10.11.1976
Efri deild: 10. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

66. mál, vegalög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út frá þeim aths. sem hér komu réttilega fram hjá hv. 6. þm. Suðurl. Breytingarnar, sem málamiðlunin var um, eru að mínu viti mjög litlar, það er rétt. Ég tek það hins vegar skýrt fram, svo að það fari ekki á milli mála, að sú braut, sem ég hefði viljað fara í þessari lagasetningu, var töluvert á annan veg en þessi frv.- drög núna segja til um. Ég hefði auðvitað viljað ganga miklu lengra til móts við hið almenna þjóðvegakerfi okkar heldur en þar er gert og ákvarða þar beinlínis þau forgangsverkefni sem ég rakti áðan. En ég er á því að það þurfi að nást samstaða um þetta. Ég samþykkti í n. að fara inn á þessa málamiðlun, ekki síst vegna þess að mér sýndist á tímabili að sú stefna ætlaði að verða ofan á sem ég var enn þá hræddari við og var enn þá meiri hraðbrautastefna en nokkurn tíma núna ríkir. Það var þetta sem ég óttaðist, og því var það að þegar þessi leið var valin, þá féllst ég fúslega þar á. Það voru aðallega okkar ágætu embættismenn, - ég dreg ekkert úr þeirra starfi, síður en svo, gott að minnast samstarfsins við þá einmitt í þessari n., — það voru ekki hvað síst þeir sem voru að leggja þá linu í n, og auðvitað voru menn misjafnlega veikir fyrir henni þar. Þar voru m.a. menn eins og fyrrv. samgrh., þó að hann hefði ekki verið það mjög lengi. Af öllu þessu leiddi að á þessa málamiðlun féllst ég.

Ég ætla ekki að fara þér að útlista mína meginstefnu í vegamálum. Ég vil ekki heldur fara að taka það djúpt í árinni að ég ætli að fara að fordæma allar hraðbrautir, allra síst þegar ég er búinn að fá svona hrikalegan tölulestur eins og kom hér fram hjá hv. þm. Axel Jónssyni. hv. 10 landsk. þm. Ég viðurkenni nauðsyn hraðbrauta þar sem umferðarþungi er orðinn algerlega óviðráðanlegur. Það er alveg rétt. En ég bendi á það einnig, að í þeim kjördæmum. þar sem nú er verið að leggja hraðbrautarspotta, — ég er sannfærður um að mikill hluti íbúanna þar vildi miklu frekar að þessir peningar væru komnir í almennar vegaframkvæmdir í þessum kjördæmum. Ég trúi ekki öðru. Ef svona upphæð kæmi á Austurland. við skulum segja 20, 30, 40 eða kannske 50 millj. sem við mættum leggja í einhvern tiltekinn hraðbrautarspotta, þá mundi ég afþakka það til slíks hiklaust. Ég mundi vilja fá það inn í hið almenna vegakerfi okkar til þess að gera þar á úrbætur, og í því felst kannske meira en ég gæti sagt frá í löngu máli um mína almennu stefnu í vegamálum.