11.11.1976
Sameinað þing: 18. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

10. mál, votheysverkun

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Á s.l. sumri var mikil óþurrkatíð um mikinn hluta landsins. Talað er um óvenjulegt óþurrkasumar og svo var og um sumarið 1975. Þetta minnir áþreifanlega á hve bændur eru almennt háðir veðurfarinu um heyöflun. Þó mætti ætla að í allri þeirri tækniþróun, sem gengið hefur yfir landbúnað á síðari árum, stæðu bændur betur að vígi í þessu efni en áður var. En það er siður en svo. Fjárhagsleg skakkaföll bænda af völdum óþurrka gerast nú stórum alvarlegri en áður var, þar sem nú er svo miklu kostað til áburðar og heyvinnslutækja. Er því ekki að ófyrirsynju að talað er um hvernig bæta megi tjón sem þeir verða fyrir í óþurrkasumrum. En mest er um vert að forða frá tjóni með því að gera fóðuröflunina óháðari veðurfarinu.

Nú eiga ekki allir bændur landsins sammerkt í þessu efni. Um langt árabil hafa sumir bændur verið svo óháðir veðurfarinu sem verða má. Öll eða nær öll heyverkun þeirra hefur verið í vothey. Þeir bændur, sem beitt hafa þessari heyverkunaraðferð alfarið, eru samt allt of fáir. Þeir teljast frekar til undantekninga þegar lítið er á bændastétt landsins í heild. Þó eru þess dæmi, að allir bændur í heilum byggðarlögum verka hey sín í vothey, svo sem t.d. í strandasýslu og á Ingjaldssandi í Vestur-Ísafjarðarsýslu.

Með votheysverkun fá bændur öryggi svo sem frekast er unnt gegn duttlungum tíðarfarsins. Votheysverkun tryggir fóðuröflunina í óþurrkatíð. Votheysverkun firrar bændur áföllum og fjárhagstjóni sem þeir verða fyrir í óþurrkasumrum sem ekki hagnýta þessa aðferð.

En votheysverkunin er ekkert neyðarúrræði til að mæta óþurrkum, þvert á móti. Auk öryggisins, sem þessi heyverkun veitir um fóðuröflunina, fylgja aðrir hinir mikilvægustu kostir. Votheysverkun tryggir fóðurgildi heyfengsins, hvað sem líður tíðarfarinu. Þroskastig gróðurs er afgerandi fyrir næringargildið í grasinu og þá að sjálfsögðu í votheyinu. Eftir því sem jurtin þroskast verður trénið meira og fóðurgildið minna. Við votheysgerð þarf ekki að bíða þurrks til að slá þar til grasið er úr sér vaxið, en mikilvægi þess fyrir fóðurgildið verður ekki ofmetíð. Og ekki er hætta á því að slegið gras hrekist og missi þannig fóðurgildi sitt, því hey er hirt í vothey um leið og það er slegið. Með votheysverkun komast bændur hjá notkun fóðurbætis til að bæta hið lélega fóðurgildi sem fylgir úr sér vöxnu og hröktu þurrheyi vegna óþurrka. Er því um stórkostlegan fjárhagslegan hagnað fyrir bændur að ræða, svo mjög sem fóðurbætiskaupin vega mikið í útgjöldum búsins þegar byggt er á þurrheysverkun. Auk þess ber að hafa í huga hina miklu gjaldeyrisnotkun sem innflutningi fóðurbætis fylgir og þjóðhagslegan óhag.

Búnaðarmálastjóri má best um þetta vita. Í yfirliti sínu um landbúnaðinn árið 1975, sem birtist í dagblaðinu Tímanum 8. jan. s.l., segir hann um afleiðingar óþurrkasumarsins 1975 sem hér segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þótt heymagn landsmanna muni vera svipað eða aðeins lítið minna en árið 1974, þá er fóðurgildi þess gróft reiknað um 40 millj. fóðureiningum minna nú. Jafngildir það um 40 þús. smálestum af kjarnfóðri að verðmæti 1.5 milljarðar kr. Þrátt fyrir þetta stórfellda tjón hef ég engan bónda hitt sem ber sér vegna þess, og heldur ætla þeir að taka afleiðingunum með sinni venjulegu þrautseigju. Sumpart verður þetta gert með aukinni kjarnfóðurgjöf, en einnig munu hin lélegu hey draga mjög úr framleiðslunni.“

Þessi ummæli búnaðarmálastjóra eru mikið umhugsunarefni. Í fyrsta lagi sýna þau glöggt skaða bænda og þjóðhagslegt tjón sem fram kemur í lélegu fóðurgildi þurrheys í óþurrkasumrum. Í öðru lagi virðist koma fram í þessu tali aðdáun á viðbrögðum bænda við þessu ástandi. Þeir æðrast ekki og ætla að sýna sína „venjulegu þrautseigju“, segir búnaðarmálastjóri. Þeir kaupa bara meira kjarnfóður og framleiða minna. Þetta er að vísu aðeins sagt um árið 1975. En það endurtekur sig í ár og endurtekur sig í öllum óþurrkasumrum. Það, sem gildir fyrir bændur, er að koma í veg fyrir þennan vanda. aðdáanlegir eðliskostir íslenskra bænda hagnýtast betur með því að þeir beini æðruleysi sínu og þrautseigju til að breyta um heyskaparaðferðir til að gera síg óháðari höfuðskepnunum, heldur en að berjast vonleysisbaráttu við máttarvöldin.

Þá krefst votheysverkun miklu minni vélakosts en þurrheysverkunin. Hér munar svo miklu að það mun láta nærri að um a.m.k. helmings mismun sé að ræða. Þetta varðar ekki litlu þegar hafður er í huga hinn mikli vélakostur sem fylgir nútímabútækni. Hér er þá ekki einungis um að ræða að votheysverkun fylgi miklu minni stofnkostnaður vegna tækjakaupa, heldur og miklu minni rekstrarkostnaður véla. Kostnaður verður minni vegna aðkeyptrar viðgerðarvinnu. varahluta, bensíns, dísilolíu o.s.frv. sem rekstri slíkra véla fylgir. Er hér um að ræða atriði sem hafa veruleg áhrif á framleiðslukostnað landbúnaðarvara.

Enn kemur til sá kostur votheysgerðar sem eigi varðar litlu. Þurrheysverkun fylgir miklu meiri umferð um túnin, auk þess sem galtar sitja tímunum saman á túnunum og valda skemmdum. Það er auðvelt að stórspilla gróðri með mikilli umferð. Á undanförnum árum hafa verið gerðar tilraunir til að fá úr því skorið hvaða áhrif mikil þjöppun hefur á uppskeruna. Tilraunir á Sámsstöðum hafa gefið til kynna að tún með eðlilegri umferð, sem svo er kallað, gefi 1/3 meiri uppskeru en tún með mikilli umferð. Tilraunir á tilraunastöðinni á Akureyri henda í sömu átt. Þetta sýnir ótvírætt hver hagur fylgir votheysverkun einnig í þessu tilríki.

Ég skal ekki gerast fjölorðari um heyöflunina við votheysverkun, en aðeins taka fram til viðbótar að hún krefst minni vinnu en þurrheysverkun. Vinnsluþörf votheys er fremur lítil, en stöðug, og fóðuröflunin er einfalt verk og að mestu fyrir fram afmarkað í tíma og fyrirhöfn. Er þá gert ráð fyrir, að bændur sérhæfi sig og aðstöðu sína í vélakosti og byggingum til votheysverkunar. Þegar svo er um búið er leið fóðursins greið frá túni og fram á jötu. Þá er líka ekki einungis búpeningi tryggt hollt fóður, heldur eru og þeir menn, sem vinna við fóðrunina, firrtir óhollustu þeirri sem fylgir þurrheysfóðrun. Bægt er frá atvinnusjúkdómi þeim sem herjað hefur íslenska bændur, heymæðinni.

Það, sem ég hef hér sagt, er byggt á reynslu þeirra bænda sem um árabil hafa verkað allan eða meginhluta heyfengs síns í vothey jafnt í þurrkatíð sem óþurrkatíð. Mætti því halda að íslenskir bændur byggðu fóðuröflun sína að miklu leyti eða að mestu leyti á votheysverkun. En því er nú ekki að heilsa, siður en svo. Það er ekki nema lítill hluti af heyfeng bænda sem er verkaður í vothey. Þannig nam vothey árið 1913 aðeins 7.5% af heildarheyfengnum miðað við fóðureiningar, árið 1974 6.8% og árið 1975 8.4%. En ekki eiga allir bændur sammerkt í þessu efni, eins og ég áður sagði. Árið 1915 verkuðu t.d. bændur í Strandasýslu 57% af heyfengnum sem vothey. Mest var votheysverkunin í Fellshreppi, 92%, og þar næst í Kirkjubólshreppi, 86%. Það er rannsóknarefni út af fyrir sig hvernig stendur á því að íslenskir bændur hafa ekki altnennt notfært sér reynsluna af votheysverkun og lagt meiri áherslu á hana en raun ber vitni, jafnframsæknir sem þeir hafa verið í öðrum greinum búskaparhátta. Út í það skal ekki farið.

Í þessu sambandi skal þó haft í huga að votheysverkun er ekki skilyrðislaust öruggasta, ódýrasta og fyrirhafnarminnsta heyverkunaraðferðin. Til þess að svo megi verða þarf nægar haganlegar votheysgeymslur, réttan tækjabúnað og rétta meðhöndlun. Það stoðar ekki fyrir bændur að gripa til votheysgerðar við ófullkomnar aðstæður þegar í óefni er komið. Úr sér vaxið og hrakið hey getur aldrei orðið gott fóður. Það gengur ekki að gripa til votheysverkunar sem neyðarúrræðis í óþurrkatíð.

Haft er eftir einum strandamanni: „Allir geta gert vothey ef þeir eru ekki að hugsa um þurrhey.“

Svo furðulegt sem það má vera, þá virðist að mistök fyrir hálfkák í votheysgerð hafi mótað frekar almennt viðhorf til þessarar heyverkunaraðferðar en árangur þeirra sem alfarið hafa haldið sig við votheysverkun. Tregðulögmálíð um að taka upp bætta búskaparhætti hefur hér reynst svo sterkt, að jafnvel hefur verið neitað staðreyndum um gildi þessarar heyverkunaraðferðar. Þetta er nú að breytast. Menn neita ekki lengur staðreyndum. Eru því varnargarðar fordómanna að bresta í þessum efnum. Andspyrnan gegn votheysverkun hefur nú hörfað, ef svo mætti að orði komast í síðasta vígið. Er nú alvarlegt mál í senn orðið skoplegt. Það nýjasta er að hinn góði árangur strandamanna við votheysverkun eigi að vera til kominn af því að þar sé gras annarrar gerðar en annars staðar. Hvað þá um Ingjaldssand? Hvað þá um einstaka bændur víðs vegar um land sem hafa sömu reynslu og árangur af votheysgerð sem strandamenn? Hvað þá t.d. um norðmenn sem verka

i mörgum héruðum um 80% heyfengs síns í vothey? Hvað er þetta eiginlega? Skyldu rómverjar að fornu hafa fengið gras frá Ströndum til votheysgerðar?

Þáltill. sú, sem ég hef lagt fram á þskj. 10 og hér er til umr., felur í sér að ríkisstj. láti gera ráðstafanir til að stuðla að almennari votheysverkun en nú er.

Í fyrsta lagi skal þetta gert með því að kynna bændum reynslu þeirra, sem um árabil hafa byggt heyöflun sína að öllu eða mestu leyti á votheysverkun. Bændur, sem ekki hafa horfið að votheysverkun, þurfa ekki að þreifa sig áfram eða renna blint í sjóinn. Þeir geta fræðst um þessi efni hjá þeim bændum sem hafa kunnáttu og reynslu. Þarf að vinna skipulega að þessu sérstaka verkefni, svo sem með útgáfu upplýsinga, kynningarferðum bænda og með alhliða aðstoð ráðunauta þeirra og sérfræðinga.

Þá gerir þáltill. þessi ráð fyrir að hærri stofnlán verði veitt til byggingar votheyshlaðna en þurrheyshlaðna. Nú er þessu þveröfugt farið. Lán út á votheyshlöður eru 50% af matsverði, en 55% af matsverði þurrheyshlaðna. Auk þess kemur til styrkur til súgþurrkunarkerfis við þurrheyshlöðu.

Till. gerir ráð fyrir hærri lánum til votheyshlaðna. Auk þess kemur að sjálfsögðu til greina að veita meiri óafturkræf framlög til votheyshlaðna en nú er gert til að greiða fyrir þeirri þróun sem áriðandi er að verði.

Enn fremur er lagt til að sérstök stofnlán verði veitt til að breyta þurrheyshlöðum í votheyshlöður. Slíkt hefur mikla þýðingu. Í mörgum tífellum er hægt að breyta hlöðum, sem upphaflega voru gerðar fyrir þurrheysverkun, svo að í þeim megi verka vothey. En slíkar breytingar kosta fjármagn, og því er gert ráð fyrir sérstökum stofnlánum til að gera bændum slíkar breytingar auðveldari.

Þessi till. er ekki um að sett verði á fót n. til þess að athuga málið. Till. byggir á þeirri forsendu að málið liggi nógu ljóst fyrir til stefnumörkunar á þann veg sem lagt er til. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr rannsóknum. Almennar rannsóknir á heyverkunaraðferðum eru sjálfsagðar og raunar stöðugt verkefni Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. En slík starfsemi má ekki koma í veg fyrir eða tefja eðlileg viðbrögð við reynslu sem þegar liggur fyrir.

Þáltill. þessi gerir ráð fyrir að ríkisstj. verði falið að gera þær ráðstafanir sem þarf til að stuðla að almennari votheysverkun en nú er. Hér er ekki einungis um að ræða aðgerðir til að firra bændur áföllum og tjóni sem eru samfara óþurrkasumrum. Hér er um að tefla mál sem hefur mikla þjóðhagslega þýðingu. Það varðar ekki litlu fyrir þjóðarbúskapinn að fóðuröflun landbúnaðarins geti orðið hagkvæmari og ódýrari en nú er.

Hér er um mál að ræða sem ekki þolir bið, svo mikið er í húfi. Aldrei hefur verið meiri skilningur á málinu en einmitt nú. Ætla mætti að forusta landbúnaðarins léti málíð til sín taka og fylgdi því eftir. Sjást þess raunar nokkur merki. Þannig segir um þetta mál í ágætri forustugrein í blaði landbrh., Tímanum, 26. sept. s.l., með leyfi hæstv. forseta:

„Sannast að segja er ekki ámælislaust, hversu treglega hefur gengið að útbreiða votheysverkun í landinu og þá fyrst og fremst í þeim héruðum þar sem allir vita að votviðrin geta hvaða sumar sem er verið eins og sverð yfir höfði manna. Tvö síðustu sumur ættu að vera öllum rækileg áminning um að við svo búið má ekki standa.“

Herra forseti. Ég vænti þess að hv. Alþ. afgr. þessa þáltill. með skjótum og jákvæðum hætti, þannig að stefnumörkun sú, sem till. gerir ráð fyrir, firri a.m.k. Alþingi ámæli fyrir aðgerðaleysi í þessum efnum.

Ég legg svo til. herra forseti, að till. þessari verði vísað til hv. atvmn. þegar fyrri hl. umr. er lokið, og hef ekki meira um málið að segja.