fyrir þá, þeir eru það stórir.

Ég sé ekki ástæðu til að ég hafi miklu fleiri orð um þetta frv. að þessu sinni hér þar sem ég á kost á því að fjalla um það í samgn. þessarar hv. d. En ég, eins og ég sagði í upphafi, er ánægður yfir því að ráðh. gerir ráð fyrir því að það gæti orðið um breytingar að ræða, og ég er hræddur um að það verði ekki hjá því komist að gera einhverjar breytingar á þessu frv., þrátt fyrir það að það lítur út fyrir að fela í sér ákaflega litlar breytingar frá því sem er í eldri lögum.