10.11.1976
Neðri deild: 10. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

50. mál, orkulög

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. vítir iðnn. þessarar d. Hv. þm. hefur beint því til forseta að þeir fylgist með því að n. vinni skyldustörf sin. Hv. þm. var ekki í iðnn. á s.l. ári af gildum ástæðum, en árið áður vorum við saman í iðnn. Þá var þetta frv. rætt, þá gaf ég skýringu á því af hverju frv. var ekki afgreitt. Það var verið að biða fram eftir vetri eftir umsögnum. Umsagnir komu frá Stéttarsambandi bænda, Búnaðarfélagi Íslands og Búnaðarþingi. Þessar umsagnir voru á móti þessu frv. Við ræddum þetta báðir, og ég man ekki eftir að það hafi verið neitt sérstakt ósamkomulag þótt frv. dagaði uppi á þessu þingi.

En frv. var aftur flutt haustíð 1975. Ég ætla að það hafi verið seint í októbermánuði. Í nóvembermánuði snemma var þetta frv. tekið fyrir í iðnn. Það var lítillega rætt. Ég kom með boð frá hæstv. iðnrh. til n. um það, að hann væri búinn að skipa n. til þess að semja frv. um þetta efni og hann ætlaði sér að flytja frv. á síðasta þingi, ekki eins og þetta þmfrv., heldur eitthvað öðruvísi. N. var sammála um að bíða eftir þessu frv. Það var enginn ágreiningur í n. Það er bókað. Öllum þótti eðlilegt að biða eftir þessu væntanlega stjórnarfrv. um málið.

En það er nú oft svo, að það tekur lengri tíma að semja frv. heldur en ætlað er. Þetta frv. var ekki flutt á síðasta þingi — enda þótt hæstv. iðnrh. hafi ætlað sér það. Það var ekki lokið við samningu frv. Frv. er ekki enn komið. En ég ætla að það verði ekki langt þangað til það sér dagsins ljós hér í hv. Alþingi.

Nú veit ég að hv. 3. þm. Reykv. finnst harla gott þetta frv. sem hann hefur flutt oft, eins og hann sagði áðan. En það gæti þó verið að það kæmi annað frv. um sama efni, sem hv. þm. þætti betra að samþ., en næði eigi að síður þeim tilgangi sem þessu frv. er ætlað að ná.

Ég held að það sé alveg óþarfi að tala um að iðnn. afgr. ekki þau mál sem til hennar berast. Það hefur iðnn. gert a.m.k. tvö síðustu þing, meðan ég hef verið form. í n. Þetta er eina málið sem hefur legið í n. og af gildum ástæðum. Af gildum ástæðum var þetta frv. ekki afgr. á síðasta þingi. Það voru allir um. sammála um að haga sér eins og gert var.

Ég get vel fyrirgefið hv. 3. þm. Reykv. þó að hann við hefði ýmis orð hér áðan. Ég veit að hann meinar ekki nema lítinn hluta af því, eins og þegar hv. þm. segir að Morgunblaðið sé það blað sem síst vilji hafa sannleikann á sínum síðum. Ég hélt satt að segja að hv. 3. þm. Reykv. væri reyndari í tali en svona. Ef það væri einhver annar eða ef þetta væri einhver viðvaningur, þá væri hægt að segja að maðurinn hefði gloprað þessu út úr sér og verið óheppinn í orðavali. En þetta er nú hreint aukaatriði. Það er líka aukaatriði, það sem hv. þm. var að vitna í áburðarverksmiðju-frv. Einars Olgeirssonar, hann hefði flutt það þing eftir þing og loks hefði ég orðið að láta undan og flytja frv. Allir vita að frv. þáv. ríkisstj. um breyt. á l. um Áburðarverksmiðju var allt annað og öðruvísi en frv. Einars Olgeirssonar. Þetta hefði hv. 3. þm. Reykv. einnig átt að muna og vita og vera ekki að glopra út úr sér svona fjarstæðu.

Ég geri ráð fyrir að það verði samþ. breyting á núverandi orkulögum í því formi að tryggja það, að þegar ríkið eða samfélagið þarf á að halda geti það fengið not af orkugjöfum og auðlindum þessa lands. Það má að vísu segja að þetta sé tryggt nú með eignarnámslögunum, sem alltaf er hægt að grípa til, og mati á því verðmæti sem um er að ræða. Svo reyndist á Suðurnesjum í sambandi við hitaveituna. Um hugrenningar þeirra, sem eiga þetta land, hvort þeir eru 20 eða 30, veit ég ekkert um, en hv. 3. þm. Reykv. var að vitna í hvað hugsunarháttur þessara manna hefði verið ljótur og óþjóðhollur. En hugsunarhætti manna verður ekki hægt að breyta með lögum. Almennt eðli breytist ekki þó við breytum lögum. En það fór vel á Suðurnesjum með þessi hitaveitumál. Það fór eins og Orkustofnun sagði í skýrslu sinni 1973 eða 1974, að kostnaður við orkuréttindin væri hreint aukaatriði og örlítið brot — rétt mælanlegt — af heildarkostnaði við virkjunina. Það fór þannig vegna þess að það var farið að lögum. Það varð samkomulag og það var mat á þessum réttindum sem réð úrslitum að lokum.

En enda þótt við höfum möguleika til að tryggja samfélaginu slík réttindi, þá er ég þeirrar skoðunar, að það megi ganga betur frá því með breyt. á gildandi lögum, en ekki endilega með þeim hætti sem er í frv. hv. 3. þm. Reykv.

Ég tel að það ráði ekki neinum úrslitum hvort lög um þetta efni taki gildi árinu fyrr eða seinna. Það hefur ekkert slys orðið af þessum drætti. Það þýðir ekkert að slá því fram að ekki séu möguleikar til að nýta þessa orkugjafa enda þótt lögum væri ekki breytt. Það hefur ekkert tafist þótt þetta frv. hv. 3. þm. Reykv. hafi ekki enn orðið að lögum.

Ég sé ekki ástæðu til, hæstv. forseti, að ræða meira um þetta frv. að þessu sinni. Hv. 3. þm. Reykv. sagði að ég hefði oft haldið langar ræður um málið. Þær eru þá í þingtíðindunum. Ég geri ráð fyrir, eins og hv. 3. þm. Reykv., að þm. þekki þetta mál, og þess vegna er ekki ástæða til þess að rifja upp það sem áður hefur verið sagt um það. En ég mótmæli því, að ég leggi það í vana minn að svæfa mál. Ég mótmæli því að iðnn. Nd. fari ekki eðlilega og rétt að við meðferð mála. Þess vegna var óþarfi fyrir hv. 3. þm. Reykv. að brýna raustina og hvetja forseta til þess að fylgjast með störfum iðnn. þessarar hv. d. Ég er alveg sannfærður um það, að ef hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, hefði verið í n. í fyrra, þá hefði hann verið sammála öðrum nm. um að bíða eftir væntanlegu stjórnarfrv. sem átti að flytja á síðasta þingi, en var ekki gert vegna þess að það tók lengri tíma að semja frv. og ganga frá því heldur en hæstv. ráðh. hafði gert ráð fyrir.